Meðan hún lifir ekki láta eins og hún sé ekki til !

Margir vita líklega í dag að ég á dóttur sem er á götunni í henni Reykjavík og þvælist milli staða eins og í Konukot og Skjólið og stundum þegar allt er lokað er það bara einhversstaðar og jafnvel á stöðum sem geta verið stórhættulegir þess á milli.
Þarna úti er manneskja sem átti lífið allt framundan,stórglæsileg,falleg og algjör vinnuforkur og afar samviskusöm í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. En þessi manneskja er ekki lengur til í dag enda orðin skel af manneskju sem lifir fyrir næsta skammt,grindhoruð og ekkert nema skinn og bein og það tekur alveg hræðilega á að vita af henni í þessum aðstæðum og geta ekkert gert enda er hún fullorðin kona.

Ég mamma hennar hef reynt allan fjandann til að aðstoða hana talað við hina og þessa aðila sem mögulega gætu komið til hjálpar en það hefur því miður verið til lítils fram að þessu. 
Enginn virðist geta gert nokkurn skapaðan hlut og svo virðist sem öllum sé sama um þessa manneskju sem þarf svo mikið á hjálp að halda og helst í gær áður en það verður of seint. 
Enginn vill fá þetta símtal um að viðkomandi sé látinn vegna ofneyslu en um það er ég orðin hrædd á hverjum einasta degi. Aðilar eins og Geðhjálp/geðdeild hef ég talað við en ekkert komið útúr því. Vogur..jú meðferð í 10-14 daga og hvað svo, hvað tekur við ? Akkúrat ekkert það er ekkert sem grípur hana að lokinni meðferð og Vík sem er framhaldsmeðferð hefur verið lokað vegna fjárskorts ! En á meðan er ógrynni fjármagns matað í hina og aðra sem jafnvel þurfa þess ekki með fyrirtæki sem eru stórrík og fá meira að segja styrki en gætu vel fjármagnað þessa hluti sjálfir en græðginni eru engin takmörk sett. Mikill vill meira og vesalings fólkið sem mælir göturnar, sefur hér og þar fær enga hjálp ! Það má bara éta það sem úti frýs enda virðist öllum vera sama nema þeim sem eru aðstandendur þessa fólks. Og já þú mátt vita að vanlíðanin er hræðileg og samviskan alveg að fara með mann. Fólk sem er í þessu ástandi að vera fíklar og jafnvel morfínsprautufíklar eins og barnið mitt vantar alltaf peninga því þetta er dýrt,dýrt að kaupa af sölumönnum dauðans.
Hversu fullorðin sem hún verður mun hún alltaf verða litla barnið mitt,litla dóttir mín sem ég elska af öllu mínu hjarta og óska einskis frekar en hún fái þá uppljómun að nú sé nóg komið og geri eitthvað í sínum málum. En það er ekki einfalt fyrir einstakling sem er sífellt undir áhrifum fíkniefna, missterkra.
Ég þrái það eitt að fá barnið mitt til baka heila á húfi og hún fái tækifæri til að lifa góðu lífi án vímuefnanna en því miður hefur sú von dvínað dag frá degi enda um næstum 20 ára neyslu að ræða sem byrjaði með fikti að reykja gras/mariuna en svo þegar það hætti að gefa þessa sælutilfinningu þá byrjað leit að öðru og sterkara en þegar þú ert kominn í sprauturnar ertu eiginlega kominn á endastöðina og bara spurning hvenær illa fer.
Verst af öllu finnst mér þegar manneskjur láta jafnvel eins og hún sé ekki til að vísu er ég spurð annað slagið hvað sé að frétta en af hverju getur fólkið ekki einfaldlega hringt í hana og spurt hana sjálfa ?  Að vísu hefur hún brotið allar brýr af baki sér gagnvart sínum nánustu með lygum og stöðugum sníkjum um peninga sem jú allir vita í hvað hafa farið en það þýðir ekki það sama og að láta sem hún sé ekki til.
Peningaóskir koma alltaf illa við fólk enda hefur fólk nóg með sitt og sína og þegar þú sérð fram á að fá aldrei neitt til baka þá er nóg komið. 
Því miður hef ég verið einum of gjafmild á peninga þó svo ég hafi ekki haft nein efni á því þar sem ég hef vorkennt henni hræðilega og ég vildi ekki vera í hennar sporum í þessum efnum.
En núna hef ég stoppað og tala helst ekki við hana beint heldur með smáskilaboðum þar sem þau eru alltaf ósk um að fá "lánaða" peninga og loforðum um að borga til baka sem hún hefur ábyggilega sagt hundrað sinnum. En nú er komið gott því ég verð víst að fara að huga að sjálfri mér og mínu geði eftir allt sem á undan er gengið. En ég hugsa til hennar á hverjum einast degi,hvar hún sé og hvort hún sé í hættu. Þetta er bara svo óbærilegt og ég vildi óska að ég gæti gert betur fyrir hana til að hjálpa henni sem hefur ekkert gengið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Kolbtún Harpa Vatnsdal hérna eru orð til þín:

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.

En Jesús svaraði henni engu orði.

Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.

Jesús mælti: Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt. Konan kom, laut honum og sagði: Drottinn, hjálpa þú mér! Hann svaraði: Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana. Hún sagði: Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.

Þá mælti Jesús við hana: Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt. Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Matt, 15:21-28

Guðmundur Örn Ragnarsson, 30.9.2023 kl. 09:08

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Frásögn þín af aðstæðum ykkar mæðgna vekur mann til umhugsunar.

Takk fyrir það.

Jónatan Karlsson, 30.9.2023 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband