Færsluflokkur: DAGBÓKIN MÍN

Leiðist þér.. kíktu á þessa síðu

Hér er ýmislegt sem hægt er að skoða og lesa ef þér leiðist
Kær kveðja úr Kollukoti wink


Covid þjóðhátíð árið 2020

Það er komin verslunarmannahelgi en engin Þjóðhátíð í Eyjum, blásin af vegna veirunnar og fjöldi takmarkaður úr 500 niðrí 100 manns ásamt því að 2ja metra reglan er orðin skylda.
Enginn fer nú um borð í ferjuna okkar Herjólf nema vera með grímu fyrir vitum. Get ekki annað en dáðst af þríeykinu og honum Kára Stefáns sem passa svona vel upp á okkur almúgann enda leggjum við traust okkar á þessa 4 vitringa Íslands og er það vel. Allavega treysti ég þeim fyrir velferð okkar landsmanna en svo er þetta alltaf undir okkur sjálfum komið að framfylgja þeim reglum sem landsmönnum eru settar og alls ekki gleyma,hvar sem við komum við að þvo okkur vel og spritta bæði sjálfra okkar vegna og annarra.
Meðan ekki er búið að finna smitberan/smitberana sem mér finnst óhugnanlegt þá erum við öll sem eitt í hættu og sérstaklega viðkvæmt fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Vissulega mun þetta taka á enn eina ferðina bæði fyrir veitingastaði og ferðamannaþjónustuna en hvað viljum við gera? Vera bara kærulaus og hugsa að ekkert kemur fyrir mig. Sú kenning er löngu orðin úrelt og vonandi tekin útúr minnisbankanum að eilífu.
Þetta er nefnilega akkúrat ástæðan fyrir því að veran geti borist áfram ef við hugsum þannig. Hættum þessum barnaskap og tökum ábyrgð og það gerum við með því að hvert og eitt okkar hugsi um varnir,þvotta,spritta og grímur fyrir vitum þar sem ekki er hægt að komast í veg fyrir óþarfa nálgun eða 2ja metra regluna.
Mér finnst að samfélagið hér í Eyjum hafi sýnt mikla ábyrgð með því að aflýsa Þjóðhátíðinni sem vissulega mun skilja eftir ákveðið tóm í hjörtum okkar heimamanna. Mér hefur skilist að götugrillum og fleira hafi verið aflýst og það er líka að taka ábyrgð. En til að gera sér dagamun hafa margir tjaldað hinum einu sönnu hvítu hústjöldum í görðum sínum með fjölskyldu sinni og nánum vinum og finnst mér það svo frábært að geta haldið í einhverja hefðir Þjóðhátíðar langt frá Herjólfsdal. Mér fannst einnig frábært að í svoleiðis mígandi rigningu var Lúðrasveit Vestmannaeyja undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar að spila inni í Herjólfsdal á degi setningarinnar föstudeginum og annar ungur maður Ágúst Halldórsson steig í pontu meðan himnarnir steyptu úr sér og setti Þjóðhátíðna 2020 formlega en eiginkona hans tók upp á myndband af þessari einstöku 2ja manna setningu og mér fannst þetta svo frábært hjá honum og Jarli með sitt fólk. Segi bara Bravó fyrir ykkur. Kveikt var á brennunni á Fjóskletti klukkan tíu um kvöldið sem byrjaði með örflugeldasýningu, pínu erfitt að ná bálinu upp þar sem brennan var hundblaut en það tókst að lokum og þessir Eyjapeyja sem stóðu að brennunni voru æðislegir að bara nenna þessu en mannfólkið varð að njóta brennunnar ú tölvuverðri fjarlægð enda Herjólfsdalur lokaður almenningi og lögreglan stóð sína plikt og passaði uppá að enginn gæti laumast nær bálinu til að finna ylinn sem við finnum undir venjulegum kringumstæðum.Meira að segja var Myllan formlega tekin í notkun af aðstandendum hennar og skálað fyrir henni. Nokkrir tóku sig til um daginn og flikkuðu upp á brúnna yfir tjörninni bara svona af gömlum vana svo rétt til að finna smá þjóðhátíðarfíling og það fannst mér einnig frábær ákvörðun. 
Svo er bara að vona að næsta ár verði okkur gjöfulla þegar líður að ágúst og við getum haldið þjóðhátíð eins og okkur Eyjafólki er einum lagið. En á meðan getum við notið tónleika góðra listamanna í sjónvarpinu með nánum fjölskyldumeðlimum og vinum. Ég segi bara gleðilega hátíð kæru Eyjamenn,Eyjakonur og fjölskyldur og takk þið sem gáfuð okkur smávegis af þjóðhátíð í hjartað, þið eruð allir/öll  frábær

Úr tjaldinu ómuðu gítartónar 
Kær kveðja úr Kollukoti
Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttircool


Óþreyjufullt fólk

Strax mátti greina óróleikan og óþolinmæði eftir fyrstu tilslökun Almannavarna teymisins og greinilegt að þrýstingur er að myndast á þetta góða fólk um meiri slökun.

Ég er ekki alveg sátt við taumleysið og óþreyjuna  í fólki sem er ábyggilega eins og að fá njálg í rassgatið. Þú bara getur ekki verið kjurr eitt augnablik og ert sí og æ að klóra þér í "jú nó vatt" og viti menn að njallinn getur farið undir neglur sem þú svo klórar þér í nefinu/kinninni eða bara klappar elsku litla sæta barnabarninu þínu..og eða heilsar með handabandi,bara svona lítið dæmi.

Talandi um njálg.. ég man þegar ég var krakki að þá smitaðist ég af Kláðamaur og mig fer bara að klæja þegar ég minnist alls umstangsins sem var í gangi þegar þessi fjárans padda þurfti endilega að heimsækja okkur krakkana á Hvoli. Það var ekki bara að maður þurfti að skipta um föt á hverjum degi og þvo sér vel, heldur var borið á allan líkamann einhverju viðbjóðslegu kremi minnir mig  eða vökva sem lyktaði í einu orði sagt hræðilega. Já og ekki má gleyma að það þurfti að skipta um á rúmum á hverjum degi ég segi bara aumingja elsku mamma okkar að þurfa að standa í þessu og ekki var nú þurrkurum til að dreyfa á heimilinu í denn heldur voru vindar og þurrkarar náttúrunnar sem sáu um það hlutverk að þurrka þvottinn fyrir mömmu.
Plúsinn við að þurrka þvottinn á snúrunum var að það kom svo dásamleg lykt af sængurverunum og ég elska þennan náttúrulega ilm enn í dag. 

Ef þú gætir sett Covid veiruna í líki Njálgs eða Kláðmaurs þá langar þig akkúrat ekkert til að fá svoleiðis ófögnuð en því miður er fjárans veiran ósýnileg öllum og læðist að þér eins og draugur. En ef Covid væri líkt og að fá Njálg þá færi það ekki framhjá neinum skal ég segja þér,því allir væru að hamast við að klóra sér i óæðri endanum út og suður um borg og bý. Og eða Kláðamaur þá værirðu eins og iðandi ormur og það færi heldur ekki framhjá neinum. Og þú vildir forðast viðkomandi af fremsta megni.
Svo förum gætilega í umgengni við aðra bæði okkar vegna og ástvina og verum dugleg í handþvottinum og sótthreinsa bæði heima og heiman.
Kveðja úr Kollukoti

ast 4



4 maí 2020

Jæja.. þá hefur fyrsta hurðin verið opnuð en bara rétt út fyrir þröskuldinn og svo þurfum við að bíða þolinmóð hvað verður eftir c.a 2-3 vikur af hversu mikilli alvöru við fögnum þessari glufu og von sem það það vissulega gefur okkur öllum en.. það er undir okkur komið hverju og einu að hurðin lokist ekki að stöfum og þurfum að byrja upp á nýtt.

Ég vona svo sannarlega að til þess þurfi ekki að koma í þessari fyrstu tilslökun en það kemur í ljós. Enda efast ég um að nokkur maður vilji neyðast til að vera heima/inni vegna kæruleysis annarra.

