27.11.2017 | 09:50
Vindar lífsins 2017
Það hafa blásið vindar úr öllum áttum lífsins á þessu herrans ári 2017. Ljúfir vindar sem hafa yljað og hins vegar naprir vindar sem hafa fryst sálartetrið á marga vegu.
En þannig er þetta blessaða líf, enginn á morgundaginn vísan, svo dag skal að kveldi lofa og þakka fyrir allt það sem lífið hefur gefið manni þann daginn, bæði súrt og sætt.
Það bera að þakka fá að vakna að morgni og takast á við daginn mega aftur elska,njóta,gráta og sakna.
Það segir einhversstaðar að þú getir ekki glaðst nema hafa upplifað sorgina og þú getir ekki syrgt nema hafa upplifað gleðina.Við tökumst á við lífið og tilveruna hvert á sinn máta og gerum eins vel og við getum þó ekki takist alltaf vel til en það er lexía sem við lærum af og reynum bara betur næst.
Hjartaáfall eiginmanns míns og besta vinar setti stórt strik í reikninginn snemma árs en hann var heppinn og fékk annað tækifæri til að vera með í lífinu. Mér finnst alveg magnað að þegar eitthvað svona alvarlegt kemur uppá hvernig maður bregst við í því tilfelli ég. Það kemur yfir mann einhver stóísk ró og yfirvegun verður langt yfir hámarki, kannski eru þetta áfallseinkenni
Ég bara þekki það ekki en að halda ró sinni og vona það besta í bland við þann ótta að missa varð mín aðferð halda ró minni og yfirvegun þrátt fyrir að vera hrædd undir niðri.Það hjálpaði bæði mér og elskunni minni í þeirri fullvissu og von að allt yrði í lagi.Ósk mín varð að veruleika og fyrir það er ég afskaplega þakklát. Yndislegur og umfram allt svo góður maður sem ég á og ég gæti ekki hugsað þá hugsun til enda að missa hann frá mér.
Gleðiefnin eru líka mörg á þessu ári, elstu barnabörnin/ömmustrákarnir mínir hafa heldur betur skrifað sig inn í söguna, sá yngri er fjallmyndarlegur markvörður hjá ÍBV og vinnur einnig sem næturvörður á Hótel Vestmannaeyjar. Sá eldri vinnur við aðhlynningu aldraðra og í sjúkraliðanámi og er að brillera með níur og tíur og ef ég mætti ráða þá vildi ég helst að hann færi í lækninn. Gleymdi ég nokkuð að segja að hann er líka fjallmyndarlegur.
Kraftaverka ömmudrengnum mínum honum Fannari Leví gengur vel í skólanum, hann er svo ótrúlega duglegur þessi elska því þegar hann fæddist voru horfurnar ekki sérlega góðar og þurfti hann að vera á vökudeild í langan tíma. En þökk sé yndislegu starfsfólki þá braggaðist litli snáðinn og ekki síst vegna ástar og umhyggju foreldra hans og reyndar allra sem í kring um hann voru og vernduðu. Framfarirnar hafa verið ótrúlegar hjá þessum litla snáða og hann bræðir hvert hjartað á fætur öðru með fallegu brúnu augunum sínum, gleðinni, brosinu,faðmlögunum og hlýjunni sem stafar fá honum.Að fá í eyrað þessi yndislegu orð :
"Amma-Harpa....ég elska þig" og fá kreystuknús um leið, kemur tárunum út á þeirri gömlu því mér þykir óendanlega vænt um þennan kraftaverkadreng sem lífið gaf mér Og ósk mín er ósköp einföld að honum farnist vel í lífinu og verði hamingjusamur.
Sunna Emilý fallega ömmustelpan mín er líka mjög dugleg í skólanum og fyrir stuttu síðan sá ég myndband þar sem hún ásamt hópi annarra barna var með dansatriði á sýningu. Og ég verð bara að segja að miðað við það sem ég sá þá ætti hún að leggja þetta fyrir sig,flottar hreyfingar svo þetta hlýtur bara að vera í blóðinu. Stundum hefur hún sýnt mér ýmsar dansæfingar sem hún hefur lært og maður sér fallegar hreyfingar danslistarinnar í henni. Hún er afar skýr stúlka og gaman að tala við hana og það er stutt í hláturinn hjá henni og grínið sem einkennir þennan anga fjölskyldu minnar og ég elska það :) Og henni óska ég þess eins að hún verði hamingjusöm í lífinu.
