Færsluflokkur: DAGBÓKIN MÍN

Þegar jólin nálgast

Alltaf skal heilinn fara í frí og verða gjörsamlega meðvitundarlaus þegar á að fara að velja jólagjafir, allavega frýs hann hjá mér í hvert skipti.
Og nú þegar allt hefur hækkað uppúr öllu valdi er enn erfiðara að velja eitthvað svo öðrum líki. Og alltaf verð ég jafn hissa þegar á að fara að greiða fyrir vörur í hinum svokölluðu lágvöruverslunum. Mikið til það sama sem maður er að versla en aurinn maður..hann er fljótari að hverfa en andskotinn sjálfur. Ég geri yfirleitt kaup fyrir marga daga í einu og síðast þegar ég gerði það þá lá við að liði yfir mig þegar ég átti að borga fyrir sömu vörur en meira en helmingi dýrari en venjulega. Hvernig fer fólk yfirleitt að í þessari dýrtíð og ég þakka guði fyrir að ég er ekki alveg ein með að hafa laun en ef svo væri þá gæti ég aldrei náð endum saman verandi á ellilífeyri og borga leigu. Ég lægi líklega uppá börnunum mínum í tíma og ótíma þeim til mikillar "gleði" cool ER nú reyndar aðeins að fíflast með börnin mín þau eru öll yndisleg og vilja allt fyrir mann gera.
Þar sem ég á eina yngri dóttur sem er ekki að ganga góða vegi þessa stundina þá hryllir mig við að vita af henni á götunni þegar jólahátíðin gengur í garð en ef allt gengur upp næstu daga þá er von um að komast á Vog, 20 desember rétt fyrir jólin og hjarta mitt hlýnar við að hugsa til þess og þá hefur hún þak yfir höfuðið og reglulegar máltíðir ásamt því að vera í afeitrun. Og hugur hennar gengur enn lengra með að fara í lengri meðferð tl að ná sér uppúr þessu öllu og ég vona innilega að henni takist þetta elsku stelpunni minni.
Ég hef fengið í lið með mér dásamlega manneskju sem er tengdadóttir mín hún Drífa  og hún vill allt fyrir mágkonu sína gera og sem í hennar valdi stendur, enda nær hún miklu betra kontakti við dóttur mína en ég. Það bað hana enginn um að hjálpa heldur bara fór hún í málin og hefur verið yngri dóttur minni stoð og stytta í hvívetna og mér finnst þetta alveg hreint ómetanlegt enda er tengdadóttir mín falleg bæði að utan sem og innan. Og á ég henni mikið að þakka ef ég get þá nokkurn tíma þakkað henni að fullu. Ef til er engill er tengdadóttir mín sá engill í mannsmynd. 
Eigið annars yndislega daga framunda elskurnar
Kveðja úr Kollukoti 


Það veit sá sem allt veit að ég sakna þín

Það er varla að ég geti komið þessum orðum frá mér án tára svo sárt er að vita ekkert.
Svo sárt að það svíður á hverjum einasta degi, hverja klukkustund,hverja mínútu. Óvissan er hræðileg þegar ég spyr sjálfa mig, hvar ertu núna stödd, akkúrat þessa stundina elskan mín.

