26.8.2008 | 15:31
Urðarkettirnir í Austurbænum
Fyrir nokkrum árum síðan er ég var er ég var beðin um að vera veislustjóri í afmæli næst yngstu systur minnar voru góð ráð dýr. Hvað átti ég nú að segja. Það var alltaf svolítið erfitt að standa frammi fyrir sínum nákomnustu og þylja eitthvað mismerkilegt upp en svo datt ég niðrá það að reyna að koma með ýmis minningarbrot tengd okkur flest öllum..
Auðvitað gekk á ýmsu á æskuárunum og nóg að gera á stóru heimili.. Ævintýrin reyndar ekki langt undan..sundlaugin, Skansinn og sjórinn. Það var ekki ósjaldan skroppið í laugina sem var örstutt frá heimili okkar. Þá var oftast farið í sundbolinn heima og gengið berfætt í sund og svo til baka. Skansinn og klappirnar við sjóinn heilluðu okkur systurnar. Og oft fundum við gull og gersemar í náttúrunni, grafnar í sand eða fastar undir sjóblautum steini. Gullin okkar voru fegurstu skeljar eða furðulegir smásteinar. Hafnargarðurinn varð leiksvæði okkar huguðustu, er við sættum færis í hvassri austan átt og stórsjóir gengu yfir garðinn að hlaupa eins og fætur toguðu út á enda hafnargarðsins og svo til baka. Þetta var spennandi en ég held að við höfum engan veginn gert okkur grein fyrir þeirri hættu sem við vorum í. Enda fær maður hroll við að rifja þetta upp. Og eins gott að þessi fífldirfska fréttist ekki heim. Við hefðum heldur betur verið teknar í gegn. Svo er verið að tala um að strákar séu slæmir Ævintýraferðir voru margar uppá Helgafell og var það í einni að ein systra okkar hreinlega fraus í hlíðum fellsins og komst hvorki afturábak né áfram. En einhvernvegin komum við hinar henni niður að mig minnir með því að mjaka sér á maganum niður hlíðina og alls ekki horfa
. Strákarnir í hverfinu voru misskemmtilegir...oftast hundleiðinlegir. Þeir áttu það til að taka til sinna ráða og hrekkja okkur miskunnarlaust og elta okkur upp að rótum Helgafells og þóttust þá vera með kláðaduft sem þeir ætluðu að pína inn á okkur. Og það get ég sagt ykkur að oft voru þessi hlaup upp á líf og dauða. Í okkar augum voru þeir hálfgerð skrímsli. Stundum voru þeir bara ágætir og var þá var farið í læknisleik
. Við sváfum allar í sama herbergi systurnar, fjórar í kojum en ég á svefnbekk. Stundum tóku yngri systur mínar sig til og pískruðu mikið og þá var oftast einhver stórkostlegur hrekkur í uppsiglingu. Það var nefnilega eitt sinn er ég í sakleysi mínu var komin í rúmið og að ég taldi þær líka,gerðu þær mér ljótan grikk sem ég gleymi aldrei. Ég varð vör við eitthvað pískur og fliss..en algerlega í lágmarki. Skyndilega verð ég vör við undarlega nálægð (ég sneri höfði að glugganum svo ég sá ekkert hvað um var aða vera) svo ég ákveð að snúa mér við og hvað haldið þið.......blasir ekki við mér ber ..rass og viðkomandi gerði sér lítið fyrir og rak þetta líka heiftarlega við...framan í mig...og svo var hlegið og hlegið... en hvert einasta höfuð hvarf á undraverðum hraða undir sængurnar sem hristust allar af niðurbældum hlátri. En...beri rassinn var ekki eins fljótur upp í efstu koju og ég hét því að hefna mín grimmilega..geymt en ekki gleymt