Mér reyndar barst til eyrna að karlar væru mögulega svolítið kærulausir hvað varðar sprittun í verslunum. Og var sá aðili sem sagði mér frá þessu vitni að því að þrír karlmenn hefðu komið inní verslun hér í bæ og ekki haft fyrir því að spritta sig áður en haldið var inn í verslunina. Skil vel að viðkomandi hafi brugðið við að sjá þetta enda þarf þessi einstaklingur að verja sig vel gegn öllu smiti.
Finnst það háalvarlegt ef menn og eða konur geri nokkuð svona og setji aðra í hættu, fjölskyldu sína og nána ættingja. Hvað er með þessa hugsun "það kemur ekkert fyrir mig" ég segi bara í guðs bænum karlar sem haga sér svona að vera meiri karlmenn en þetta og gera það sem allir eiga að gera að spritta sig..ekki bara sjálfra sín vegna heldur ekki síst fyrir fjölskyldu sína og þá einstaklinga sem eru í mikilli áhættu útí samfélaginu.
Ég tel að það sé bara tilvalið að hafa öryggisverði í verslunum sem sjá til þess að allir spritti sig áður en farið er inní verslanir og fyrr fari enginn þar inn.
Nú þegar sumarið er komið til að gleðja okkur og græn ábreiðan verður meiri og ríkari í fjöllum,dölum og öðrum gróðri og blessuð blómin og trén eru að vakna af vetrardvalanum vill enginn neyðast til að halda sumarið innandyra í þeirri pardís sem þeir búa. Nú þegar grillilmurinn fer að æsa upp bragðlaukana og með einn kaldan á kantinum vill enginn taka sénsinn á að eyðileggja það sem þegar hefur áunnist ekki satt ?
Vonandi eigum við öll gleðilega og áhyggjulausa daga framundan en með fyrirhyggjuna á bak við eyrað og njótum alls þessa sem okkur stendur til boða þessa næstu daga,vikur og mánuði.
Kær kveðja úr Kollukoti
svartur_engillxxxxtexti.jpg





Ef verður af Þjóðhátíð

Góðan og blessaðan daginn.


Sem Eyjamanneskja í húð og hár hef ég verið að velta fyrir mér hvernig ÍBV hyggst halda þjóðhátíð á þessum tímum covidveirunnar.

Hvernig sem ég velti þessum möguleika fyrir mér þá sé ég engan vegin lausnina. Og bjartsýnistal um að halda hátíðina með ákveðnum formerkjum eins og 2ja metra reglunni fæ ég bara ekki til að púslast saman, bara engan vegin.
Við vitum öll sem viljum viðurkenna að þegar fólk er komið í sönggírinn og söngvatnið þá losna allar hömlur og fólk verður ábyggilega fljótt að gleyma sér í gleðinni er ég hrædd um. Svo sé ég ekki fyrir mér hvernig á að koma í veg fyrir að hvítu tjöldin fyllast ekki af fólki fram undir morgun ef við hugsum enn um 2ja metra regluna.
Það hefur verið nefnt að verði hámark 2 þús manns og ég tek bara undir orð eins góðs eyjamanns að ekki vildi ég vera í þeirri stöðu að velja og hafna fólki sem vill komast á þjóðhátíð.
Við erum jú búandi,rúmlega 4 þús manns hér í Eyjum. Eða fá Eyjamenn ekki að sækja hátíðina?
Verður stefnt á að fá fólk ofan af fasta landinu í hátíðahöldin ? Eða verður þetta bland í poka. Þúsund Eyjamenn og þúsund ofan af landi?
Það er þegar byrjað að selja miða ekki satt og margir búnir að auglýsa eftir húsnæði sem vilja komast á þjóðhátíð.
Mig langar svo mikið að fá útskýringu á hvernig þetta verður yfirleitt hægt og hvernig og þætti vænt um að formaður þjóhátíðarnefndar myndi nú útskýra og eða teikna upp þá áætlun sem ÍBV hefur í huga, verði af hátíðinni.
Því ekki vilja menn verða valdir af nýjum smitfaraldri til þess eins að ná í peninga ? Ábyrgð þeirra sem munu taka af skarið og halda þjóðhátíð þrátt fyrir allt verður mikil og ég get ekki betur séð að það þurfi að stórauka gæslu og eftirfylgni að menn og konur virði 2ja metra regluna..úps..en það verður ansi erfitt þar sem aðeins er um 2 þús manns að ræða svo það gefur auga leið að þjóðhátíðargestir verða að vera færri ef auka þarf gæslu og eftirlit. Því jú allir lúta sömu reglunni hvort sem það eru gestir eða starfsmenn. Hvað með ferðamáta í Dalinn,rútur o.fl verður talið inní farartækin ?
Hvað með veitingatjaldið sem hefur alltaf verið stappað af fólki,hvað með bjórtjaldið sem er líka stappað af fólki, hvað með Brekkuna, hvað með Litla pallinn og auðvitað þann stóra þegar fólk vill sletta úr klaufunum og dansa eins og enginn sé morgundagurinn ?
Hvað með hvítu tjöldun..verður ekki að vera ákveðið bil milli tjalda og göturnar breiðari eða 2m reglan enn og aftur ? Svo eru það sölubúðirnar þarf ekki eitthvað að skoða aðkomu að þeim ?
Okey ég er með þessar spurningar því eins og ég nefndi get ég ekki púslað þessu saman en langar rosalega mikið að sjá hvernig ÍBV þjóðhátíðarnefnd ætlar að fara að þessu og ég tel að það sé betra að sýna almenningi það strax hvernig þessu verður háttað.
Með kveðju
Kolbrún Harpa