Það veit sá sem allt veit að ég sakna "litlu stelpunnar minnar" svo mikið, svo mikið að ég er í hálfgerðu sorgarferli á hverjum einasta degi.
Stundum óska ég þess að þú værir á þeim aldri þar sem ég hefði eitthvað enn um að segja hvar þú ert stödd í lífinu og gæti tekið fram fyrir hendurnar á þér og hjálpað þér eins og ég sem móðir þín á að gera, ætti að gera.
En sá tími er löngu liðinn og runnin mér úr greipum því er ég á hliðarlínunni og get aðeins fylgst með þér úr mikilli fjarlægð ef ég mögulega fæ einhverjar fréttir af þér sem er sjaldan. Ég veit ekkert hvar þú ert, með hverjum né hvernig þú lifir af dag frá degi þar sem ferlið hefur verið þannig að aurar endast ekki nema stuttan tíma þar sem þeir eru notaðir til að sefa og deyfa þig frá lífinu, og það er dýrt.
Sérstaklega þar sem þetta gerir ekkert nema að soga úr þér lífið og gerir þig að skel af manneskju. Manneskju sem ég varla þekki lengur því svo hræðilega illa er komið fyrir þér eftir alla neysluna.Og eins og allir vita að það kemst enginn neðar þegar þú ert farinn að sprauta sefanum,sorginni,áföllunum í æðarnar og kallar á meira og meira í hvert skipti.
Ekkert,ekkert kemur í staðin fyrir þig elskan mín. Þú ert og verður alltaf barnið mitt hversu fullorðin sem þú verður. Og þú ert eina eintakið í heiminum og ég fæddi þig og var svo stolt og auðmjúk yfir þessu litla kraftaverki sem ég hélt á í fanginu eftir fæðingu þína, nærði þig með móðurmjólkinni í langan tíma og það var alltaf svo einstaklega hlý og notaleg stund að halda á þér við brjóst mitt og gefa þér af mér. Þessi minning greypist í hjarta mínu að eilífu. 
"Einhversstaðar stendur : Hvert sem þú ferð, þangað fer ég. Þitt fólk er mitt fólk, minn guð er þinn guð. Dauðinn einn mun skilja mig og þig" 
En þú fórst aðrar leiðir vina mín og þangað gat ég ekki ferðast með þér hversu mikið sem ég vildi vernda þig. Og í hjarta mínu dvelur alltaf sú heita ósk mín að þú áttir þig áður en það verður of seint elsku barnið mitt. 
ÉG hef alltaf haft óbilandi trú á að eftir hverja meðferð að nú sé komið að þeirri gleðistund að þú sért loksins að komast á réttan stað í lífinu en því miður hef ég jafn oft orðið fyrir vonbrigðum elsku litla mín. Þú geislaðir og dafnaðir í meðferðunum og varst svo einstaklega falleg og lifandi enda hefur þú svo sérstakt útlit sem hver manneskja gæti öfundað þig af og það veit guð að þessi tími gaf mér miklar vonir og ég gladdist svo innilega með þér og faðmlögin voru einlæg og ástrík. 
Sama hvað verður, hver þú ert í dag, þá elska ég þig af öllu mínu hjarta og af öllum mínum mætti og ég sakna þín.Því ég sé í gegnum ömurlega skelina, barnið mitt, sem ég fæddi og klæddi. Ég vildi óska að ég gæti gert eitthvað fyrir þig og hjálpað útúr þessum vítahring sem þú ert í en það verður víst að vera fyrst og fremst þú sjálf sem þarft að þrá það og vilja af öllum mætti. Viðurkenna að nú sé komið nóg.
EF þú lest þetta elskan mín þá veistu hversu mikið ég elska þig og ég vildi að það væri nóg til að snúa af þessari braut sem þú ert á en ég veit að það nægir ekki alltaf. 
Ég bið allar góðar vættir að vernda þig fyrir mig, vernda þig fyrir öllu því slæma og leiði þig áfram til betri vegar.
Og það er sama hvaða ráðleggingar ég fæ um það hvernig ég á að gera hitt og þetta og ekki gera. Þá tekur enginn frá mér þessar hugsanir mínar hvernig henni reiðir af. EF ég hefði þessar tilfinningar ekki þá væri ég ekki mennsk.






Meðan hún lifir ekki láta eins og hún sé ekki til !

Margir vita líklega í dag að ég á dóttur sem er á götunni í henni Reykjavík og þvælist milli staða eins og í Konukot og Skjólið og stundum þegar allt er lokað er það bara einhversstaðar og jafnvel á stöðum sem geta verið stórhættulegir þess á milli.
Þarna úti er manneskja sem átti lífið allt framundan,stórglæsileg,falleg og algjör vinnuforkur og afar samviskusöm í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. En þessi manneskja er ekki lengur til í dag enda orðin skel af manneskju sem lifir fyrir næsta skammt,grindhoruð og ekkert nema skinn og bein og það tekur alveg hræðilega á að vita af henni í þessum aðstæðum og geta ekkert gert enda er hún fullorðin kona.

