"Þessar elskur" smásaga

Einhvertíma á mislöngu hjónabandsskeiði hendir eitthvað fáránlega hlægilegt atvik...jafnvel á viðkvæmustu stundum. Auðvitað er ekkert hlægilegt við það meðan á því stendur...en eftir á.. já þá er nú hægt að brosa af því Grin allavega annar aðilinn þ.e.a.s sá sem varð ekki fyrir neinu. Setjum sem svo að karlinn hafi lent í einhverju misskemmtilegu og þá á konan kannski til að reka upp "hlátursroku" upp úr eins manns hljóði...mörgum dögum seinna..hreinlega lamast  af hlátri svo hún verður að setjast niður á næsta stól svo hún detti ekki. En aumingjans maðurinn starir  bara á hana  tómum augum og hugsar sem svo að að "nú hljóti hún að vera að bilast..hreinlega" og spyr auðvitað hvað sé svona sniðugt? " Æ..manstu ekki þarna um kvöldið" og svo hlær hún eins og vitlaus manneskja. En hann felur sig á bak við morgunblaðið Blush, gjóandi augum á hana yfir blaðið, annað slagið. Já svona getur það verið,  alltaf hlægjandi að óförum annarra

Við vorum nýstaðin upp frá dásemdarkvöldverði og þessi elska, hjálpaði til við að vaska upp eftir matinn (sem hann gerði reyndar afar sjaldan nema eitthvað stæði til). Börnin fóru inn í herbergið sitt að leika sér svolitla stund áður en þau færu að sofa. Uppvaskið var búið og við færðum okkur inn í stofu og biðum eftir að fréttirnar  í sjónvarpinu byrjuðu. Þessi stund framan við imbann var venjulegur liður hjá okkur. Þá settist ég með prjóna í hönd en hann lagðist út af í sófann .Sem endaði með því að hann lá þar hrjótandi þar til ég vakti hann í fréttirnar. Hann gat svei mér þá sofnað hvar sem hann settist eða lagðist niður og þá með öllum þessum óhljóðum. Ég hafði stundum hugsað með sjálfri mér að á meðan hann lá þarna með galopinn munninn, hrjótandi að það væri nú gaman að setja gúrku eða epli uppí hann og sjá hvernig honum yrði við. Eða litla gervi- mús, því ósjaldan  hafði ég frætt hann um það að það væri enginn vandi fyrir mús að stökkva uppí hann á meðan hann svæfi. Þá horfði hann bara á mig án þess að skilja neitt í neinu. Nú hann vaknaði og starði syfjuðum augum á sjónvarpið á meðan stóð ég upp til að ná í kaffi handa okkur. Í ró og næði dreyptum við á kaffinu og ekki leið langur tími að hann var glaðvaknaður. Ég fékk allt í einu á tilfinninguna að verið væri að horfa á mig. Ég leit útundan mér á manninn minn. Hann sat fram á sófann og starði á fætur mínar á milli þess sem hann sleikti varirnar. Það lá við að ég færi hjá mér en það sem var að þegar ég settist aftur í stólinn þá hafði pilsið lyfst óhóflega mikið upp á læri...nú þar sem fæturnir voru ekki svo slæmir lét ég þetta gott heita og hann horfði nægju sína, meðan ég lét sem ég vissi ekkert. Ég kímdi og hugsaði sem svo að þarna lægi ástæðan fyrir því að hjálpa til við uppvaskið.