Ský dregur fyrir sólu að sumri og sorgin bankar á dyrnar. Þó svo að vitað væri að hverju drægi þá var þetta samt svo hræðilega sárt. Anna Ísfold systir mín fellur frá eftir langvarandi veikindi, tími sorgar og tára tók við í fjölskyldunni er við þurftum að sá á bak henni inn í Sólarlandið. Anna lét eftir sig eina dóttur og son ásamt þremur barnabörnum Anna átti yndislegan og góðan vin sem sá á eftir einu ástinni sinni og besta félaga yfir móðuna miklu. Anna var ein af þríburum,þeim einu sem hafa fæðst hér í Eyjum, hinar þríburasysturnar eru Marý og Guðrún.
Marý, Kristín dóttir Önnu og Maggi sáu einstaklega vel um Önnu í veikindum hennar og veikindahléi, vakin og sofin svo hún var aldrei ein. Ég er þakklát fyrir þá stund þegar Guðrún systir kom yfir í Eyjar að kíkja til Önnu og við vorum þar saman komnar nokkrar heima hjá Önnu. Sú stund verður ógleymanleg að því leiti að það var stund gleði,gríns og hlátra því Guðrún systir er skemmtilegur sögumaður og leikari af guðsnáð og var hún að segja okkur hinar ýmsu sögur af sjálfri sér og lék þetta allt í leiðinni. Takk Guðrún mín, ógleymanlegur tími í minningunni
Skrýtið hvað manni finnst dauðinn oft á tíðum óraunverulegur,maður þarf stundum að minna sig á að hún er ekki meðal okkar lengur. Ég horfi á mynd af henni systur minni, skælbrosandi, það geislar af henni á þessari mynd sem ég tók af henni fyrir nokkrum árum síðan nýkomin af Reykjalundi. Ánægð með lífið og tilveruna, vel til höfð,fallega förðuð og hárið gordjös en þessa minningu geymi ég eins og gull við hjarta mitt. Guð geymi þig elsku Anna mín.
Enn tóku við erfiðir tímar og að því er virtust óyfirstíganlegir á tímabili en þessir erfiðleikar og veikindi stóðu mér nær að þessu sinni og það verður að segjast að voru mér persónulega ansi erfiðir og tóku á hverja taug.. á ástina.. á væntumþykjuna.. á fórnfýsina en mest af öllu upplifði ég mig sem ég væri í mikilli sorg og mér var þungt fyrir brjósti og grét oft, hversu vanmáttugur getur maður verið. Þarna gat ég bara verið til staðar þar til hjálpin bærist. Hjálpin kom síðan í öllu sínu fegursta veldi og þar sem móðir gat ekkert gert, þurftu aðrir að taka við og það varð hið mesta gæfuspor.
Þá í fyrsta skipti, kviknaði vonin og trúin og þakklæti til allra þeirra sem vinna svo óeigingjarnt starf öðrum til hjálpar. Fá að fylgjast með breytingunni dag frá degi í símanum,raddbreytingunni,talandanum og að síðustu yfirveguninni og sjálfstraustinu.. sem smá saman,plástraði yfir öll þau hjartasár sem höfðu opnast og sorgin sem ég bar í brjósti var smá saman að hjaðna yfir breytingunni. Hvað getur maður sagt annað en takk, takk fyrir nýtt líf, takk fyrir björgunina, þið öll sem komuð að málum takk segi ég og af öllu mínu hjarta.Og von mín er sú að öll þeirra mikla vinna við að hjálpa einstaklingi til betra lífs, vari að eilífu það er mín heitasta ósk.
Nú styttist í blessuð jólin og nú ætlum við sem höfum mætt í FRÆNKUHITTING að skella okkur á jólahlaðborð um helgina og hafa pakkaskipti. Við höfum hittast hvern fimmtudag til skrafs og ráðagerða og haft mikið gaman og innan þessa hóps er ekkert heilagt, enda oft mikið hlegið og talað hátt. Ég hlakka mikið til að eiga þessa stund með þessum konustelpum sem ég elska af öllu hjarta svo vona ég að restin af árinu verði bara góð fyrir alla svo bæði þú og ég og við, getum átt gleðileg jól með ástvinum okkar.
Kær kveðja úr Kollukoti
Vinstra megin borðs: Marý,Helena
Hægra megin borðs aftast: Hulda ,Kolbrún Harpa
Inga og að síðustu elsku Anna
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt s.d. kl. 11:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.