Draumaprinsinn

Í fyrsta skipti á minni nokkuð langri ævi bý ég með manni sem elskar mig af öllu hjarta af allri sinni sál og líkama og það fæ ég að heyra á hverjum einasta nýjum degi. Við erum gamlar sálir sem hittumst eitt kvöldið og ekki var til baka snúið eftir þau kynni. Bara samtal,horfst í augu og ekkert nema hlýja sem umvafði okkur þetta örlagaríka kvöld sem við hittumst í fyrsta sinni.
Heill mánuður fór eingöngu í samtal gegnum síma sem tók heilar tvær bíómyndir sögðu peyjarnir hans  hahahahhahaha ;) sem skyldu ekkert í því hvað pabbi var lengi á klósettinu að spjalla í símann langt fram undir morgun.
Ég elska þessa minningu því hann hefur ekkert breyst og er stöðugt að minna mig á hversu heitt hann elskar mig og að ég sé það besta sem nokkru sinni hafi komið inn í hans líf.
Og það sama get ég vissulega sagt um hann.. þessa elsku sem ég bý með og nýt þess að stjana við hann á hvern þann máta sem ég kann. Stundum skammar hann mig þegar ég segi töfraorðið: "Maturinn er tilbúinn elskan mín og gjörðu svo vel"
"Ekki láta alla aðra vera á undan þér" byrjaðu sjálf að fá þér að borða.Þú ert búin að hafa fyrir þessu öllu"
Ég hef bara vanist því gegnum tíðina eins og mamma mín forðum að við vorum alltaf síðastar til borðs því fjölskyldan gekk fyrir. Bóndinn og svo blessuð börnin.
"Leftovers/afgangar"voru vel þegnir á þessum tímum fyrir margt löngu síðan. Þegar þau voru mett þá var tilgagnum náð og það var fyrir öllu.´
Eg vil bara segja það eitt að ég elska alla fjölskyldu mína, bæði mín börn og Ómars börn. Þegar við giftum okkur sameinuðumst við og börn okkar beggja urðu börnin okkar.
Við erum ofboðslega rík er við horfum til barnanna og barnabarna okkar.

Við eigum yndislegt fólk í kring um okkur ég er svo heppin að eiga tengdaforeldra á lífi og pabbi minn blessaður er á dvalarheimili í Reykjanesbæ.
Bara  þetta einkenni minnar fjölskyldu Gleðin/hláturinn/söngurinn/gamanið og bara að vera til er einstök tilfinning.
Ég elska ykkur hvert og eitt og á minn máta og vil þakka öllum sem einhvertíma hafa orðið viðloðandi líf mitt og gefið mér þá gjöf sem ég enn bý að.
Sem er þakklæti og gleði yfir að hafa fengið að kynnast þér/ykkur 
Takk elskurnar mínar og geymi ykkur allar góðar vættir.

Kær kveðja úr Kollukotilaughing



 

 


Sameinuð stöndum vér..

"Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" stendur einhversstaðar og þessi orð eiga vel við í dag.
Við sameinumst í dýpsta skilningi þessara orða með því að fara eftir fyrirmælum þeirra sem standa í framlínunni. Allt er gert og reynt til að forðast dauðsföll og vernda það fólk sem á undir högg að sækja.
Mér finnst samt að það þurfi að skilgreina eitt enn betur þegar talað er um fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma og eldra fólk sem er í mestri hættu.

Það eru börn og unglingar,ungir menn og ungar konur sem eru með undirliggjandi sjúkdóma ekki bara eldra fólk sem ég held því miður að margir átti sig ekki alveg á og telja jafnvel að það sé aðeins átt við eldri kynslóðina.
Þetta finnst mér skipta miklu máli að sé kýrskírt frammi fyrir alþjóð. Það er mikið í húfi fyrir fyrrnefndan hóp ekki síður fyrir okkur hin sem erum í eldri hópnum.

Þetta er það eina sem ég vil leggja áherslu á og ekki síst að á þessu verði að hamrað svo skilningurinn verði meiri fyrir alla þá sem ekki gera sér fulla grein fyrir þessu.