Allt í einu stóð hann upp og spurði hvort við ættum ekki að fá okkur í glas? "Jú takk" ég ætla að athuga með börnin á meðan og láta þau hátta sig. Ekki voru þau nú alveg til í að sofna strax en þau háttuðu uppí rúm með blöð og bækur. En það myndi ekki líða langur tími þar til þau sofnuðu. Hann kom inn til að bjóða þeim góða nótt með kossi og smellti kossi aftan á hálsinn á mér er hann fór framhjá mér í dyrunum, skellti síðan hendinni fast á rassinn á mér svo ég hrökklaðist inn í mitt herbergið. Börnin hlógu að þessari tiltekt hjá föður þeirra og auðvitað tók hann undir. En það bjó miklu..miklu meira undir þeim hlátri og ég gerði mér fulla grein fyrir, hvað það var. Við settumst saman í sófann með glas í hönd og fylgdumst með sjónvarpsdagskránni. Æ..ég hafði verið með pínulítinn höfuðverk fyrr um daginn en er ég hafði klárað úr glasinu jókst hann til muna svo ég gat ekki drukkið meira en hann fékk sér annan til.

Kvöldið leið og loks var sjónvarpið á enda og nokkrar sterkar blöndur hjá mínum, það drafaði í honum er hann sagði "Jæja krrúttið mitt.. eigum við að fara uppí eða sitja soldið lengur" tungan þvældist eitthvað uppí honum eins og hún væri bara fyrir. " Við skulum sitja aðeins lengur Júlli minn" Þá gerði hann tvær tilraunir til að standa upp og það tókst í þriðju tilraun. "É...ætla að fá mér pí..píínu..lítið meira í gla..sið..elskan mín" sagði hann. En pínulítið varð fiftee..fiftee. Það rumdi í honum er hann fékk sér sopa og stuttu síðar sagði hann " Við ættum kan...ski að skella okkur uppí n..úna elskan mín". Ég geispaði alveg hroðalega og stóð upp. Þá tók hann utan um mig til að leiða mig inn í svefnherbergið en það var nú vafamál þessa stundina hvort okkar var að vísa veginn. Við háttuðum, mér var litið til hans og fylgdist með hvernig gengi hjá honum. Jú..jú auðvitað lagstur fyrir..hálfháttaður, búinn að klæða sig úr sokkunum og skyrtunni. " Æ..Æ.." stundi hann. " Ég held ég hafi fengið aðeins of mikið neðan í því..shhsh... krúttið mitt hjálpaðu mér aðeins..." Ég stóð upp og hjálpaði honum úr því sem eftir var nema nærbuxunum hans. En þær voru þær furðulegust sem ég hafði nokkurn tíma séð. Því framan á þeim  var kynningarmerki frá TUDOR. Þar stóð Tudor-rafgeymir. Ég gat nú ekki annað en skellt uppúr " Hvar í ósköpunum fékkstu þessar naríur Júlli minn" það ískraði í mér. " "Hmm..hvað elskan"? " Þessar nærbuxur..Tudor rafgeymar..ha..ha...ja þvílíkt".  "Æ..strákarnir..sem vinna með mér...færðu mér þetta. Þeir..sögðu að ég þyrði aldrei í þær.." Hmm..en hvaðan kemur merkið Júlli minn (ég átti ansi bágt með að springa ekki úr hlátri). "Þ..eir fóru í Hagkaup og létu prenta á þær".Og þú hefur tekið áskoruninni sé ég..ha..ha..þær eru ágætar Júlli minn en nú skaltu fara að sofa..Tudor..ha..ha..ja svei mér þá þetta var nú það besta sem ég hafði séð um ævina.

Ég skreið undir sæng....æ þetta rúm var nú alveg að syngja sitt síðasta. Það brakaði og brast í því ef maður hreyfði sig hið minnsta. Hjónarúmið var reyndar tvö rúm sem voru færð saman, hundgömul en ágæt til síns brúks. Svo mig var satt að segja farið að hlakka óskaplega til þess að fá nýtt og stórt hjónarúm. En það var á næstu fárhagsáætlun okkar. Þetta gamla átti það nefnilega til að færast úr stað og þá myndaðist bil  í miðjunni og ósjaldan var sængin koman ofan í opið sem myndaðist á milli rúmanna. Og þá var maður hálfsofandi að veiða hana upp og með miklum tilfæringum. Það heyrðust stunur og uml hinu megin við mig og hann velti sér á allar hliðar og leið auðheyrilega ekki vel. Nú var áætlun Júlla þ.e.a.s hjálpin við uppvaskið fokin út í veður og vind svo ég gerði það eina rétta. Fór fram úr og náði í fötu og blautan þvottapoka handa honum. " Júlli minn... Júlli minn.. það er fata við hliðina á rúminu ef þú yrðir lasinn.. Heyrirðu í mér? "Æ...jammm.. umlaði hann svo bað hann mig um að setja hærra undir höfuðið  sem endaði með að ég setti samanvöðlaða sængina hans undir höfuð hans og herðar þannig hann hálfsat í rúminu og náði síðan í rúmteppið og breiddi yfir hann. Ég vippaði mér uppí, slökkti ljósið og steinsofnaði.

