12.4.2012 | 10:16
Þegar perlur slitna úr festinni....
Öll eigum við okkar akkilesarhæl.
Hann er mismikill hjá sumum en hjá öðrum stór og oft óyfirstíganlegur eða svo virðist vera.
Með hjálp er oftast hægt að laga það sem aflaga fer í lífi hvers og eins en þar skiptir meginmáli ástin og væntumþykjan .
Og leyfa viðkomandi finna að þér er ekki sama, ekki útiloka algjörlega eða láta sér fátt um finnast.
Hafa samband og heyra í viðkomandi þó ekki sé annað.
Ég held að loka algjörlega á einhvern og skilja hann eftir í lausu lofti sé ekki það rétta en það er mín skoðun og sama hversu vel tekst til eða illa þá elskar maður börnin sín þrátt fyrir allt.
Auðvitað verða vonbrigði með einstaklinga innan fjölskyldu sem ekki ganga réttan veg í lífinu en það er ekki þar með sagt að það eigi að loka og læsa öllum dyrum eins og sumir vilja gera.
Þessir einstaklingar eru perlur sem slitnaði úr festinni og það getur tekið tíma að þræða perluna aftur á sinn stað.
En til þess þarf lækningu,ást og umhyggju fjölskyldunnar og þá á ég við alla fjölskyldumeðlimi
Í mínum huga sem móðir eru öll börnin mín mér jafn dýrmæt og ég geri ekki upp á milli þeirra hvar svo sem þau eru stödd í sínu lífi.
Mínar dyr munu alltaf standa opnar svo fremi að ekki sé valtrað yfir mann .
Komið fram að kurteisi og virðingu bæði við mig og aðra
Yfirgangur er ólíðandi eins og virðingarleysi ,útúrsnúningar ,tilætlunarsemi ásamt þvermóðsku og öskrum á fólk sem vill vel og rétta hjálparhönd til að leiðbeina á rétta braut.
Þetta þekki ég að eigin raun og oft verð ég döpur eftir samtal og ráðleggingar sem sagt er já við en svo er ekkert farið eftir neinu.
Bara hjakkað í sama gamla farinu svo í jarðvegin hefur myndast djúp sprunga sem þessi einstaklingur á bara eftir að sökkva ofaní og þá er illt í efni.
Allar góðar ráðleggingar,hvatning er ýtt undir teppið og grafin dýpri skurður í hvert sinn sem þessi einstaklingur ákveður að hans leið er sú eina rétta
þrátt fyrir að margbúið er að benda á hvaða leið hann er að fara sem er beint til glötunnar ...nema að hann óski eftir hjálp frá fólki sem kann sitt fag. Fyrr verður ekki bati hvað svo sem einstaklingurinn segir eða telur sér trú um.
Ég á bréf í fórum mínum þar sem ég úthelti sorg minni og tárum vegna einstaklings sem var í þessum sporum. Leitaði samt hjálpar með minni aðstoð og annarra.
Og þá kviknaði vonin í brjósti mér og ég trúði því statt og stöðugt að nú væri öllu bjargað.
Þetta bréf hef ég geymt í mínu lokaða skríni þar til fyrir stuttu og bréfið fór þá leið sem það átti alltaf að fara eftir geymslu í nokkur ár. Og ég trúði því..líka þá ...að eitthvað merkilegt væri að fara að ske. Því við mig voru orð sögð sem glöddu hjarta mitt svo langt sem það náði að nú væri þetta bara búið og ætti að byrja nýtt líf og þá fann ég stað og stund fyrir bréfið mitt sem ég skrifaði forðum. Og það get ég sagt að í þau skipti sem ég hef lesið bréfið sem ég skrifaði forðum þá græt ég enn vegna þeirra ömurlegu minningar sem bréfið minnir mig á.En líka vegna þess að það gaf mér von.
Eftir viðtöku bréfsins míns fékk ég svar sem var innilegt og fallegt því ég hafði spurt hvort þetta hefði verið rétti tíminn að fá þetta bréf í hendurnar. "Já þetta er rétti tíminn..ég grét er ég las það" ..voru viðbrögðin.
Og enn og aftur fylltist hjarta mitt trú. Ég hvatti og ýtti undir allt það góða sem var í boði en það var ekki til umræðu að fá aðstoð við lækningu. Þetta yrði bara að gerast af sjálfu sér var svarið sem ég fékk og undir niðri vissi ég að það myndi aldrei ganga upp.
Svo skurðurinn dýpkar...meðan... ekkert er gert og sorglegt til þess að vita að hendur manns eru bundnar nema vilji sé fyrir hendi að koma upp á yfirborðið og þyggja hjálpina.
Ef ég þarf að skrifa annað bréf eins og forðum þá verður það bréf gleði, ánægju og hamingju yfir að hægt verði smá saman að þræða perluna á sinn stað á festina mína. Og þá verður allt fullkomið..
Eigið góðan dag elskurnar
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt 1.5.2012 kl. 07:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.