22.1.2013 | 08:33
"Ég trúði vart mínum eigin augum"..
Ég bjó að Hásteinsvegi 5 efri hæð,gosnóttina. Höfðum farið að sofa fyrir miðnætti og litla dóttir mín Helena aðeins 6 mánaða auðvitað löngu sofnuð.Ég hrökk upp um nóttina við mikinn titring og þar sem herbergisglugginn snéri út að Hásteinsveginum sá ég ekki strax hvað hafði gerst en rauður bjarmi blasti við og þá var ég viss um að það hefði kviknað í einhversstaðar nærri og þar væri mikill eldur. Hljóp upp á efstu hæð en þar er herbergi með gluggum í austurátt. Og sjónin sem blasti við var ólýsanleg.
Ég hreinlega sá þegar sprungan opnaðist og það var eins og rennilás væri opnaður. Ég varð hálflömuð við að sjá þessa sýn og trúði ekki mínum eigin augum. Þessi mynd þarna í austurglugganum verður alltaf til í undirmeðvitundinni.
Við fórum í það að vekja íbúana í húsinu en á efstu hæðinni bjó sonur mannsins á neðri hæðinni hann Hermann gamli og hans kona. Sonur hans ætlaði ekki að trúa okkur fyrr en við sýndum honum sýnina sem blasti við út um austurgluggann.
Ég tók barnið úr rúminu sínu og klæddi og síðan fórum við út í skúr sem var bak við húsið..náðum í vagninn undir barnið og héldum heima að Hvoli v/Urðarveg 17 en þar bjuggu foreldrar mínir og systur. Ekki voru allir heima við er við komum.. því karlinn hann pabbi hafði skroppið eitthvað austur eftir og mig minnir Anna systir með honum en kallinn ákvað víst að fara að taka myndir af þessum hamförum.Loks þegar þau létu sjá sig fórum við öll niðrá bryggju og biðum róleg eins og allir sem voru þarna.
Það var nú ekki mikið talað..einhver stóísk ró yfir öllum eða kannski voru allir í svona hrikalegu áfalli (eftir á að hyggja)
Við biðum bara eftir að komast um borð í bátana og þegar röðin koma að okkur fjölskyldunni fórum við um borð í Gjafar.
Sjóferðin var fyrir mig hræðileg, hef aldrei á æfi minni verið svona sjóveik og var meira og minna meðvitundarlaus á gólfinu undir einhverju borði. En bjargvættur minn þessa ferð var Anna systir mín sem hugsaði um Helenu litlu alla leið til Þorlákshafnar. Faðir litlu minnar hafðist við úti á þilfari ásamt fleirrum Það var ekki fyrr en búið var að koma okkur frá borði í Þorlákshöfn og um borð í rútuna..þar sem ég settist með litlu stelpuna mína í fanginu og útvarpið var í gangi. Skyndilega kemur rödd þularins í útvarpið og hann segir eitthvað í fyrstu en svo sagði hann þessi orð sem vöktu mig.."Eldgos er hafið á Heimaey" og þá á þessu augnabliki er ég gerði mér grein fyrir hættunni sem við vorum í og hvað hefði virkilega gerst..brotnaði ég og grét eins og barn..- Leiðin til Reykjavíkur og sá tími að ferðast með rútunni er ekki til í minningunni. Einhvernvegin hefur þessi reynsla þurrkað það út. En til Reykjavíkur komum við og þar var tekið vel á móti okkur ég get ekki einu sinni munað hvað skóla við vorum í sem var einn af björgunarstöðvunum.allt þurrkað út. Eina sem ég man hvað fólkið sem tók á móti okkur var hlýlegt og vildi allt fyrir okkur gera. Og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Við komum í því sem við stóðum..engin aukaföt né neitt..við vorum þarna allslaus.
Seinna meir fengum við inni ásamt foreldrum mínum inni í Vogum á Vatnsleysuströnd í þokkalegu húsi sem heitir Sólheimar og þar dvöldum við í þó nokkurn tíma. Svo fluttum við öll inn í Hafnarfjörð á Strandgötuna beint á móti slippnum og dvöldum þar um tíma áður en við ákváðum að flytja aftur til Eyja en það var í júlímánuði 1973.
En sú ákvörðun var tekin eftir að ég og sambýlismaður minn ásamt frænku minni og einni vinkonu skutumst með Douglasvél út í Eyjar að skoða okkur um.
Enn stóð spýjan upp úr fellinu er við lentum í Eyjum. Við fórum bara fótgangandi um bæinn..upp að Geirlandi við Vestmannabraut en þar var heimili frænku minnar hennar Huldu.