Það er snemma morguns...skóladagur og öll hersingin vöknuð klukkan sjö. Allar að flýta sér að pissa..klæða sig og bursta tennur og svo drífa sig í franskbrauð með osti og kæfu. Sneiðarnar misþykkar því þá var ekki hægt að kaupa niðurskorið. Næst yngsta verður fyrst í brauðið og kæfuna og við hinar...bíðum....því ekki borgar sig að anda á hana svona snemma dags Hún er komin í stellingar KONG FU hins fræga og stendur við eldhúsborðið með annan fótinn upp á hnénu. Ósýnilegur en finnanlegur sveipur í kring um hana (dont fuck with me) hún brosir ekki...starir á gólfið í þessari stellingu og gleypir í sig brauðið og mjólkina. Svo þegar hún er við það að ljúka við....rennir skriðan sér á brauðið og kæfuna. Gleypir í sig og svo út og í skólann. Í hádeginu er hún farin að brosa
Ég sé fyrir mér eina systra minna klædda í leðurjakka og með hjálm. Gæinn hennar er allur leðraður frá toppi til táar með hjálm í hendi og strýkur með hinni hendinni yfir eldrautt hárið. Stórt og mikið mótorhjól af ábyggilega frægri gerð við hlið þeirra, vel pússað svo glampar á. Hún er gengin í mótorhjólaklíku. Ég sé aðra sýn þessa sömu systur og tvo mótorhjólagæja í mat á heimili okkar sem var á Vatnsleysuströnd í gosinu. Annar rauðhærður en hinn dökkhærður..besti vinur hins. Allir setjast að borðum og mikið hlegið en skyndilega dettur einni systurinni í hug að nú eigi að fara með borðbæn. Því hér væri aldrei byrjað að borða nema fara fyrst með stutta bæn. Þeir voru hálfvandræðalegir vinirnir en við glottum hvor til annarrar. Og auðvitað félli það í hlut gestanna að fara með bæn. Hvorugur sagði neitt en við vorum ákveðnar...fundum fórnarlambið og létum þann dökkhærða njóta heiðursins. Hann spennti greipar..steinþegjandi og hljóðlaust og gerði það sem fyrir hann var lagt. Á meðan áttum við ansi bágt með okkur því hann tók þessu háalvarlega strákgreyið. hvort það var sama kvöldið að mótorhjólagengið ætlaði að gera víðreist til Keflavíkur að sýna sig og sjá aðra...vantaði þann dökkhærða svitasprey og við vorum nú ekki lengi að redda spreyi fyrir fórnardýrið okkar. Við náðum í Bídex-sprey sem kannski flestar konur kannast við til hvers var notað hér einu sinni. Nú ef ekki þá var það notað til að spreyja á "lilluna" ef konur vildu fá extra góðan ilm og þá sérstaklega einu sinni í mánuði. Hann gerði sér lítið fyrir og úðaði vel undir hendurnar...ægilega ánægður og brunaði til Keflavíkur á vit ævintýranna...angandi af Bídex.
Á nokkurra vikna fresti var laugin okkar tæmd og hreinsuð. Þá var mesta fjörið í austurbænum hjá okkur krökkunum. Því allir máttu fara í laugina í fötunum og vera oní þar til síðasti dropinn hvarf. Þvílíkt fjör, þvílík útrás sem við fengum. Þá giltu engin lög og engar reglur og þrátt fyrir ærslaganginn meiddist enginn. Og við fórum rjóðar og heitar heim í franskbrauð og kakó til mömmu.Einn góður maður sem taldist ekki vera eins og fólk er flest var næstum daglegur gestur í lauginni. Hann var ansi þykkvaxinn og að því að hann var ekki eins og aðrir áttaði hann sig ekki alltaf hvar og hvernig hann henti sér út í laugina. Enda var það orðið þannig er vinurinn birtist á sundskýlunni og gerði sig líklegan til að stökkva út í....tæmdist sundlaugin við austurbakkann og flýðu allir sem hendur og fætur toguðu yfir á vesturbakkann..því nú var komið að því. Hann tók undir sig stökk með fæturna kreppta upp við maga og með lotningu horfðum við á hann í loftinu hverfa með ægilegum smell oní laugina svo stór sjóstrókur stóð marga metra upp úr gatinu sem hann hvarf oní. Í langan tíma á eftir var stórbrim í lauginni sem gekk upp á alla bakka laugarinnar. Þegar kyrrðist um tóku allir við sér eins ekkert hefði skeð og héldu áfram leikjum sínum.
