23.12.2018 | 17:15
Demantarnir mínir
Það er kominn laugardagur og sá tuttugasti og annar desember 2018. Úti er algjört logn, ekki snjór en allt er hvítuhulið og bíllinn líka sem á að vera dökkblár. Það er við núll gráður á eyjunni fögru og glitrandi ljósin gera frosthuluna eins og demanta, sindrandi og ævintýralega fallegt. Þurfti að erindast smávegis eldsnemma í morgun svo það voru ekki margir á ferli í allri fegurðinni, kannski einn og einn á leið í sund ,gangandi á glitrandi gimsteinum heiman og heim í kyrrðinni. Ekki laust við að gömlu vöknaði um augun yfir þessar ósnertu fegurð þennan morgun og ekki lagaðist sú gamla þegar tónar ómuðu í bíltækinu "Its beginning to look alot like Christmas " sem fór svo að konan við stýrið þurfti nokkrum sinnum að sjúga upp í neppalingin og þurrka stöku tár sem læddist niður vangana. Jól,fjölskylda, samvera og þakklæti og söknuður eftir þeim sem hafa hvatt okkur og munu aldrei aftur verða með okkur við jólaborðið. Því skulum við þakka það sem við eigum akkúrat núna fyrir börnin,barnabörnin,frænkur og frændur og vini sem við erum svo heppin að eiga ennþá. Já maður verður líklega meyrari með aldrinum en það er bara líka allt í lagi og sem betur fer er ég ekki tilfinningalaus manneskja og já ég græt enn ef svo ber undir og gleðst ofboðslega yfir velgengi fjölskyldumeðlima enda vil ég þeim allt hið besta í framtíðinni og vona að þau megi eiga mörg góð og gleðirík ár og fullt af gefandi ást. Ég á allavega nóg af henni að gefa og ekki síst elskan mín, mín stoð og stytta gegnum súrt og sætt. Hann hefur staðið sem klettur við hlið mína í allskonar sjóum lífsins bæði góðum og slæmum og ég elska þennan mann svo innilega og meira með árunum og já.. ég var heppin að eignast hann sem eiginmann svo hlýr og góður sem hann er mér þessi elska og vill öllum vel.
Ég held að þessi elska hafi komið inní líf mitt á réttum tíma enda er hann minn verndarengill og segist hafa verið mér sendur.
Þegar ég sit hérna og bæti við þessa jólahugleiðingu mína er komin Þorláksmessa, allstaðar logar á hlýrri birtu jólaljósanna og öllum fallegu kertunum sem ég elska. Jólakveðjurnar berast til landsmanna hlýjar og fullar af ást og þakklæti og rétt áðan var verið að syngja Heims um ból af einstaklega flottu söngfólki á jólatónleikum úr Hörpunni, þvílíkir snillingar sem þetta fólk er og manni hlýnar inn að innstu hjartarótum við að heyra svona söng. Elskan mín er farin niðrí bæ að kaupa eitthvað fallegt handa gömlu sinni í jólagjöf enda er Þorláksmessa hans dagur jólagjafakaupa en ég sagði honum í gær að hann fengi sko þrjár gjafir frá okkur heimilisfólkinu hahahha eina frá mér og sitthvora gjöfina frá Önju og Snúllu hundunum okkar. Sniðuga ég hahahahha. Hér fer allt að verða klárt fyrir morgundaginn Aðfangadag,bara eftir að skipta á rúminu og svo förum við út í kirkjugarð á morgun til að tendra kerti hjá henni elsku mömmu minni og systur minni henni Önnu. Kirkjugarðurinn hér á Heimeya finnst mér einstaklega fagur með öll þessi jólaljós sem skreyta grafir ástvina okkar í þessu skammdegi. Að lokum vil ég óska ykkur öllum elsku fjölskylda okkar, ættingum og góðum vinum okkar hjóna,allra heilla með innilegu þakklæti fyrir árið sem senn fer að líða í aldanna skaut.
Geymi ykkur öll, allar góðar vættir elskurna mínar og verndi hvert ykkar spor.
Með ást og þakklæti fyrir ríkidæmið okkar og megi guð geyma ykkur
Kolbrún Harpa og Ómar í Kollukoti
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt s.d. kl. 17:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.