Allt var svart..svart og grátt að lit. Við fórum inn heima hjá Huldu og skoðuðum okkur um fórum niður á neðstu hæðina og þar sem ég ætlaði að beygja mig eftir hlut sem lá á gólfinu var eins og ég lenti á vegg..rétt niður við gólfið. Fékk að vita það hjá einum reynslumiklum manni að það hafi verið gas sem lá eins og teppi niður við gólf. Sá hinn sami skammaði okkur fyrir að vera þarna á þessum slóðum án þess að nokkur maður væri með okkur og liti til með okkur græningjunum en það var hann Högni sem býr í Helgafelli í dag. Hann var á ferðinni á litlum jeppa og hirti okkur upp.
Hann fór með okkur vítt og breitt og svo uppí Helgafell þar sem hann bauð okkur upp á kaffisopa og spjall. Og ég man hversu skrítið mér fannst að sjá í öllu þessu svarta og gráleita umhverfi að inni við stóð þessi fallega rauðbleika lilja..sperrt og falleg.
Við fórum síðan niður á Hásteinsveg 5 til að skoða aðstæður. Kolsvartur vikurinn náði víða upp að efri hæðinni. Við komust samt inn um aðaldyrnar og kíktum inn. Allt leit svo sem þokkalega út og ekkert skemmt.
Eftir þessa heimsókn ákváðum við að flytja aftur heim sem við gerðum í júlí á gosárinu.
Það var svolítið undarlegt að koma heim aftur..hvert sem litið var blasti við þessi svarti litur sem lá yfir Eyjunni okkar. En fljótlega var byrjað að hreinsa götur...húsþök og garða. Samfélagið á þessum tíma var svolítið sérstakt enda ekki mjög margir sem voru fluttir aftur heim.
En það sem er mér ógleymanlegt er þegar ljós fóru að kvikna smá saman í húsum í bænum eins og kveikt væri á jólatré og það var yndisleg sjón. Farfuglarnir voru búnir að finna æskustöðvarnar aftur.
Ekki voru allir jafnheppnir og við.. því það misstu svo margir húsin sín í þessu eldgosi og sumir snéru aldrei aftur til Eyja.
Foreldrar mínir misstu sitt hús Hvol við Urðarveg 17. Amma mín Ingibjörg frá Vatnsdal og allt það fólk sem bjó í þessu tignarlega húsi varð að sjá eftir því er hraunið kramdi það og braut. Haukur Högnason frá Vatnsdal bjó neðan við Vatnsdal missti sitt hús. Dúdda systir mömmu minnar og Bjössi sem bjuggu að Grænuhlíð 13 missti sitt hús. Anna og Högni bróðir mömmu minnar áttu heima við hliðina á Dúddu og Bjössa og misstu sitt hús. Þannig að það var stór hluti minnar fjölskyldu og skyldmenna sem missti sitt í þessum hamförum. Eftir eru sár og minningar sem verður aldrei bætt.
Öll þessi reynsla sem mun aldrei gleymast varð seinna meir til þess að ég settist niður við að búa til ljóð um þennan atburð en þá var ég 23 ára.
Á þessu ári 2013 er 40 ára afmæli Eldgossins á Heimaey var ljóðið mitt "Yfir eld og glóð" valið til flutnings við lag Þorvaldar Bjarna og verður frumflutt í Hörpunni 26 janúar n.k.
Ég læt ljóðið fylgja með hér í lokin enda ekki bara mitt ljóð heldur tileinkað ykkur öllum.
"Yfir eld og glóð"
Ég aldrei mun gleyma er titrandi stóð
sjá jörðina opnast og þeyta upp glóð
ég starði og starði á ösku og eld
sem breiddi út sinn eldrauða feld.
Ógnandi drunurnar kváðu þar nið
með barnið í fanginu flúðum við
í ógnandi örmum skildum við allt
niðri við bryggju stóð fólkið þar,margt
Á bátum var flúið á meginlands strönd
þar tóku á móti okkur vinir í hönd
með alúð og vinsemd þau tóku oss í mót
þó pláss væri lítið, það skipti ekki hót.
Seinna er fórum við heim til að sjá
ummerkin eftir eldsins gjá
húsin á kafi í kolsvörtu gjalli
í austri var eldur í nýju fjalli.
Við ákváðum seinna að flytjast til baka
með vonina að vopni og áhættu taka
þá oft var mér litið í austur á fjallið
hraunið sem kaffærði húsin og gjallið.
Hvoll er þarna undir og Grænahlíð líka
Vatnsdalur tiginn og Landagata
Pétó og Laugin er lékum við oft
nú gnæfir þeim yfir..hraun hátt í loft.