Þessi sami maður kom oft á heimili okkar og fór út með ruslið fyrir mömmu og frúna á efri hæðinni. Stundum var hann alveg ágætur en stundum varasamur(sérstaklega fyrir bakveikt fólk) Hann var þannig að ef það var lægð á leiðinni varð hann galsafenginn og óútreiknanlegur og varð húsbóndinn á efri hæðinni oftast fyrir barðinu á uppátækjum hans. Hann þessi þykki maður tók sig stundum til við að pína húsbóndann á efri hæðinni. Aumingja maðurinn lagði sig vanalega eftir matinn..grandalaus og vissi ekki fyrr en vinur okkar settist klofvega yfir hann og hótaði að pína hann í bakið. Við heyrðum hlátur og veinin í húsbóndanum alveg niður til okkar. En vissum líka að það var allt í lagi vegna þess að þeir voru perluvinir.
Meira seinna
26.8.2008 | 12:28
"Þessar elskur" smásaga
Einhvertíma á mislöngu hjónabandsskeiði hendir eitthvað fáránlega hlægilegt atvik...jafnvel á viðkvæmustu stundum. Auðvitað er ekkert hlægilegt við það meðan á því stendur...en eftir á.. já þá er nú hægt að brosa af því allavega annar aðilinn þ.e.a.s sá sem varð ekki fyrir neinu. Setjum sem svo að karlinn hafi lent í einhverju misskemmtilegu og þá á konan kannski til að reka upp "hlátursroku" upp úr eins manns hljóði...mörgum dögum seinna..hreinlega lamast af hlátri svo hún verður að setjast niður á næsta stól svo hún detti ekki. En aumingjans maðurinn starir bara á hana tómum augum og hugsar sem svo að að "nú hljóti hún að vera að bilast..hreinlega" og spyr auðvitað hvað sé svona sniðugt? " Æ..manstu ekki þarna um kvöldið" og svo hlær hún eins og vitlaus manneskja. En hann felur sig á bak við morgunblaðið
, gjóandi augum á hana yfir blaðið, annað slagið. Já svona getur það verið, alltaf hlægjandi að óförum annarra
Við vorum nýstaðin upp frá dásemdarkvöldverði og þessi elska, hjálpaði til við að vaska upp eftir matinn (sem hann gerði reyndar afar sjaldan nema eitthvað stæði til). Börnin fóru inn í herbergið sitt að leika sér svolitla stund áður en þau færu að sofa. Uppvaskið var búið og við færðum okkur inn í stofu og biðum eftir að fréttirnar í sjónvarpinu byrjuðu. Þessi stund framan við imbann var venjulegur liður hjá okkur. Þá settist ég með prjóna í hönd en hann lagðist út af í sófann .Sem endaði með því að hann lá þar hrjótandi þar til ég vakti hann í fréttirnar. Hann gat svei mér þá sofnað hvar sem hann settist eða lagðist niður og þá með öllum þessum óhljóðum. Ég hafði stundum hugsað með sjálfri mér að á meðan hann lá þarna með galopinn munninn, hrjótandi að það væri nú gaman að setja gúrku eða epli uppí hann og sjá hvernig honum yrði við. Eða litla gervi- mús, því ósjaldan hafði ég frætt hann um það að það væri enginn vandi fyrir mús að stökkva uppí hann á meðan hann svæfi. Þá horfði hann bara á mig án þess að skilja neitt í neinu. Nú hann vaknaði og starði syfjuðum augum á sjónvarpið á meðan stóð ég upp til að ná í kaffi handa okkur. Í ró og næði dreyptum við á kaffinu og ekki leið langur tími að hann var glaðvaknaður. Ég fékk allt í einu á tilfinninguna að verið væri að horfa á mig. Ég leit útundan mér á manninn minn. Hann sat fram á sófann og starði á fætur mínar á milli þess sem hann sleikti varirnar. Það lá við að ég færi hjá mér en það sem var að þegar ég settist aftur í stólinn þá hafði pilsið lyfst óhóflega mikið upp á læri...nú þar sem fæturnir voru ekki svo slæmir lét ég þetta gott heita og hann horfði nægju sína, meðan ég lét sem ég vissi ekkert. Ég kímdi og hugsaði sem svo að þarna lægi ástæðan fyrir því að hjálpa til við uppvaskið.