Ég mamma hennar hef reynt allan fjandann til að aðstoða hana talað við hina og þessa aðila sem mögulega gætu komið til hjálpar en það hefur því miður verið til lítils fram að þessu. 
Enginn virðist geta gert nokkurn skapaðan hlut og svo virðist sem öllum sé sama um þessa manneskju sem þarf svo mikið á hjálp að halda og helst í gær áður en það verður of seint. 
Enginn vill fá þetta símtal um að viðkomandi sé látinn vegna ofneyslu en um það er ég orðin hrædd á hverjum einasta degi. Aðilar eins og Geðhjálp/geðdeild hef ég talað við en ekkert komið útúr því. Vogur..jú meðferð í 10-14 daga og hvað svo, hvað tekur við ? Akkúrat ekkert það er ekkert sem grípur hana að lokinni meðferð og Vík sem er framhaldsmeðferð hefur verið lokað vegna fjárskorts ! En á meðan er ógrynni fjármagns matað í hina og aðra sem jafnvel þurfa þess ekki með fyrirtæki sem eru stórrík og fá meira að segja styrki en gætu vel fjármagnað þessa hluti sjálfir en græðginni eru engin takmörk sett. Mikill vill meira og vesalings fólkið sem mælir göturnar, sefur hér og þar fær enga hjálp ! Það má bara éta það sem úti frýs enda virðist öllum vera sama nema þeim sem eru aðstandendur þessa fólks. Og já þú mátt vita að vanlíðanin er hræðileg og samviskan alveg að fara með mann. Fólk sem er í þessu ástandi að vera fíklar og jafnvel morfínsprautufíklar eins og barnið mitt vantar alltaf peninga því þetta er dýrt,dýrt að kaupa af sölumönnum dauðans.
Hversu fullorðin sem hún verður mun hún alltaf verða litla barnið mitt,litla dóttir mín sem ég elska af öllu mínu hjarta og óska einskis frekar en hún fái þá uppljómun að nú sé nóg komið og geri eitthvað í sínum málum. En það er ekki einfalt fyrir einstakling sem er sífellt undir áhrifum fíkniefna, missterkra.
Ég þrái það eitt að fá barnið mitt til baka heila á húfi og hún fái tækifæri til að lifa góðu lífi án vímuefnanna en því miður hefur sú von dvínað dag frá degi enda um næstum 20 ára neyslu að ræða sem byrjaði með fikti að reykja gras/mariuna en svo þegar það hætti að gefa þessa sælutilfinningu þá byrjað leit að öðru og sterkara en þegar þú ert kominn í sprauturnar ertu eiginlega kominn á endastöðina og bara spurning hvenær illa fer.
Verst af öllu finnst mér þegar manneskjur láta jafnvel eins og hún sé ekki til að vísu er ég spurð annað slagið hvað sé að frétta en af hverju getur fólkið ekki einfaldlega hringt í hana og spurt hana sjálfa ?  Að vísu hefur hún brotið allar brýr af baki sér gagnvart sínum nánustu með lygum og stöðugum sníkjum um peninga sem jú allir vita í hvað hafa farið en það þýðir ekki það sama og að láta sem hún sé ekki til.
Peningaóskir koma alltaf illa við fólk enda hefur fólk nóg með sitt og sína og þegar þú sérð fram á að fá aldrei neitt til baka þá er nóg komið. 
Því miður hef ég verið einum of gjafmild á peninga þó svo ég hafi ekki haft nein efni á því þar sem ég hef vorkennt henni hræðilega og ég vildi ekki vera í hennar sporum í þessum efnum.
En núna hef ég stoppað og tala helst ekki við hana beint heldur með smáskilaboðum þar sem þau eru alltaf ósk um að fá "lánaða" peninga og loforðum um að borga til baka sem hún hefur ábyggilega sagt hundrað sinnum. En nú er komið gott því ég verð víst að fara að huga að sjálfri mér og mínu geði eftir allt sem á undan er gengið. En ég hugsa til hennar á hverjum einast degi,hvar hún sé og hvort hún sé í hættu. Þetta er bara svo óbærilegt og ég vildi óska að ég gæti gert betur fyrir hana til að hjálpa henni sem hefur ekkert gengið.


Brothætt skelin

Hversu margir hafa dregið sig inní sjálfan sig á liðnu ári? Held það séu margir og þó.. Það hefur dregið úr manni allt þetta covidástand og svo ótalmargt fleira sem hefur höggvið í fleyið mitt svo á stundum finnst mér ég vera strand.
Maður hefur reynt að taka þetta á gömlu "góðu" hörkunni en það er svo allt of margt sem hefur knésett mig þannig að ég hef á stundum gefist gjörsamlega upp. Því það sem ég taldi mig vera að gera rétt hefur ekki verið það sem ég taldi vera rétt. Vonbrigðin hafa hlaðist upp í hjarta mér og sál og tárin hafa stundum vökvað vanga mína í vanmætti mínum þegar allar bjargir virðast bannaðar. Þú stendur eftir í vanmætti gagnvart því sem þú taldir þig vera að gera rétt allan þennan tíma. Já ég er sorgmædd og búin að vera lengi. Af hverju ? Það vita aðeins afar fáir enda vil ég ekki né kæri mig um að ræða það. Líklega skil ég eftir stórt spurningamerki hjá ýmsum varðandi þessi skrif en það skiptir mig engu máli. Skelin sem ég er smá saman að hlaða utan á mig er aðeins fyrir mig og mig eina svo ég geti skikkað sjálfa mig til að vera í ábyrgð fyrir sjálfa mig og engan annan. Já ég sýnist líklega vera sjálfselsk núna en það verður bara að hafa það ég bara verð að hugsa fyrst og fremst um mína sálarheill en ekki lengur annarra.

Ég hef alltaf sett mig til hliðar og ábyggilega langmestan hluta ævi minnar og nú er bara komið að mér.. að setja mig í fyrsta sæti og hlúa að þessari brotnu sál sem ég er og hef verið ansi lengi. Það liggur við að ég kunni ekki á sjálfa mig, persónuna mig sem hefur verið týnd svo ansi lengi. Svo margt skrýtið hefur poppað upp í huga mér og ég endurmetið út frá allt öðru sjónarmiði manneskjunnar sem ég er í dag. Bæði skömm,misskilningur,áföll, ofbeldi, allt frá yngri árum hafa poppað upp og ég bara skil ekki hvernig í andskotanum ég stóð aftur  og aftur upp úr brotnu manneskjunni yfir í að taka allt á helvítis hörkunni sem hefur margoft orðið mér að falli gegnum tíðina bæði í orði og verki. 
Ég þyrfti ábyggilega að biðja marga um fyrirgefningu gegnum tíðina en ég ætlast ekki til þess af neinum því enginn vissi hvað ég geymdi innra með mér og var gjörsamlega á stundum að fara með mig, það er ekki hægt að ætlast til fyrirgefningar né gera ráð fyrir henni. Persónuleiki minn sem var..er ekki hægt að fyrirgefa því ég var ekki með sjálfri mér á þeim tímum. En svo sá ég ljósið einn morgunninn og í dag eru liðin rúmlega 2 ár sem ég tók mér taki alveg uppá eigin spýtur og sá hvað ég var að gera bæði sjálfri mér og öðrum í kring um mig. 
Þegar ég horfi inná við í dag og reyni að skilja mig..þá manneskju sem ég var þá er það eina sem kemur upp er  gríðarleg væntumþykja á þessari margbrotnu manneskju sem barðist um í lífsins ólgu sjó með ótal margar byrgðar á bakinu og kunni ekki að létta þeim af sér í langan,langan tíma.
Mér er minnisstætt er mjög náin ættingi sagði við mig "Þú hefur breyst" og ég spurði "Breyst ? Hvernig þá ? " "Bara breyst" var svarið.
Svo ég fór að íhuga hvað það var sem hafði breyst og gerði mér grein fyrir að það var þegar ég sá ljósið. Ég tók ekkert eftir þessu sjálf en það eru alltaf fólkið sem er í nánum tengslum við mann sem tekur eftir breytingunum og mér satt að segja þótti bara mikið vænt um að heyra þetta því ég ætla rétt að vona að það hafi verið breyting til batnaðar sem  manneskjan sá í mér en ekki eitthvað annað. En hvað veit ég hvað aðrir hugsa enda er það ekki aðalatriðið hjá mér í dag. Ég kemst í gegnum daginn án þess að íhuga hvað öðrum finnst um mig,sama hver það er.
Það sem skiptir mig mestu máli í dag er samvera mín við besta og elskulegasta vin minn og eiginmann sem hefur staðið með mér í gegnum súrt og sætt. Stutt mig í hvívetna, séð mig breytast úr svarta svaninum yfir í þann hvíta og fyrir þann stuðning verð ég ævinlega þakklát. Ég fer ekki ofan af því að hann var mér sendur á sínum tíma og hann er hér enn og elskar mig af öllu hjarta, þrátt fyrir allt og meira en nokkru sinni áður hefur hann sagt við mig og það sama get ég sagt um elskuna mína. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án hans því hlýrri og skilningsríkari mann gat ég ekki fengið til mín en hann. 
Svo vona ég bara hér í lokin að fari að lifna yfir öllu í kringum okkur enda vorið á næsta leyti með öll sín loforð um betri tíð með blóm í haga.
Ég óska fjölskyldum okkar alls hins besta í lífinu og að lukkudísirnar þvælist fyrir þeim í hverju spori og í hverju svo sem lífið leiðir alla. 
Brosum framan í heiminn cool




Þessi dagur

Já.. þessi dagur sem mun aldrei gleymist meðan ég lifi. Þessi dagur þegar urðu mikil vatnaskil hjá okkur íbúum hér á Heimaey árið 1973.
Átján ára gömul með 6 mánaða gamla dóttur mína, Helenu Sigríði þegar við urðum að flýja eyjuna okkar að nóttu til þegar risaeldgos klauf næstum Heimaey í austri og hrikalegar drunur fylgdu  í kjölfarið þegar eymyrjan skaust himinhátt upp úr jörðinni.