Svo óska ég ykkur öllum velfarnaðar á þessum undarlegu tímum og farið varlega elskurnar.
Það er bara til eitt eintak af ÞÉR... þú sem þetta lest og án þín væri lífið lítilsvert.
Ljúfar kveðjur úr Kollukoti
Þegar ég deili ást minni KH Art 2020


Tökum ábyrgð á okkur sjálfum

Mér er fyrirmunað að skilja kæruleysi fólks að vera að ferðast til útlanda um þessar mundir þegar þessi veira herjar á heiminn og komin til lands elda og ísa. Þið bara fyrirgefið en þið eruð að leika ykkur að eldinum komandi heim  með smit. Við erum bara þrjúhundraðþúsund hér á landi og þessi háa tala smitaðra er óásættanleg og þið getið þakkað sjálfum ykkur fyrir þetta afrek. Það er ekki heil brú í að vera ferðast utan lands um þessar mundir. Það er ekki heil brú í að ekki skulu vera ferðabann. Það er ekki heil brú í að erlendir ferðamenn skuli fá að vafra út um allt og jafnvel smitandi meðan Íslendingar eru skikkaðir í sóttkví. Þetta bara passar engan vegin og gengur þvert á mína réttlætistilfinningu. Mér finnst  ýmislegt of seint...  ferðabann er ekki enn komið á en samkomubann  er rétt að byrja sem að mínu mati hefði átt að gera strax en ekki bíða og þá eftir hverju ? 
Það er ekki heil brú í ykkur sem eruð að fara erlendis þrátt fyrir að vita hvað er í gangi og einhvernvegin fæ ég þá tilfinningu að ykkur sé sama. Takið ábyrgð á sjálfum ykkur og komið ekki heim fyrr en þið eruð viss um að vera ekki smitandi. Þið eigið væntanlega ástvini og mögulega einhverja sem munu jafnvel deyja af ykkar völdum, vegna kæruleysis ykkar vegna þess að þið vilduð skemmta ykkur þrátt fyrir allt. Þið ættuð að skammast ykkar fyrir þetta kæruleysi gagnvart ástvinum ykkar. Veiran hefur að sögn stökkbreyst til hins verra hafandi eftir fjölmiðlum. Ég er rosalega reið yfir þessu "ég um mig frá mér til mín" hugsunarhátt hjá fólki sem hundsar allt og fer samt erlendis og þessu séríslenska syndromi "Það kemur ekkert fyrir mig"
Þið eruð leggja alla í hættu með þessari hegðan ykkar. Þið hljótið að geta beðið og hugsa frekar um þá sem eru ykkur nær því nú er tíminn til að hugsa um aðra en sjálf ykkur. Vernda fjölskylduna og gæta þess að smit berist ekki til aldraðra foreldra, langveikra barna og fullorðinna, nýrnasjúkra,hjartasjúklinga fólk með sykursýki, fólk með krabbamein, lungnasjúkdóma.
Það er fullt af yndislegu fólki, ástvinum sem mega ekki við að sýkjast því það gæti orðið þeirra síðasta og munu jafnvel ekki fá að sjá vorið vakna né sumarið blómstra. Svo taktu ábyrgð.