Allt í einu stóð hann upp og spurði hvort við ættum ekki að fá okkur í glas? "Jú takk" ég ætla að athuga með börnin á meðan og láta þau hátta sig. Ekki voru þau nú alveg til í að sofna strax en þau háttuðu uppí rúm með blöð og bækur. En það myndi ekki líða langur tími þar til þau sofnuðu. Hann kom inn til að bjóða þeim góða nótt með kossi og smellti kossi aftan á hálsinn á mér er hann fór framhjá mér í dyrunum, skellti síðan hendinni fast á rassinn á mér svo ég hrökklaðist inn í mitt herbergið. Börnin hlógu að þessari tiltekt hjá föður þeirra og auðvitað tók hann undir. En það bjó miklu..miklu meira undir þeim hlátri og ég gerði mér fulla grein fyrir, hvað það var. Við settumst saman í sófann með glas í hönd og fylgdumst með sjónvarpsdagskránni. Æ..ég hafði verið með pínulítinn höfuðverk fyrr um daginn en er ég hafði klárað úr glasinu jókst hann til muna svo ég gat ekki drukkið meira en hann fékk sér annan til.
Kvöldið leið og loks var sjónvarpið á enda og nokkrar sterkar blöndur hjá mínum, það drafaði í honum er hann sagði "Jæja krrúttið mitt.. eigum við að fara uppí eða sitja soldið lengur" tungan þvældist eitthvað uppí honum eins og hún væri bara fyrir. " Við skulum sitja aðeins lengur Júlli minn" Þá gerði hann tvær tilraunir til að standa upp og það tókst í þriðju tilraun. "É...ætla að fá mér pí..píínu..lítið meira í gla..sið..elskan mín" sagði hann. En pínulítið varð fiftee..fiftee. Það rumdi í honum er hann fékk sér sopa og stuttu síðar sagði hann " Við ættum kan...ski að skella okkur uppí n..úna elskan mín". Ég geispaði alveg hroðalega og stóð upp. Þá tók hann utan um mig til að leiða mig inn í svefnherbergið en það var nú vafamál þessa stundina hvort okkar var að vísa veginn. Við háttuðum, mér var litið til hans og fylgdist með hvernig gengi hjá honum. Jú..jú auðvitað lagstur fyrir..hálfháttaður, búinn að klæða sig úr sokkunum og skyrtunni. " Æ..Æ.." stundi hann. " Ég held ég hafi fengið aðeins of mikið neðan í því..shhsh... krúttið mitt hjálpaðu mér aðeins..." Ég stóð upp og hjálpaði honum úr því sem eftir var nema nærbuxunum hans. En þær voru þær furðulegust sem ég hafði nokkurn tíma séð. Því framan á þeim var kynningarmerki frá TUDOR. Þar stóð Tudor-rafgeymir. Ég gat nú ekki annað en skellt uppúr " Hvar í ósköpunum fékkstu þessar naríur Júlli minn" það ískraði í mér. " "Hmm..hvað elskan"? " Þessar nærbuxur..Tudor rafgeymar..ha..ha...ja þvílíkt". "Æ..strákarnir..sem vinna með mér...færðu mér þetta. Þeir..sögðu að ég þyrði aldrei í þær.." Hmm..en hvaðan kemur merkið Júlli minn (ég átti ansi bágt með að springa ekki úr hlátri). "Þ..eir fóru í Hagkaup og létu prenta á þær".Og þú hefur tekið áskoruninni sé ég..ha..ha..þær eru ágætar Júlli minn en nú skaltu fara að sofa..Tudor..ha..ha..ja svei mér þá þetta var nú það besta sem ég hafði séð um ævina.