Eyjan okkar var eldrauð í myrkrinu og lýsti upp vantrúuð andlitin. Það sem skaust í gegnum huga mér á þessu andartaki voru húsin,heimilin þarna austurfrá Kirkjubæirnir og húsin á þeim slóðum því eldarnir virtust koma upp þar þegar jörðin rifnaði upp eins og rennilás. Þessa sýn sá ég frá þáverandi heimili mínu að Hásteinsvegi 5 þar sem við bjuggum á efri hæðinni. Ég vaknaði við raddir fólks í nágrenninu og sá rauðan ljóma og taldi þá að það væri kviknað í einhversstaðar nálægt heimili okkar. Ég kíkti út um svefnherbergisgluggann en gat með engu móti séð hvar eldurinn var og fór upp stigann uppí risið en þar var stór gluggi sem snéri í austur og þá..blasti við mér óhugnaðurinn í austri þegar jörðin rifnaði bókstaflega upp og hver spýjan af annarri gaus upp. Þetta var hræðileg sýn og rétt svo að maður trúði því sem var að gerast fyrir augunum á sér. Uppi í risi var sonur hjónanna á neðri hæðinni með herbergi og ég bankaði á dyrnar hjá honum til að vekja hann. Og þegar hann sá það sem var að gerast þaut hann niður til að vekja foreldra sína. Skrýtið að hugsa um það eftir á að maður tók ekkert með sér. Eina hugsunin var að komast með barnið í öruggt skjól og vitja heimilis foreldra minna og systra á Hvoli við Urðarveg 17 og þangað var haldið með barnið í vagninum. Á leiðinni mættum við fólki sem var svo vantrúa og vissi varla hvað það átti að gera. Og einum mætum manni mættum við sem spurði hvað væri eiginlega að gerast og ég sagði við hann að það væri farið að gjósa á eyjunni en hann ætlaði ekki að trúa því. 

Að Hvoli voru allir að taka sig saman og gera sig klár að fara niður á bryggju en þangað var okkur sagt að fara og um borð í bátana sem betur fer voru allir inni eftir slæmt veður deginum áður en þessa örlagaríku nótt á Heimaey var blankalogn og enn segi ég.. sem betur fer því ef veðrið hefði verið eins og deginum áður, brjálað austan rok eða stormur hefði ýmislegt getað skeð sem ég vil helst ekki hugsa um. 
Við fórum um borð í Gjafar Ve og haldið var til Þorlákshafnar. Allir bátar yfirfullir af fjölskyldum með börn sín á öllum aldri. Það var þungur sjór eftir rótið deginum áður og það urðu flest allir sjóveikir á leiðinni og m.a ég. En ég var svo ótrúlega heppin að Anna systir mín heitin  sem var alger sjóhundur var um borð og gat hugsað um Helenu mína meðan ég barðist við sjóveikina hálfmeðvitundarlaus á gólfi inni í einni káetunni. Þökk sé þér elsku systir mín sem ert nú komin í Sólarlandið.
Gríðarlegur fjöldi manna og kvenna beið eftir okkur flóttamönnunum á bryggjunni í Þorlákshöfn og hver höndin af annarri rétti fólkinu um borð í bátunum hjálparhönd og áleiðis í rútur sem voru þar staðsettar. Anna mín hélt enn á Helenu minni og við komum okkur fyrir í einu sætanna. Það var ekki fyrr en rútan var lögð af stað til Reykjavíkur þegar ég heyrði þulinn í ríkisútvarpinu segja Eldgos er hafið á Heimaey og allir íbúar eru á leiðinni til Þorlákshafnar þar sem tekið verður á móti flóttafólkinu og ekið með það í hina ýmsu skóla á Reykjavíkursvæðinu..það var þá á þessu augnabliki sem ég gerði mér grein fyrir að þetta var raunveruleikinn og tárin byrjuðu að trítla niður kinnarnar.
Í dag er ég svo þakklát öllum þeim sem komu okkur til hjálpar á hvaða máta sem var og þessar hetjur sem aldrei hefur verið fullþakkað fyrir allt sem gert var fyrir okkur þá og seinna meir vil ég endurtaka það þakklæti af öllu mínu hjarta. Og ekki síst þeim sem gerðu okkur kleift að snúa aftur eftir hreinsun Heimaeyjar.
Af öllu mínu hjarta, þakka ég ykkur öllum
Kær kveðja úr Kollukoti
Kolbrún Vatnsdal Sigríðardóttir


Hvað gerir maður þá ?