Þegar ég sit hér og hugsa um það nú
hve fólkið var rólegt svo samtengt sem brú
þá þakka ég einum sem bak við oss stóð
og bjargaði yfir eld og glóð.
(Gert í ágúst 1977)
Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt s.d. kl. 08:42 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað gæti ég skrifað miklu ..miklu meira um þessa lífsreynslu..um tímabilið upp á fasta landinu en einhvernvegin virðist vanta heilmikið inní minnið hjá mér. Held ég hafi tapað að mestu 3 mánuðum úr minni mínu og hvernig sem ég reyni að muna þá tekst það ekki. Áfallið við að upplifa þessar náttúruhamfarir hefur greinilega þurrkað út úr minnisbankanum mínum að mestu dvöl mína uppi á landi þó vissulega muni ég eitt og annað.
En þetta var erfitt tímabil...tímabil óvissu og ótta hvað við tæki.
Er við bjuggum á Strandgötunni í Hafnarfirði í gosinu varð eitt kvöldið töluverður jarðskjálfti og fannst hann víða. Við búandi uppi á 3ju hæð fundum vægast sagt vel fyrir honum og ég man hversu óttaslegin ég varð er rúmið sem ég lá í hreifðist í bylgum fram og til baka.
Held við höfum flest orðið skelfingu lostin enda svo stutt síðan við þurftum að yfirgefa Eyjuna okkar.
Það er greinilegt að þessir atburðir eiga aldrei eftir að yfirgefa minningu okkar sem bjuggum í Eyjum gosnóttina forðum. Og ég vona innilega að enginn þurfi að lenda í svona lífsreynslu í framtíðinni. Því vissulega hefur þetta sett spor sín í sál okkar allra. Og hvert og eitt okkar hefur þurft að berjast við þessar minningar án nokkurrar sálfræðiaðstoðar sem ekki var í boði þá eins og er í dag.
En allt þetta góða fólk sem tók á móti okkur flóttafólkinu þessa örlagaríku nótt varð okkar huggari og eflaust hlýtt faðmalg sem hefur sefað óttann og mörg hver tárin sem hrundu niður kinnaranar þegar fólk áttaði sig á í hverju það hafði lent.
Guð geymi ykkur öll
Kolbrún Harpa Vatnsdal Kolbeinsdóttir, 22.1.2013 kl. 11:40
Mér einnig mikið hugleikið að allt þetta fólk sem kom að björgun okkar verði heiðrað á eftirminnilegan hátt um næstu Goslokahátíð sem verður í sumar.
Þakkargjörð okkar Eyjamanna þessu fólki til handa þarf að verða sýnileg. Ég varpaði fram þessari hugmynd á Facebook fyrir nokkru síðan með það fyrir augum að fá forsetan hingað til Eyja og heirða menn og konur með einhverskonar heiðursmerki og fékk miklar og góðar undirtektir víða að. En kona ein sem heitir Eygló Björnsdóttir kom með þá snilldarhugmynd að útbúa minnisvarða frekar en nota einhverjar medalíur enda svo margir farnir yfir móðuna miklu á þessum 40 árum sem liðin eru.Við þetta sköpuðust miklar og góðar umræður.
Mér leist svo vel á hugmynd Eyglóar að ég er búin að koma henni á framfæri til bæjarstjórans og það gerði ég fyrir áramót. Einnig ræddi ég þessa hugmynd við Júlíus ritstjóra Frétta og einnig hef ég rætt við Birgi Nilsen sem er í Goslokanefnd en það þarf að ræða þetta betur og er Birgir Nilsen búin að segja mér að ég verði boðuð á fund hjá Goslokanefnd fljótlega.
Hugmyndin er að finna eitthvað fallegt og veglegt grjót úti á hrauni og setja á hann skjöld sem verður þakklætisvottur frá íbúum Heimaeyjar fyrir björgun (sjómennirnir okkar)hreinsun(ótal margir sem tóku þátt í því)
Bunustokksmennina fræknu sem stöðvuðu framrensli hraunsins við innsiglinguna og hafði aldrei verið gert áður fyrr en í Eyjum og vakti heimsathygli. Og allt þetta góða fólk sem tók á móti okkur er við þurftum að yfirgefa Eyjuna okkar.
Ég vil að það standi á þessu skilti:
Minnisvarði um hetjurnar okkar.
Til ykkar allra sem á einn eða annan hátt tókuð þátt í björgunarstarfinu á Heimaey 23.janúar 1973 er við þurftum að flýja Eyjuna okkar.Og gerðuð okkur kleift að koma heim aftur.
Með innilegu þakklæti sem gleymist aldrei.
íbúar á Heimaey
jan.1973- jan.2013
Kolbrún Harpa Vatnsdal Kolbeinsdóttir, 22.1.2013 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.