Ég skreið undir sæng....æ þetta rúm var nú alveg að syngja sitt síðasta. Það brakaði og brast í því ef maður hreyfði sig hið minnsta. Hjónarúmið var reyndar tvö rúm sem voru færð saman, hundgömul en ágæt til síns brúks. Svo mig var satt að segja farið að hlakka óskaplega til þess að fá nýtt og stórt hjónarúm. En það var á næstu fárhagsáætlun okkar. Þetta gamla átti það nefnilega til að færast úr stað og þá myndaðist bil í miðjunni og ósjaldan var sængin koman ofan í opið sem myndaðist á milli rúmanna. Og þá var maður hálfsofandi að veiða hana upp og með miklum tilfæringum. Það heyrðust stunur og uml hinu megin við mig og hann velti sér á allar hliðar og leið auðheyrilega ekki vel. Nú var áætlun Júlla þ.e.a.s hjálpin við uppvaskið fokin út í veður og vind svo ég gerði það eina rétta. Fór fram úr og náði í fötu og blautan þvottapoka handa honum. " Júlli minn... Júlli minn.. það er fata við hliðina á rúminu ef þú yrðir lasinn.. Heyrirðu í mér? "Æ...jammm.. umlaði hann svo bað hann mig um að setja hærra undir höfuðið sem endaði með að ég setti samanvöðlaða sængina hans undir höfuð hans og herðar þannig hann hálfsat í rúminu og náði síðan í rúmteppið og breiddi yfir hann. Ég vippaði mér uppí, slökkti ljósið og steinsofnaði.
Blessaðir englarnir mínir vöktu mig eldsnemma morguninn eftir. Það yngsta var búið að draga af mér sængina...hvernig eiga þau þessi litlu skinn að skilja það að mömmu langar..... að sofa svolítið lengur frameftir á laugardagsmorgnum. Nei takk...milli klukkan sjö og átta á hverjum einasta morgni alla virka daga og um helgar. " Mamma... megum við fá okkur Kókó Pöffs" var kallað fram úr eldhúsi. "Já...ég er að koma fram" ég sté fram úr rúminu og leit yfir til Júlla. Hann var ekki í rúminu...gat það verið að hann væri komin á fætur..löngu á undan okkur...ja..hérna eins og ástatt var með hann í gærkvöldi. Ég fór út að glugganum til að athuga hvort bíllinn væri á sínum stað. Jú.. hann var þarna ennþá...hann skyldi þó aldrei hafa farið út að skokka með Sigga í næsta húsi. Þeir voru búnir að tala um það s.l hálfan mánuð að fara að taka þrekið og úthaldið til alvarlegrar athugunnar. " Krakkar.. urðu þið vör við að pabbi ykkar færi út í morgun?. Nei ..var kallað einum rómi. Ég er nú svo aldeilis hlessa..ja sá hefur verið harður við sjálfan sig..ég segi nú ekki annað. Ég ákvað að hringja í konuna hans Sigga eftir smástund og kanna málið. Meðan ég gaf elskunum mínum morgunmatinn sinn var ég full aðdáunar á þeirri hörku sem Júlli hlyti að hafa beitt sig til að fara svona snemma á fætur. Ég lét verða að því að hringja. En Erna hans Sigga sagði að Júlli hefði ekki komið...Siggi svæfi enn og ætlaði að sofa til hádegis. Þetta fer nú að vera eitthvað dularfullt.. hugsaði ég með sjálfri mér er ég lagði á. Ég fór inn í svefnherbergi til að klæða mig í föt og þar sem ég sat við snyrtiborðið við að snurfusa mig fyrir daginn...sá ég sjón sem kom mér til að hrökkva við. Spegillinn snéri þannig að ég sá hjónarúmið vel...