Rafmagnið farið og kolniðamyrkur snemma í morgun.

Leit að tjaldljósinu..Fyndið en um daginn þegar að veðurfræðingar voru að tala um að það yrði slæmt veður framundan þá ósjálfrátt fór ég að kanna hvar björgunarljósið á heimilinu væri staðsett og gekk úr skugga um hvar kertin væru..svona til öryggis. Og það kom sér vel í næstum "tyggjanlegu" myrkrinu í morgun, allt á sínum stað. En hvað svo.. maður gekk um og kveikti á því sem hægt var að kveikja á til að fá smá birtu. Það fyrsta sem við gerum hér í Kollukoti er að hella uppá kaffi til að vakna almennilega, en nei takk, ekki hægt,bara vatnsopa og svo út að kíkja og kanna hvort einhversstaðar væri ljós í bænum og jú það voru ljós niðri við bryggju og einhversstaðar í vesturbænum en hér í austurbænum var þrúgandi rafmagnsþögn..skrýtið hvað þögnin er ærandi þegar rafmagnið fer af og myrkrið sest að þér eins og þykkt teppi,frekar óþægilegt finnst mér allavega.
 
Einnig settist að mér sú hugsun um daginn í kjölfar veðurfregna um slæmt veður í kortunum hvernig það yrði ef kæmi upp eldgos og harðir jarðskjálftar sem "mögulega" gæti orðið til þess að eitthvað gæfi eftir og færi í sundur eins og t.d rafmagnið.
Hvað gera menn þá ? Við erum orðin svo hrikalega háð blessuðu rafmagninu og enn meira í dag og þá á ég við alla rafmagnsbílana /skip jafnvel. Ef yrðu nú alvarlegar bilanir vegna náttúruhamfara, hvað þá ?

Hvað er plan B ef það versta myndi ske ? Svo hitt blessaðir GSM símarnir okkar og fáir með gamla góða heimasímann sem mögulega væri hægt að nota undir alvarlegum kringumstæðum.
Hvernig  á að láta almenning vita ef upp koma aðstæður sem við ráðum ekki við? 

Jú..einhversstaðar var nefnt að yrði sent SMS boð í gsm-símana okkar. En ef það dettur allt út, hvað þá ?

Í eldgosinu hér á Heimaey 1973 fór slökkviliðsbíllinn um bæinn með aðvörunarflautu.
Hér áður fyrr þegar einhversstaðar kviknaði í fór af stað mjög hávær brunaboði sem hljómaði um alla Eyju og mig minnir að sá brunaboði hafi verið notaður þegar eldgosið braust út en það getur verið að mig misminni.
En þetta hljóð fór ekki fram hjá nokkrum manni enda notaður til að kalla menn saman sem unnu
sem slökkviliðsmenn hér í Eyjum á sínum tíma. Öllu hent frá sér og mætt uppá slökkvistöð. 
Maður má nú spökulera eins og maðurinn sagði, Allt getur gerst.

En viti menn, rafmagnið kom á eftir ca eina og hálfa klst og þá kættist sú gamla og hentist í að hella uppá kaffi og nú er dásemdar ilmur í kotinu og fyrsti kaffibollin bragðaðist hreint dásamlega með molasykri. Enda get ég helst ekki drukkið kaffi nema að fá smá mjólk og mola með mmmmm... 
Jæja best að hætta þessum heimspekilegu og kannski óþarfa íhugunum
"hvað ef" spurningunum.

Allavega í augnablikinu er dásamlegt að drekka kaffið, skrifa þetta og leyfa ykkur að lesa bullið í gömlu hahahahha 
Eigið frábæran dag elskurnar
Kveðja úr Kollukoti 


Það styttist...

Maður fer ekki varhluta af því að jólin nálgast eins og óð fluga þessa dagana. Hef reyndar alltaf hlakkað til jólanna og hef verið mikið jólabarn og smitað jólagleðinni í börnin mín .. líklegast með ósköpum að ýmsra mati. Þó skreytingargleði mín hafi töluvert minnkað hjá mér með árunum, toppa fullorðnu,börnin mín þá gömlu sí og æ enda eru utanhússskreytingar þeirra afar fallegar og litríkar. Ekki síður innanhúss þar sem ævintýralegur blær jólaljósa og allslags skreytinga gleðja augu og hjörtu bæði fullorðinna og yngri barnanna. Alltaf standa blessuð kertin fyrir sínu og hlýja manni að innan með ljúfri birtu sinni svo maður fyllist ró og frið við að horfa á kertalogann. Sjá hvernig bjarminn leikur listir sínar á veggjum og lofti og verður að dáleiðandi,ljúfum dansi. 
En í guðs bænum ekki gleyma að slökkva á þeim áður en þið farið út eða að sofa
Hið fagra getur breyst á svipstundu í brunarústir ef ekki er farið varlega.

