Stundum klárast batteríin í orðsins fyllstu..

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu vefjagigt hefur rosaleg áhrif á líf manns hvern einasta dag. Auðvitað koma góðir dagar, fullir af orku og þá er hætt við að ég gleymi mér, dagar án verkja og þá eru eru mér allir vegir færir, allavega einhverja stund. Þá verður framúrkeyrslan og þú ætlar þér að gera allt sem hefur setið á hakanum dagana á undan. Orkuskotið er yndislegt finnst mér þá hittir þú aftur gömlu þig og getur næstum því allt meðan á því stendur.
Ég tel að ég sé svolítið ofvirk því ég get helst ekki verið án þess að gera ekki neitt nema það sé uppeldið að einhverju leiti. Snemma út að vinna, níu ára að brjóta pappaöskjur í Hraðfrystistöðinni gömlu og þótti nú ekki mikið mál heldur bara gaman og maður fékk jú einhverja aura útborgað fyrir vikið. Sem að vísu fóru í hendur foreldra minna en í staðin fékk ég að fara í bíó á hverjum sunnudegi sjúgandi apótekaralakkrís meðan á sýningu stóð.
Ég var alveg sátt við þetta fyrirkomulag enda sjálfsagt og eiginlega ætlast til að börnin leggðu til heimilisins um leið og þau gátu orðið vinnandi á sumrin. En..þetta var alltaf gaman. Enda tel ég ekki eftir mér að hafa kynnst því snemma að vinna. Maður lærði að hafa fyrir hlutunum og ekkert var sjálfsagt eins og í dag en það er önnur saga.
En þetta innslag hefur ekkert með vefja gigtina að gera..held ég. Talað er um að ýmis áföll geti triggerað vefjagigt og þeim hef ég vissulega orðið fyrir og mörg hver mjög alvarleg bæði andlegum og líkamlegum.
Ég hef barist við þunglyndi í mörg ár en fékk rétt lyf og fór að líða miklu betur í kjölfarið og fór að skapa.

 Innra með mér vaknaði listamaðurinn í mér og fór að blómstra og ég elska að útbúa fallega hluti s.s skreyta kerti fyrir hin ýmsu tækifæri.Eða vinna í tölvunni og útbúa fallega bakgrunna fyrir ljósmyndir sem ég svo set á kerti eða bara sem mynd í ramma. Ég er með síðu á feisbúkk sem heitir Gullkornin mín og KH Art en þar er ég að þýða falleg orð úr ensku og setja í fallega umgjörð.

Mér finnst alveg magnað hversu vinsæl þessi síða hefur orðið og er stundum að fá allt uppí "fjögur þúsund like" þegar mest hefur verið og fólk fær að deila þessum Gullkornum að vild. Þarna var ég að gera góða hluti ,greinilega og litlu telpunni inní mér, vöknaði um augu vegna hinna ýmsu fallegu viðbragða sem síðan fékk.

Meira að segja hef ég gefið út sögu,skáldsögu byggða á sönnum atburðum sem heitir Silfurskrínið á geisladisk því það er ótrúlega dýrt að gefa út bók í rituðu formi sérstaklega ef maður á ekki fullt af aurum.
Til stóð að sagan yrði þríleikur og var ég byrjuð á framhaldinu en það dregur svolítið úr manni að gera næstu sögu þegar peningana vantar en hinn kosturinn var ódýrastur að segja söguna inná disk. Það kostaði jú peninga en ekkert á við prentaða sögu með myndum. Ég hannað sjálf formið/mynd og texta sem var umslagið utan um diskinn og það kostaði líka að prenta það út en ekkert á við það sem það hefði getað kostað. Mætti mikilli velvild við beiðni minni um prentun á umslögunum og einstaka fundu í hjarta sínu að styrkja útgáfuna að fyrstu skáldsögunni minni  og fyrir það er ég innilega þakklát en það voru fáir þó svo ég hafi reynt mjög víða hér á heimaslóð.
Sagan var tekin upp í Studio Hebs  en elsta dóttir mín var upptökustjóri/leikstjóri og nefndu það og studdi við gömlu frá A-Ö.

Hún las handritið yfir fyrir upptöku og lagði til eitt og annað sem betur mátti fara sem og var gert. Enda er hún sjálf meiriháttar penni og skemmtilegt að lesa það sem hún skrifar. En einhverra hluta vegna gekk mér illa að selja söguna af einhverju viti. Hvað olli því veit ég ekki..kannski finnst fólki ekki mikið varið í að kona gefi út skáldsögu hér í eyjum en hvað veit ég. En ekki má gleyma að ég fékk jú viðurkenningu fyrir útgáfuna, fallegan blómvönd og það gladdi mig.


Þegar listagyðjan steig út eftir að hafa verið falin innra með mér prófaði ég ýmislegt til að sanna fyrir mér að það var í raun ekkert það sem ég gæti ekki gert ef ég legði mig alla í það sem ég var að gera í það og það skiptið.
Ég reyni að láta mér aldrei leiðast og finn mér alltaf eitthvað að gera hversu lítið sem það er en stundum þarf ég hvíld ef ég fer framúr mér og þá er yndislegt að hvílast,hlusta á góða sögu og sofna.


Það pirra mig reyndar,dagarnir í vefjagigtarköstunum þegar mér verður lítið sem ekkert úr verki og það getur vissulega dregið mann niður en við því er ekkert að gera nema létta verkina með verkjalyfjum og hvílast.
Bakið mitt hefur stundum svikið mig gegnum tíðna í fyrsta skiptið þegar ég var í íþróttum á yngri árum en ég meiddi mig illilega í bakinu er ég lenti illa eftir hástökk og hef aldrei jafnað mig almennilega eftir það fall.
Og svo eftir að detta í hálku fyrir tæpu ári versnaði mjóbakið mitt enda urðu áverkar í nokkrum liðum neðarlega í bakinu og fyrir því finn ég daglega en mismikið.

Meira vælið hugsar einhver hahahahaha..en þetta er ég í hnotskurn,þetta sést ekki utan á mér en er þarna samt sem áður.

Það er annað sem hefur verið að læðast að mér og nokkuð oft undanfarið og það er þessi fjárans ofsakvíði. Hann skellur á manni skyndilega og ekki séns að útskýra af hverju/hvers vegna. Hvar og hvenær sem er heltekur þessi fjári líkamann og hjartað fer á fullt. Þessu fylgir mikil hræðsla og á stundum ferðu að ofanda eða einfaldlega að gráta því þér líður svo illa. Tilfinningin er þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að deyja. Þetta er óþverri sem ég vildi alveg vera án takk fyrir. Ég og vefja erum ekki bestu vinir enda fylgikvillar hennar ótalmargir sem ég nenni ekki að telja upp og hrjáir fólk mismikið og það eru margir sem ég veit um í þessum sporum sem eru mjög illa haldnir og miklu verr en ég.

En þrátt fyrir eitt og annað ekki alveg nógu gott þá er svo margt sem ég má vera þakklát fyrir og það ber að þakka og njóta.
Það styttist óðum í jólin og jólabarnið í mér er að vakna úr dvalanum og byrjuð að hlakka til og farin að huga að jólagjöfum handa ástvinum mínum.
Finnst jólin og allt umstangið kring um þau alveg hreint yndislegt og þessa ætla ég að njóta meðan ég fæ að ganga þessa jörð.
Kveðja úr Kollukoti
Njótið dagsins og ekki gleyma að faðma þá sem þér þykir vænt um
á morgun gæti það orðið of seint elskurnar



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband