29.8.2019 | 06:18
Aftur til fortíðar
Það er ekki frá því að ég hafi pínulítið gaman af að hlusta á fólkið sem kemur fram í fjölmiðlum þessa dagana og talar um kjötneyslu. Við borðum of mikið kjöt og blessuð börnin í skólum landsins eigi að öllum líkindum að fara á beit í grænmetinu. Jú það er minnst á að draga úr kjötneyslu niðrí 1x í viku sem er jú bara allt í lagi. Það þekki ég úr minni æsku en stundum var ekki kjöt á borðum nema í mesta lagi einu sinni til tvisvar sinnum í mánuði en mikið borðað af fisk og stundum 2x á dag og grautar ýmiskonar. Í minni æsku var ekkert til sem hét matarsóun. Það sem var lagt á borð var borðað upp til agna. Svo er verið að ræða um plastpokana sem við notum ógrynni af undir allt sem við kaupum og nú á að minnka eða jafnvel hætta að nota plastpoka alfarið..sem er jú bara gott. Hér áður fyrr voru notaðir bréfpokar og eða innkaupanet sem voru haglega gerð fyrir þær vörur sem þurfti að kaupa í matvörubúðinni og það var notað aftur og aftur og gert við og lagað ef það fór að trosna. Og svona til gamans þá var mjólkin keypt á mjólkurbrúsa sem voru notaðir aftur og aftur.Til kælingar geymdust brúsarnir fyrir utan útidyrnar þar sem ekki var til neitt sem hét ísskápur á mínu heimili fyrr en löngu seinna og hvílíkur munur.
En út í annað.. líklega erum við að kaupa allt,allt of mikið inn fyrir heimilið sem svo jafnvel skemmist. Mér persónulega finnst voða gott að kaupa inn fyrir nokkra daga í einu því þá er minni hætta á að maður kaupi eitthvað aukalega. Svo fyrir utan það þá hundleiðist mér að fara útí búð á hverjum degi enda meiri hætta á að kaupa eitthvað gúmmelaði aukalega Látið mig þekkja það. Já og svo þessi gullna regla að fara aldrei svangur út í búð að kaupa inn. Svangur út í búð þýðir bara eitt..fullt af allskonar óþarfa. Ég held við þekkjum það mörg hver á eigin skinni.
En eitt má alveg hafa bak við eyrað að vörur sem eru komnar fram yfir síðasta söludag og að ég tala nú ekki um mjólk sem hefur ekki verið opnuð þá er ekkert af því að nota mjólkina nú eða rjómann og margt annað. Ég man reyndar eftir því í nokkur skipti í denn að þegar maður fékk sér kaffisopann og setti mjólkina útí (úr mjólkurbrúsanum) þá varð kaffið stundum hvítkornótt eða mjólkin sökk í kaffinu..kannski örlítið súrbragð en maður lét sig hafa það og bara fínt að setja nokkra mola útí kaffið Það þýddi ekkert að væla yfir þessu, mjólkin var kláruð úr brúsanum fyrir næstu ferð í mjólkurbúðina.
Það er gríðarleg sóun að henda mjólkurvörum sem eru komnar á síðasta söludag.
Svo er hitt að þegar ég t.d elda mat fyrir okkur gamla settið og það verður afgangur þá nota ég afganginn í kvöldmatinn daginn eftir og ef það er eitthvað lítið má alltaf bæta með því að hafa með t.d brauð og eða spæld egg eða hvað svo sem þú finnur í ísskápnum. Ég elska fisk og minn maður líka og mér finnst allskonar fiskréttir góðir, ofnbakaðir, pönnusteiktur á gamla mátann í raspi og góðu kryddi og setja fiskinn í sparifötin með því að hella rjóma yfir fiskinn á pönnunni og malla í smástund, guðdómlega gott á bragðið.
Ég man eftir að ef ekki var hægt að fá kjöt á sunnudögum í minni æsku þá var mamma svo sniðug að útbúa einstaklega góðan fiskrétt í brúnni lauksósu sem var svo ofsalega gott og stundum geri ég þennan rétt sjálf til að minnast þessa tíma. Það var alltaf notað mikið af kartöflum með öllum mat í denn og ég er enn þannig að borða mikið af kartöflum. Já það er ansi margt sem maður getur lagað í sinni matarneyslu en við þurfum að borða kjöt því úr því færðu í kroppinn allskonar vítamín sem við þurfum á að halda. Að vísu er hægt að kaupa allskonar töflur til að bæta upp þann skort en hitt er heilsusamlegra að mínu mati. Mér leiðist hrikalega þegar örfáar manneskjur í fjölmiðlum úthella visku sinni með hvað má og hvað má ekki þessi forræðishyggja er farin að mörgu leiti úr böndunum.Enda finnst mér að hver og einn sé alveg óheimskur að ákveða hvað sé best fyrir sig og sína. Stundum fær maður það á tilfinninguna að allir aðrir séu forheimskir, viti ekki neitt,kunni ekki neitt og þess vegna finnur forræðishyggja nokkurra einstaklinga knýjandi þörf fyrir að segja fyrir hvað okkur hinum "heimsku" hvað sé okkur fyrir bestu. Enginn veit betur en forræðishyggjufólkið og jú það á sér fylgjendur en stundum verðu maður bara kjaftstopp yfir grunnhyggni þessa hóps.
Ég hef svo sem ekkert út á það að setja ef fólk vill borða eingöngu grænmeti það er þeirra val en ekki að þeirra val og skoðun eigi bara breiða út eins og einhvern heilagan boðskap til handa öllum. Ég tel að við séum nógu þroskuð og meðvituð um hvað hver vill en þegar svona boðskapur breytist í einhverskonar hjarðhegðun og þetta sé það eina rétta fyrir alla er það mér á móti skapi. Enda lætur þú engan segja þér hvernig þú átt að hafa hlutina.
Ég varð sjálfráða 16 ára og 65 er ég enn sjálfráða og ætla að mér að vera það áfram meðan andi bærist í brjósti mínu og ég hef eitthvað um það að segja hvað ég vil og hvernig ég haga mínu lífi. Ég þoli engan vegin bönn og höft og þaðan af síður forræðishyggju einstakra aðila í þjóðfélaginu.
Búin að blása hahahaha eigið annars góðan dag og kærar kveðjur héðan úr Kollukoti
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.