Kveðja úr Kollukoti


Hetjur Valentínusardagsins

Valentínusardagurinn var í gær 14 febrúar 2020. Dagur sem við nærfjölskyldan munum líklega aldrei gleyma né nóttinni á undan þegar eitt versta veður gekk yfir landið með miklum veðurham. Dagur ástarinnar sem hefði átt að verða ljúfur varð að tilfinningalegri,rússíbanareið í miðri orrahríðinni. Yngsta mín á leið inná sjúkrahús þennan morgun til lækninga og hafði haft vaðið fyrir neðan sig að koma sér í borgina áður óveðrið skylli á og vegum yrði lokað þar sem mætingartími hennar  á sjúkrahúsið var klukka tíu þennan morgun Valentínusardagsins 14 febrúar. Litla hundskottið hennar fór í pössun kvöldið áður á Hvolsvöll. Eitthvað vakti mig um klukkan fjögur aðfaranótt föstudagsins og þar sem ég kíkti í tölvuna sá ég að litla hundspottið var týnd á Hvolsvelli en hún hafði skotist út á milli fótanna á ungum manni og tók strauið eitthvað út í buskann. Þau reyndu að hlaupa hana uppi en það gekk ekki upp og fimm björgunarsveitarmenn hjálpuðu síðan til við leitina en urðu að hætta leit enda komið hamfaraveður og hríðarbylur. Og það hafa verið erfið og þung spor að neyðast til að fara til baka án þess að finna litla skottið. Hafi einhver verið bjartsýnn með að finna hana þarna í leitinni um kvöldið þá fóru að renna tvær grímur á alla að hún myndi finnast á lífi og yrði úti þarna um nóttina.
Að hlusta og heyra sorgina og grátinn í yngstu dóttur minni var hrikalega erfitt og þannig gekk það fram eftir degi því ekki fannst litla skottið þrátt fyrir mikla leit og við mæðgur vorum í stöðugu sambandi hún á sjúkrahúsinu og ég hér í Eyjum og já þetta var henni sérstaklega erfitt ofan á allt.  Ég ákvað að hafa samband við Björgunarsveitina á Hvolsvelli og kanna hvort þeir væru með leitarhund en svo var ekki nema einn mannanna sagði að það væri hundur þarna í þorpinu sem væri hægt að nota til leitar. Það varð úr að nota þetta ráð, fara heim til fólksins sem litla skottið átti að vera hjá og þefa af einhverju sem tilheyrði henni og skella sér síðan í leit og þetta var rétt uppúr hádegi, verð bara að koma því að hér hversu heppin við erum að eiga þetta óeigingjarna og góða fólk sem skipa björgunarsveitir landsins og þurfa að fara út í hvaða veður sem er til hjálpar og björgunar. Ekkert annað en hetjur skipa svona sveitir. Ég fékk símtal frá dóttur minni af sjúkrahúsinu þar sem hún var alveg á nippinu að fara þaðan út, út af allri óvissunni með litla skottið hennar en ég sagði við hana og bað hana að bíða aðeins því ég hefði rætt við björgunarsveitina þarna á staðnum og þeir væru farnir af stað með leitarhund. En það var erfitt að hlusta á hana gráta svona í símann og svona veika fyrir og þurfa að bíða fregna hvort litla skottið fyndist lífs eða liðið. Ég verð að segja það að ég var ekki bjartsýn þessa stundina enda liðnir c.a 18 klukkustundir frá því hún hvarf útí veðurhaminn kvöldið áður og við fjölskyldan bjuggum okkur undir það versta en vonuðum það besta. Kannski um klukkustund eða 45 mínútum efir okkar samtal hringir síminn og þá er það sonur minn  Davíð sem hafði tekið sér frí frá vinnu ásamt tengdadóttur minni  henni Drífu og á leiðinn þarna austur til leitar..kom Davíð auga á hana og hún var á lífi. Töluvert fyrir ofan veg eða í uppsveit nálægt Hvolsvelli.
Hann hafði að kalla til hennar og litla skottið kom í átt að bílnum en um leið og Davíð minn steig útúr bílnum hljóp hún undir bílinn og faldi sig. En Davíð var nú ekki alveg ráðalaus með að ná henni fram undan bílnum og talaði til hennar á svona sérstakan máta svipað og við gerum stundum við litlu börnin og viti menn hún kom undan bílnum til hans og þegar hann fékk hana í fangið þóttist hún vera Golíat og gerði sig líklega að bíta hann sem varð bara pínulítið nart enda köld og skíthrædd greyið litla eftir svaðilförina. Davíð lét hana í fangið á Drífu sinni sem vafði litla skottið í hlýja prjónaflík og hélt henni þétt upp að sér til að halda á henni hita enda skalf litla greyið svo mikið og á þeirri stundu sem Davíð hringdi í mig og sagðist hafa fundið hana, var hún steinssofandi í fanginu á Drífu. Þegar litla skinnið fannst loksins og það á lífi, fóru bara allir að gráta og ég klökknaði af gleði þegar ég fékk símtalið og gleðin leyndi sér ekki í rödd sonar míns.

Ég segi það aftur og ég segi það enn að við erum umvafin englum í mannsmynd. Besta símtal sem ég hef átt þennan dag þegar ég hringdi síðan inná sjúkrahús og bað um skilaboð til dóttur minnar að hringja í mig því ég væri með gleðifréttir. Og það leið ekki á löngu að síminn hringdi og ég held að hún hafi ekki alveg skilið hvað var í gangi því enn var sorg í grátnum en samt einhver vonarneisti og um leið og ég sagði henni að bróðir hennar hefði fundið litla skottið á lífi, hvað gráturinn breyttist í fegins og gleðitár. Hún sagði mér seinna þennan dag að hún hefði hreinlega misst fæturna undan sér og sigið niður á gólf með símann  í höndinni enda varð snögglegt spennufall hjá henni og hún ætlaði ekki að geta hætt að gráta af gleðinni sem tók yfir.
Hringdu nú í bróður þinn elskan mín sem fann hana fyrir þig. Við kvöddumst og þvílíkur léttir að geta fært henni þessa gleðifregn og það voru æði margir sem glöddust með okkur á samfélagsmiðlinum feisbúkk. 

Hvítur á leik núna og það er dóttir mín sem ætlar að koma sér á réttan kjöl í lífinu og eftir að hafa getað fært henni þessa gleðifregn gat hún farið að einbeita sér að sjálfri sér og byrja að ná bata.

Takk fyrir elsku Davíð minn og Drífa mín að hafa farið af stað  í leit og ég fer ekki ofan af því að það var "eitthvað" sem sagði ykkur að fara í þetta ferðalag.
Og takk innilega þið öll sem komuð að leitinni á einn eða annan hátt..þið eruð ómetanleg. 
Kær kveðja úr Kollukoti 
86172056_10157051591529150_6520949382664159232_o Komin í hlýjuna í fanginu á Drífu
 og vel upphituðum bílnum enda var hún fljót
 að sofna eftir að Davíð bjargaði henni


Ef undirstaðan brotnar ..hrynur turninn

Fólkið í landinu okkar sem vinnur við fiskvinnslu,ummönnun barna umönnun eldri borgara,fólk í þrifum er undirstaðan svo það fari ekki á milli mála.
Það er þetta umrædda fólk sem skapar þau skilyrði að klukkan gangi taktfast, daginn út og inn að nóttu sem degi á rauðum dögum sem og venjulegum dögum. 

Fiskvinnslufólkið sem er að vinna við fiskinn og pakka til útflutnings er að skapa gríðarleg verðmæti úr aflanum sem fiskvinnsluhúsið fær frá sínum skipum. Gróðinn fyrir fyrirtækið getur orðið ómennskur í peningum talið og þeir græða á tá og fingri en til öryggis væla samt þegar talað er um að hækka laun fólksins á gólfinu. Þá er allt tínt til að hálfu þeirra sem græða mest í von um að manneskjan sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá og borgar reikninga  fái ekki nema nokkurra króna hækkun á laun sín svo fyrirtækið fari nú ekki á hausinn og á stundum líður ekki langur tími er menn og konur sem sitja í gullstólunum fara að borga sér út arð..því ekki mega þeir nú svelta sig blessað fólkið á toppnum. Hluti að þessum arði hefði getað orðið að góðri hækkun launa til fólksins þeirra á gólfinu sem skapar fyrir þá þessi verðmæti.
Munið bara að þetta sama fólk er undirstaðan í þínu fyrirtæki og ef það fara að koma brestir í undirstöðurnar þá hrynur turninn og til lengri tíma þegar grunnstoðirnar eru farnar verður ekkert eftir til að græða á.

Peningarnir verða nefnilega ekki til í bankanum eins og svo ótal margir virðast halda. Það er fiskurinn sem hefur alla tíð haldið uppi þjóðabúskapnum og þannig hafa peningarnir orðið til bara svona til áréttingar.
Og að það skuli tíðkast enn þann dag í dag að þetta sama fólk í fiskvinnslunni skuli neyðast til að þiggja strýpuð laun á dagvinnutaxta ef ekki er afli til að vinna úr í húsinu finnst mér fyrir neðan allar hellur og það er ekkert til að hrópa húrra fyrir og getur komið illilega í bakið á starfsmönnum sem þurfa eins og allir að eiga fyrir lífsnauðsynjum og reikningum. Sérlega getur það komið illa við fólkið ef ekki er vinna í langan tíma. Enn í dag eru það bónusarnir sem rífa kaupið upp,mikil og hröð vinna og oft á tíðum yfirvinna ef svo býðst. Einstaka uppgrip eru á loðnuvertíð og síld í vaktavinnu sem hafa komið sér vel fyrir æði marga en að baki liggur langur og strangur vinnutími.

Ummönnun barna á leikskólum og ummönnun aldraðra er svo hinn handleggurinn á lélegum launum til þeirra starfsmanna sem hugsa um börnin okkar og afa og ömmur, langafa og langömmur.
Þarna ertu með í höndunum uppistöðuna sem eru börnin og þá eldra fólkið okkar sem gerðu okkur kleift að verða það sem við erum í dag sem er svo mikið dýrmæti og er ómetanlegt en fólk er oft fljótt að gleyma hverjir ruddu leiðina fyrir okkur en það er elsku fólkið á Elliheimilunum í landinu sem og vann baki brotnu við miklu lélegri kjör og aðstæður en þú hefur í dag.
Án þeirra værirðu ekki á þeim stað sem þú ert á í dag og hugsaðu vel um það, þú sem þetta lest því þetta er einfaldlega staðreynd.

