27.12.2009 | 10:22
Það sem ekki drepur þig...eflir þig
Þarna er ég 17 mánaða gömul (samkv. skrift aftan á myndinni) fyrir utan Hvol v/Urðarveg 17. Og auðvitað hefur aldrei hvarflað að þessu litla stelpuskotti hversu viðburðarík ævi hennar yrði. Það skiptust á skin og skúrir eins og hjá flestum. Gleðin kom og fór, sorgin kom og lifði með henni fram á daginn í dag.
En það besta sem hefur komið út úr lífi þessarar litlu stúlku eru börnin hennar þrjú og svo eiginmaður hennar. Og hún spyr sig stundum " Af hverju var ég ekki fyrir löngu búinn að hitta þig "? Þá hefði margt orðið öðruvísi en það var. En þrátt fyrir allt, og með þá misjöfnu og stundum slæmu samferðamönnum mínum, hefði ég ekki viljað missa af börnunum sem ég á í dag.
þau eru mér góð, öll þrjú og ég elska þau takmarkalaust. Og maðurinn minn sem veitir mér alla þá ást og hlýju sem ég þarfnast er gull af manni og hefur staðið með mér í gegn um súrt og sætt. Alltaf tilbúinn með hlý orð og stuðning. Það er ómetanlegt.
það er óneytanlega skrýtið að horfa á þessa gömlu mynd af þessari litlu dökkhærðu, brúneygu stúlku, áhyggjulaus með slaufu í hárinu. Með litlu fötuna og smakkandi á sandinum þegar hún stingur skeiðinni upp í sig. Í fallegum kjól sem efalaust hefur verið saumaður af alúð úr einhverri flíkinni. Og í baksýn er barnavagninn sem var notaður undir þríburasystur hennar sem voru rúmu ári yngri en hún. Og pabbi líklega að taka myndina. Skyndilega, sem ég horfi meira á þessa mynd sé ég börnin mín í henni. Það er þarna einhver kunnuglegur svipur og meira að segja sé ég litla barnabarnið mitt hana Sunnu Emilý í henni...það er þarna einhver svipur og ég upplifi þessa litlu stúlku í þeim öllum. Hvað er það sem beinir okkur á þann veg sem við förum í lífinu? Er búið að ákveða og kvitta fyrir þegar þú fæðist, hvaða leið þú ferð? Eða er það bara gamla góð mottóið " Hver er sinnar gæfu smiður" er samt ekki alveg til í að samþykkja það að fullu því stundum fer það eftir samferðarmönnunum hvað leið er farin og stundum ræður þú ekki alltaf ferðinni heldur berst með straumnum og reynir að gera eins gott úr öllu og hægt er eða þar til er fullreynt.
Þessi litla stúlka á myndinni hefur svo sem reynt ýmislegt gegn um ævina en alltaf staðið upprétt hvað sem á bjátaði og haldið áfram. Enda má segja "Að það sem drepur þig ekki...eflir þig"...
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt s.d. kl. 13:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.