á bak við mig. Það sást nefnilega í tíu tær undan miðju rúminu. Ég flýtti mér að standa upp og fór svo á fjóra fætur og skreið að rúminu og kíkti undir. Og viti menn...þarna lá harkann, uppmáluð..steinsofandi. Það sem hafði skeð var að í öllu bramboltinu um kvöldið og eftir að ég var sofnuð..hafði þessi elska dottið niður á milli rúmanna en ekki orðið hið minnsta var við það. Ég ýtti rúmunum í sundur og virti fyrir mér elskuna mína..samanvöðlaðan í rúmteppinu en út undan var neðri helmingurinn. Tudor rafgeymar blasti við mér í allri sinni dýrð og þá tók ég eftir smærra letri neðan við Tudor. En þar stóð Ótrúleg orka- ótrúleg ending. Og síðan hef ég ekki getað annað en hlegið....stundum...alveg upp úr þurru og þá horfir hann bara á mig
(Höf.K.H.K)
26.8.2008 | 09:49
Heimili mitt
Þú ert hér með þína styrku útveggi. Með glugga þína og hurðir. Útidyrahurð sem ég get gengið út og inn um hvenær sem ég vil.
Ég á þig, ég keypti þig og vinn fyrir þér. Þú ert heimili mitt. Allt sem ég legg til í þig eru mínar bestu óskir, langanir, vonir og þrár í lífi mínu Þú ert umgjörð utan um fjölskyldu mína en fyrst og fremst griðastaður. Tákn friðar, ánægju og gleði. Sameiningartákn, hláturs, gráturs, sorgar og huggunar ef eitthvað bjátar á. En umfram allt faðmur fjölskyldu minnar. Því hér verður eftir...þegar við yfirgefum þig, hús....minningar.... fullar af gleði, sorg, sáttum, unaði ,ást og umburðarlyndi. Hús með sál. (K.H.K)
GULLKORN | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2008 | 09:33
Meira mál en ég hélt
Það er meira málið að geta sent inn ljóð á síðuna svo vel sé :( Þetta fór allt í handaskol hjá mér. Enda er mér ekkert sama hvernig þetta er uppsett. Þetta fór bara í einn hrærigraut hjá mér. Skamm..skamm... en mér verður vonandi fyrirgefið þó þetta verði ekki 100% hjá mér Ætla að halda áfram að leita leiða svo þetta verði frambærilegt en ekki í einni kássu hmmm.. hugsa..hugsa
Heyrumst
26.8.2008 | 08:35
Gullkorn
Ó..að ég væri himinninn og hefði öll hans augu til að horfa á þig. (Platon)
GULLKORN | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2008 | 20:02
Draumur að rætast
Öll eigum við okkur drauma og þessi draumur minn er að getað skrifað niður ljóð sem ég hef samið gegnum tíðina og annað nýlegt. Og hugmyndin er að myndskreyta þessi ljóð mín með myndum sem hæfa hverju sinni. Nú ef eitthvað annað skemmtilegt fellur til þá kem ég því áleiðis hér á síðunum mínum og það getur verið hvað sem er Ekki var nú meiningin að vera háfleig enda er ég það ekki..ekki á neinn hátt. Nema við hátíðleg tækifæri ha..ha. En þeir sem mig þekkja vita vel hversu mikill prakkari ég get verið og nóg um það. Takk fyrir Helena mín að opna þessa síðu fyrir mig. En ég hafði fyrir nokkru síðan nefnt þessa hugmynd mína við dóttur mína Helenu að opna svona síðu. Og það var ekki að spyrja að því. Nú svo getur vel verið að þegar maður verði hugrakkari að maður láti nú eina og eina smásögu fylgja...ef það liggur vel á mér..enda bjartsýniskerling fram úr hófi.. allavega oftast nær. Ég læt þetta duga að sinni á meðan ég er að kynnast þessari nýju vinkonu minni. Bless á meðan.......