Blendnar tilfinningar geta ráðið ríkjum um jólahátíðina og undanfara jólanna, sérstaklega ef einhvern ásvinin mun vanta við veisluborð jólanna.

Má maður gleðjast og gleyma sér þrátt fyrir sorgina ? Já, maður má gleyma sér og taka þátt í gleðinni af öllu hjarta og þannig tel ég allavega, þrátt fyrir missi að þú sért að halda jólin í anda þess sem ekki verður með þér og um leið ertu að heiðra minningu allra þeirra jólabarna sem verða ekki með okkur við jólaborðið á Aðfangadag. Þess í stað hugsa til hans/hennar með ómældu þakklæti sem ástvinur skyldi eftir sig í hjarta þínu. Sorgin og þráin eftir þeim sem eru farnir er öll sú ást sem þú gafst og  öll sáru, tárin þín sem hafa fallið á koddann þinn er þessi djúpa og einlæga ást sem fær ekki farveg til að skila ástinni til þeirra sem eru farnir.
Allar mínar hlýju óskir færi ég þeim sem sakna og syrgja og ég mun hugsa með mikilli hlýju til systursonar míns, til systur minnar og til mömmu og margra fleiri  ástvina sem eiga sérstakan stað í hjarta mínu og munu ætíð búa þar  í fallegu minningarskríni sálar minnar,meðan ég lifi. Þetta fagra skrín sem ég get opnað og lokað að vild en stundum opnast það af sjálfu sér og þá leyfi ég tárunum og söknuðinum að eiga sína stund og um nokkur augnablik ferðast aftur í tímann og upplifa allt sem við áttum saman. Þetta eru dýrmæt augnablik sem veita svölun  og um leið gleði yfir að hafa fengið að eiga samveru með öllu því yndislega fólki sem þurfti að fara á undan okkur.
Við sem eftir stöndum verðum að halda lífinu áfram,sérstaklega fyrir okkur sjálf og ekki síst vegna þeirra ásvina sem eru með okkur og í kring um okkur á hverjum degi og gefa þeim alla þá ást og hlýju sem okkur er fært að gefa. Halda gleðilega jólahátíð og enn og aftur upplifa gleðina hjá afkomendum okkar, litlu börnunum okkar sem elska jólin og allt sem þeim fylgir. Þannig höldum við áfram á hverjum degi ævi okkar og þegar nýir einstaklingar fæðast inn í fjölskylduna er það skylda okkar að umvefja þessa litlu nýju engla og bjóða þeim inn í heim ástar okkar og gleði og veita þeim gleðileg jól.
Með hlýrri kveðju úr Kollukoti





Ósamræmi

 Ég get engan vegin skilið þetta ósamræmi milli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og hins vegar  sóttvarnarlæknis. Hvernig má og getur heilbrigðisráðherra ákveðið þvert á tilmæli sóttvarnarlæknis hvað má vera opið og hvað ekki ?
Þegar svona er farið að.. fer mann að gruna eitt og annað s.s þrýstingur og eða að eitthvað sé ekki alveg í lagi þ.e.a.s heilstætt mat heilbrigðisráðherra. Það er mikil persónuleg ábyrgð fólgin í svona ákvörðun hjá ráðherra heilbrigðismála
Get ekki skilið að þegar smitum fer eitthvað fækkandi að þá á bara að opna staði sem hafa verið lokaðir. Líkamsræktarstöðvar má nú opna með sérstökum ákvæðum..en því í ósköpunum getur fólk ekki farið út að hlaupa eða ganga rétt á meðan lokanir eru í gangi ?
Ég hreinlega skora á líkamsræktarstöðvar að hafa áfram lokað og taka ábyrgð. Mannslíf er meira virði en taka svona áhættu og þar er ábyrgð ykkar eigenda rosalega mikil.
Og nú les maður að veitingastaðir séu jafnvel að fara í mál vegna lokana ! Örvæntingafullt fólk gerir oft mikil og stór mistök en það má nefna að Covid er drepsótt en ekki bara einhver kvefpest.
Einn fyrir alla og allir fyrir einn..tökum ábyrgð,verndum okkur sjálf og um leið aðra í kring um okkur. Það styttist í jólin og það yrði dásamlegt að geta verið með fjölskyldum sínum um hátíðina en það verður eingöngu vegna þess að við tökum öll ábyrgð og þá mögulega fer að sjá i mark og fleiri megi koma saman. Við höfum verið ótrúlega heppin hér í Eyjum fram að þessu og með sömu ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn getum við vonandi haldi gleðileg jól
Kær kveðja úr Kollukoti