Börnin sem koma til með að verða uppistaðan þegar viðkvæmum árum lýkur í leikskóla og fara þaðan yfir í barnaskóla er þýðingarmikill tími í þroska þeirra,skilningi á umhverfinu,náttúrunni, samverunni og leikjum ásamt miklum lærdóm frá þeim sem annast þau meðan við foreldrarnir vinnum úti.

Í þessu góða starfsfólki er mikill fjársjóður bundinn sem svo miðla þekkingu sinni til barnanna okkar á viðkvæmu æviskeiði.Kenna þeim svo ótalmargt gott og uppbyggjandi fyrir framtíðina meðan við foreldrarnir vinnum úti.
Hvar værum við nútímafólkið án þessa góða starfsfólks sem eru að slípa demantana okkar daginn út og inn. Þar sem um mikinn mannauð er að ræða í báðum tilvikum s.s leikskólum og elliheimilum og þú ert að gera þitt allra besta svo öllum líði vel þá er þarna einn risastór mínus og það eru laun þessa ómetanlega starfsfólks. Hvað réttlætir þessi lágu laun sem þetta fólk er á við ummönnun ? Ekkert, akkúrat ekkert. Hvað eru þeir sem ákveða á hvaða launum þetta fólk er á..að hugsa ? 

Ég segi bara að þið ættuð að skammast ykkar til að hækka launin vel og dyggilega fyrir þessi ómetanlegu störf. Að þetta sama fólk þurfi,liggur við ár eftir ár að að hóta verkfallsaðgerðum svo á það sé hlustað er fyrir neðan allar hellur.
Af hverju þarf þetta sem ætti í raun að vera sjálfsagt þegar séð er að fyrri samningar eru að klárast að það er alltaf og ég segi alltaf beðið með að semja þar til í óefni er komið og þá á ég við að hálfu þeirra sem stjórna og ráða.
Af hverju er ekki hægt að setjast niður áður en allt fer í vitleysu og ræða saman svo ekki komi til þessa verkfalla.
Af hverju á að halda þessu fólki niðri æ ofan í æ með lágum launum. Þetta er ómannúðlegt og skammarlegt að fólk geti rétt skrimt af sínum launum sem þið skaffið þeim. Þið/þú sem ræður..reyndu að lifa á þessum launum í eitt ár eða svo með eða án barna, borga allt, reikninga,fæði, af bíl og húsnæði á þessum launum. Ég er ansi hrædd um að það liði ekki langur tími þar til þú færir að sjá ljósið og gætir mögulega skilið um hvað launin snúast svona einu sinni.

Þar sem undirrituð hefur unnið við þessi störf veit ég hvað ég er að tala um en á næsta ári ef guð lofar mér verð 67 ára þó mér finnist ég ekki vera svona gömul í tölum talið því aldur er í dag orðið ansi breytt hugtak. Miðað við hversu mikið afar,ömmur, langafar og langömmur slitu sig út snemma á sinni ævi með mikilli vinnu varð aldur þeirra ekki hár oft á tíðum og það get ég séð á gömlum leiðum í kirkjugarðinum að langalanglang- varð að mestu háaldrað rétt um fimmtugt.
En við eigum þessi fólki allt að þakka ,ekki gleyma því. 

Svo fyrst ég tala um aldurinn þá verð ég auðvitað að nefna Örorkulífeyrinn sem er til skammar og er jafn lágur og vinna í fiskvinnslunni. Samkvæmt lögum átti lífeyririnn að fylgja hækkunum launa  við samningagerð en það hefur ekki verið í nokkur ár. Þessi lífeyrir er geðþóttaákvörðun yfirvalda. Við eða ég er ekki með neinar 3 hundruð þúsund á mánuði í ráðstöfunartekjur. Nei takk það er langt innan þeirra marka og ég bíð spennt eftir að þeir sem skammta ofan í okkur opni augun nema það sé einlægur ásetningur að láta okkur bara eiga sig og margir hverjir svelta og eiga ekki fyrir nauðsynjum út mánuðinn. Við þurfum nefnilega líka að borga fyrir húsnæði,af bíl og öðrum nauðsynjum ef það skyldi hafa farið fram hjá ykkur eða verið eitthvað misskilið og það sé draumur í dós að vera á Örorkubótum. 
Með kveðju úr Kollukoti


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband