15.10.2023 | 13:26
Það veit sá sem allt veit að ég sakna þín
Það er varla að ég geti komið þessum orðum frá mér án tára svo sárt er að vita ekkert.
Svo sárt að það svíður á hverjum einasta degi, hverja klukkustund,hverja mínútu. Óvissan er hræðileg þegar ég spyr sjálfa mig, hvar ertu núna stödd, akkúrat þessa stundina elskan mín.
Það veit sá sem allt veit að ég sakna "litlu stelpunnar minnar" svo mikið, svo mikið að ég er í hálfgerðu sorgarferli á hverjum einasta degi.
Stundum óska ég þess að þú værir á þeim aldri þar sem ég hefði eitthvað enn um að segja hvar þú ert stödd í lífinu og gæti tekið fram fyrir hendurnar á þér og hjálpað þér eins og ég sem móðir þín á að gera, ætti að gera.
En sá tími er löngu liðinn og runnin mér úr greipum því er ég á hliðarlínunni og get aðeins fylgst með þér úr mikilli fjarlægð ef ég mögulega fæ einhverjar fréttir af þér sem er sjaldan. Ég veit ekkert hvar þú ert, með hverjum né hvernig þú lifir af dag frá degi þar sem ferlið hefur verið þannig að aurar endast ekki nema stuttan tíma þar sem þeir eru notaðir til að sefa og deyfa þig frá lífinu, og það er dýrt.
Sérstaklega þar sem þetta gerir ekkert nema að soga úr þér lífið og gerir þig að skel af manneskju. Manneskju sem ég varla þekki lengur því svo hræðilega illa er komið fyrir þér eftir alla neysluna.Og eins og allir vita að það kemst enginn neðar þegar þú ert farinn að sprauta sefanum,sorginni,áföllunum í æðarnar og kallar á meira og meira í hvert skipti.
Ekkert,ekkert kemur í staðin fyrir þig elskan mín. Þú ert og verður alltaf barnið mitt hversu fullorðin sem þú verður. Og þú ert eina eintakið í heiminum og ég fæddi þig og var svo stolt og auðmjúk yfir þessu litla kraftaverki sem ég hélt á í fanginu eftir fæðingu þína, nærði þig með móðurmjólkinni í langan tíma og það var alltaf svo einstaklega hlý og notaleg stund að halda á þér við brjóst mitt og gefa þér af mér. Þessi minning greypist í hjarta mínu að eilífu.
"Einhversstaðar stendur : Hvert sem þú ferð, þangað fer ég. Þitt fólk er mitt fólk, minn guð er þinn guð. Dauðinn einn mun skilja mig og þig"
En þú fórst aðrar leiðir vina mín og þangað gat ég ekki ferðast með þér hversu mikið sem ég vildi vernda þig. Og í hjarta mínu dvelur alltaf sú heita ósk mín að þú áttir þig áður en það verður of seint elsku barnið mitt.
ÉG hef alltaf haft óbilandi trú á að eftir hverja meðferð að nú sé komið að þeirri gleðistund að þú sért loksins að komast á réttan stað í lífinu en því miður hef ég jafn oft orðið fyrir vonbrigðum elsku litla mín. Þú geislaðir og dafnaðir í meðferðunum og varst svo einstaklega falleg og lifandi enda hefur þú svo sérstakt útlit sem hver manneskja gæti öfundað þig af og það veit guð að þessi tími gaf mér miklar vonir og ég gladdist svo innilega með þér og faðmlögin voru einlæg og ástrík.
Sama hvað verður, hver þú ert í dag, þá elska ég þig af öllu mínu hjarta og af öllum mínum mætti og ég sakna þín.Því ég sé í gegnum ömurlega skelina, barnið mitt, sem ég fæddi og klæddi. Ég vildi óska að ég gæti gert eitthvað fyrir þig og hjálpað útúr þessum vítahring sem þú ert í en það verður víst að vera fyrst og fremst þú sjálf sem þarft að þrá það og vilja af öllum mætti. Viðurkenna að nú sé komið nóg.
EF þú lest þetta elskan mín þá veistu hversu mikið ég elska þig og ég vildi að það væri nóg til að snúa af þessari braut sem þú ert á en ég veit að það nægir ekki alltaf.
Ég bið allar góðar vættir að vernda þig fyrir mig, vernda þig fyrir öllu því slæma og leiði þig áfram til betri vegar.
Og það er sama hvaða ráðleggingar ég fæ um það hvernig ég á að gera hitt og þetta og ekki gera. Þá tekur enginn frá mér þessar hugsanir mínar hvernig henni reiðir af. EF ég hefði þessar tilfinningar ekki þá væri ég ekki mennsk.
Flokkur: DAGBÓKIN MÍN | Breytt s.d. kl. 13:44 | Facebook
Athugasemdir
Góði Guð verði þér að ósk þinni og við fáum öll lækningu.
Öll þþjóðin biðji um lækningu.
Bestu kveðjur.
Egilsstaðir, 15.10.2023 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 15.10.2023 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.