29.12.2018 | 05:26
Í blóma lífsins
Aðfangadagskvöld og jólagleðin breytist yfir í mikla sorg eins og hendi væri veifað. Símtal sem ég mun aldrei gleyma né nokkur annar í fjölskyldu minni um að frændi minn og yngri sonur Ingu systir minnar væri dáinn. Svo óraunverulegt fannst mér að heyra þetta og finnst enn . Rétt nýlega orðin 29 ára,mikill íþróttamaður og markmaður í handbolta hjá ÍBV. Hvað getur maður sagt eða gert nema faðma syrgjandi móður og systur mína að kvöldi Aðfangadags,bara vera til staðar ásamt fleirrum henni nánir. Yfirþyrmandi doði og vantrú á að þetta hafi virkilega átt sér stað er enn fyrir hendi en veruleikinn er annar, ískaldur og raunverulegur hann er dáinn blessaður ungi maðurinn í blóma lífsins hann Kolbeinn Aron. Það á enginn að þurfa að sjá á eftir barni sínu en raunveruleikinn er oft annar en við óskum og vonum og örugglega ekki í fyrsta skipti sem móðir segir af hverju gat þetta ekki verið ég. Það verður fátt um svör við þessi orð en ég skildi hvað hún meinti. Hún hefði gefið líf sitt fyrir son sinn svo hann mætti vera lengur hér á jörð.En allt val um það er ekki i okkar hendi og hjartað brestur af sorg.
Það er erfitt að biðja guð sem tekur..um styrk til handa systur minni og bróður hans á þessari stundu en ég ætla samt að gera það því það eru erfiðir tímar framundan hjá fjölskyldunni og ekki síst vinum hans í handboltanum og þeim fjöldamörgu sem hafa kynnst honum gegnum hans líf.
Vinamargur og hrókur alls fagnaðar bæði utan sem innan vallar var hann Kolli sem við nánasta fjölskylda kölluðum alltaf Aron. Elsku fallegi systursonur minn þín verður sárt saknað af okkur öllum og við munum ætíð geyma minningu um góðan dreng við innstu hjartarætur alla okkar ævidaga og hugsa með mikilli hlýju til þín elsku vinur og frændi. Í mínum augum verðurðu alltaf litli drengurinn sem ég fékk að fylgjast með í uppvextinum ásamt móður þinni sem svo einlæglega elskaði þig og vildi allt, bókstaflega allt fyrir þig gera og hafa velferð þína sem allra besta eins og var með eldri bróður þinn hann Einar Birgi. Ég vildi óska að ég gæti sagt þessi orð við þig elsku Aron minn,kannski geturðu lesið huga minn og okkar allra til þín,kannski sérðu okkur öll syrgja þig og gráta. Ég vil trúa því að þú sjáir hvað þú skildir eftir þig og hversu mikið þú áttir í okkur hverju og einu þegar þú varst kallaður skyndilega burtu frá okkur og ég vil trúa því að þú verðir með okkur og sérstaklega umfaðmir móður þína og sefar hennar djúpu sorg með tímanum, litli minn eins og hún kallaði þig.
Guð geymi þig elsku drengurinn minn
Harpa frænka
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt s.d. kl. 05:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég vil byrja á því að votta þér og fjölskyldu þinni mínar samúðarkveðjur. Fallega ritað, guð umvefji ykkur öll á þessari sorgar stundu, þegar ungur drengur fellur frá í blóma lífsins. Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 29.12.2018 kl. 07:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.