Blessaðir englarnir mínir vöktu mig eldsnemma morguninn eftir. Það yngsta var búið að draga af mér sængina...hvernig eiga þau þessi litlu skinn að skilja það að mömmu langar..... að sofa svolítið lengur frameftir á laugardagsmorgnum. Nei takk...milli klukkan sjö og átta á hverjum einasta morgni alla virka daga og um helgar. " Mamma... megum við fá okkur Kókó Pöffs" var kallað fram úr eldhúsi. "Já...ég er að koma fram" ég sté fram úr rúminu og leit yfir til Júlla. Hann var ekki í rúminu...gat það verið að hann væri komin á fætur..löngu á undan okkur...ja..hérna eins og ástatt var með hann í gærkvöldi. Ég fór út að glugganum til að athuga hvort bíllinn væri á sínum stað. Jú.. hann var þarna ennþá...hann skyldi þó aldrei hafa farið út að skokka með Sigga í næsta húsi. Þeir voru búnir að tala um það s.l hálfan mánuð að fara að taka þrekið og úthaldið til alvarlegrar athugunnar. " Krakkar.. urðu þið vör við að pabbi ykkar færi út í morgun?. Nei ..var kallað einum rómi. Ég er nú svo aldeilis hlessa..ja sá hefur verið harður við sjálfan sig..ég segi nú ekki annað. Ég ákvað að hringja í konuna hans Sigga eftir smástund og kanna málið. Meðan ég gaf elskunum mínum morgunmatinn sinn var ég full aðdáunar á þeirri hörku sem Júlli hlyti að hafa beitt sig til að fara svona snemma á fætur. Ég lét verða að því að hringja. En Erna hans Sigga sagði að Júlli hefði ekki komið...Siggi svæfi enn og ætlaði að sofa til hádegis. Þetta fer nú að vera eitthvað dularfullt.. hugsaði ég með sjálfri mér er ég lagði á. Ég fór inn í svefnherbergi til að klæða mig í föt og þar sem ég sat við snyrtiborðið við að snurfusa mig fyrir daginn...sá ég sjón sem kom mér til að hrökkva við. Spegillinn snéri þannig að ég sá hjónarúmið vel...á bak við mig. Það sást nefnilega í tíu tær undan miðju rúminu. Ég flýtti mér að standa upp og fór svo á fjóra fætur og skreið að rúminu og kíkti undir. Og viti menn...þarna lá harkann, uppmáluð..steinsofandi. Það sem hafði skeð var að í öllu bramboltinu um kvöldið og eftir að ég var sofnuð..hafði þessi elska dottið niður á milli rúmanna en ekki orðið hið minnsta var við það. Ég ýtti rúmunum í sundur og virti fyrir mér elskuna mína..samanvöðlaðan í rúmteppinu en út undan var neðri helmingurinn. Tudor rafgeymar blasti við mér í allri sinni dýrð og þá tók ég eftir smærra letri neðan við Tudor. En þar stóð Ótrúleg orka- ótrúleg ending. Og síðan hef ég ekki getað annað en hlegið....stundum...alveg upp úr þurru Grin og þá horfir hann  bara á mig Blush (Höf.K.H.K)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband