4.5.2013 | 10:28
Birgir 80 ára á sunnudaginn 5 maí
Einar Birgir Sigurjónsson eða Biggi frá Sólheimum verður áttræður þann 5 maí n.k.
Ég kynntist honum þegar hann og mamma rugluðu saman reytum ekki svo löngu eftir Gosið. En þá flutti mamma heim af fasta landinu eftir að hafa flúið Eyjuna eins og við öll gerðum nóttina örlagaríku 1973.Birgir var lögreglumaður á þessum tíma.
Þau laumuðust til að gera samband sitt fullgilt á gamlársdegi 1978 og birtust svo skælbrosandi heima á Illugagötu 79 sem var þeirra heimili með sindrandi gullbauga á fingri. Og auðvitað var haldið upp á þennan góða viðburð og þeim óskað allra heilla með þessa ákvörðun..
Þau áttu allt of fá ár saman en hamingjusöm ár en mamma féll frá 2.maí 1992 aðeins 59 ára gömul eftir mikil veikindi.
Maður fann hversu mikil sorg hans var að missa mömmu og standa uppi aftur einn þó svo honum hefði bæst við heill her fullorðinna barna sem fylgdi mömmu , sex stjúpdætur og einn stjúpsonur ásamt barnabörnum en það kemur ekkert í staðinn fyrir missi maka síns og besta vinar og félaga.
Ég samdi ljóð með sorg hans í huga 25.júní 1992 og tileinkaði Birgi þetta ljóð mitt.
Söknuður
það er svo sárt að missa og sakna
það er svo sárt að morgni er ég vakna
þá rennur upp sú staðreynd fyrir mér
þú horfin ert á brautu ..burt frá mér
að eilífu...ert horfin burt frá mér.
Samt finn ég þig í hverjum bolla og skál
í hverri mynd og blómum sem saman höfðum sáð
Hvert fótspor þitt er meitlað í þessu húsi hér
hér elskuðum hvort annað..þú og ég.
Ég sakna gleði þinnar sérhvern dag
ég sakna veru þinnar...nótt og dag
beiskum sárum tárum ég græt í koddann minn
ég þrái þig svo heitt í faðminn minn.
Samt finn ég þig í hverjum bolla og skál
í hverri mynd og blómum sem saman höfðum sáð
Hvert fótspor þitt er meitlað í þessu húsi hér
hér elskuðum hvort annað..þú og ég
ljóð Kolbrún Harpa
Eftir situr gleðin yfir að mamma fékk að hitta Birgi á sínum tíma og fyrir það er ég þakklát því hún var svo ánægð og hamingjusöm með honum.
Og nú er hann að verða áttræður og verð ég að viðurkenna að ég hefði viljað sjá þau saman í dag og við stelpurnar hefðum undirbúið stórveislu í tilefni dagsins en sá gamli var nú ekki tilbúinn í svoleiðis vesen þó svo ég hafi stungið upp á veisluhöldum honum til handa og var búin að fá fullt af flottum konum með í verkið.En á stundum þegar maður er þreyttur og lúinn vill maður ekkert óþarfa tilstand En það hefði vissulega verið gaman að gera honum daginn eftirminnilegan..
5.maí 1993 orti ég eftir farandi ljóð en þá var hanna 60 ára.
Til Bigga.
Ég sendi þér í ljóðaformi ósk mína til þín
því þú ert sá sem unni..af hjarta mamma mín
hún alltaf um þig talaði með virðingu og hlýju
því hjá þér fann hún hamingju að nýju.
Ég veit í þínu hjarta býr dýpsta sorg og tregi
söknuður eftir henni sem varð á þínum vegi
en þú mátt vita vinur..hún elskaði þig heitt
svo þakklát fyrir allt sem þú gast veitt.
Þú varst hennar traust og von..hennar ást og trú
hennar Heimaklettur..staðfastur sem nú
ég vil að þú vitir..okkur þykir vænt um þig
ætíð síðan mamma kyssti þig.
ljóð Kolbrún Harpa
Elsku Birgir innilegar hamingjuóskir með árin þín 80 þann 5 maí n.k
með innilegri kveðju úr Kollukoti
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.