Þolinmæði þrautir vinnur allar

ÞOLINMÆÐI er eitt af því sem þjóðina skortir mikið það sér maður eftir að Covid sýndi klærnar og glyrnurnar. Því miður en samt skiljanlega hefur fólk beðið með öndina í hálsinum eftir einhverjum tilslökunum í umgengi við annað fólk en um leið og tilslakanir eru tilkynntar eru ansi margir skyndilega komnir með ADHD eða stór hluti fólks í ferðamálageiranum og fólk sem bara VERÐUR að fara erlendis í sólina og þá helst í fyrradag. Af hverju ? Við eigum margar dýrmætar perlur hér á landi sem margir hverjir hafa ekki einu sinni litið augum fyrr en í sumar og fólk á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni á landinu og eyjunum við landið og þá nefni ég Heimaey með alla sína töfra og fegurð í allri sinni litríku mynd. Og ég sem er fædd þar og uppalin er enn þann dag í dag að uppgötva nýja og nýja töfra náttúrunnar sem er svo margbreytileg. Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst á þessari fallegu eyju, Heimaey og hér mun ég bera mín bein þegar þar að kemur <3 Vona bara að það verði úr elli en ekki vegna Covid svo ég geri mitt besta til að vernda mig. Það versta við Covid eru þeir sem verða ekki sýnilega ,veikir en bera veiruna í sér og það finnst mér óhugnanlegasti parturinn af þessum faraldri. Nú veikjist miklu yngra fólk en þau eiga væntanlega pabba og mömmu, afa og ömmu sem eru mögulega í áhættuhópum. Ég er beggja blands vegna skólanna hefði mátt leggja meiri áherslu á fjarnám til að minnka blöndun hópa í kennslu og skólalóð. Samkomustaðir lokaðir kl. 23 á kvöldin en svo sérðu afleiðingarana hópsamkomur allsstaðar eftir lokun og enginn virðir neinar reglur. Með þessu blaðri mínu vil ég herða á en ekki gefa eftir um leið og enginn mælist með Covid og það í a.m.k mánuð eða tvo. Efast ekki um það eitt augnablik að það er mikill þrýstingur í gangi á heilbrigðisyfirvöld af fólki í ofangreindum geira þó svo þríeikið hafi neitað því. Ég hef þá skoðun að þau fyrir tæki sem hanga á brauðfótum í þessum geira verði bara að játa sig sigruð og þau hin fjársterkari haldi velli. Ekkert hefur verið gert fyrir fólkið í landinu heldur einblínt á fjármálageirann og ótal milljónum úthlutað beint í svarthol. Jæja..best að þegja áður en ég segi meira ;)

Lausagönguhundarnir í Eyjum

Mikið er maður orðinn leiður á að sjá og lesa að það eru yfirleitt sömu hundarnir sem eru að sleppa og þvælast um alla Eyju,mörgum til ama.
Svo eru það alltaf sömu afsakanirnar hjá eigendum þessara sömu hunda. Mér finnst bara mikið að ef eigendur geta ekki tjóðrað hundana sína betur og passað betur uppá dýrin sín.

Hér heima fyrir hefur ekki verið friður fyrir einum stórum hundi,svörtum að lit með smá hvítt undir hálsi/á bringu og meira segja hefur þessu hundur marg reynt að komast inn en sem betur fer hef ég nú læst.
Hélt fyrst að þetta væri einhver óprúttinn að reyna fyrir sér í innbroti því það var margsinnis ýtt á hurðina og húnninn á útidyrahurðinni var hreyfður. Svo kom í ljós að þetta var umræddur hundur sem ég nefndi hér að ofan.  Sá hann hér bak við hús í morgun. Sniðugur og getur greinilega opnað hurðir og sem segir mér líka að ef þessi hundur getur opnað dyr heima hjá sér til að komast út þá þarf auðvitað að læsa.
Og enn og aftur má minna á að það eru margir skíthræddir við hunda og lausaganga hunda er bönnuð. Þið vitið þetta vel eigendur þessara hunda.
Þetta þarf ekki að vera svona.
Óslökkvandi þorsti
 Pössum betur uppá dýrin okkar og bestu vini
 og tökum tillit til náungans og ekki síst   þeirra sem eru hræddir við hunda

 Myndin er af Boxertíkinni Ninju sem við   áttum eitt sinn .

 Kveðja úr Kollukoti


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband