Aftur til fortíðar

Það er ekki frá því að ég hafi pínulítið gaman af að hlusta á fólkið sem kemur fram í fjölmiðlum þessa dagana og talar um kjötneyslu. Við borðum of mikið kjöt og blessuð börnin í skólum landsins eigi að öllum líkindum að fara á beit í grænmetinu. Jú það er minnst á að draga úr kjötneyslu niðrí 1x í viku sem er jú bara allt í lagi. Það þekki ég úr minni æsku en stundum var ekki kjöt á borðum nema í mesta lagi einu sinni til tvisvar sinnum í mánuði en mikið borðað af fisk og stundum 2x á dag og grautar ýmiskonar. Í minni æsku var ekkert til sem hét matarsóun. Það sem var lagt á borð var borðað upp til agna. Svo er verið að ræða um plastpokana sem við notum ógrynni af undir allt sem við kaupum og nú á að minnka eða jafnvel hætta að nota plastpoka alfarið..sem er jú bara gott. Hér áður fyrr voru notaðir bréfpokar og eða innkaupanet sem voru haglega gerð fyrir þær vörur sem þurfti að kaupa í matvörubúðinni og það var notað aftur og aftur og gert við og lagað ef það fór að trosna. Og svona til gamans þá var mjólkin keypt á mjólkurbrúsa sem voru notaðir aftur og aftur.Til kælingar geymdust brúsarnir fyrir utan útidyrnar þar sem ekki var til neitt sem hét ísskápur á mínu heimili fyrr en löngu seinna og hvílíkur munur.
En út í annað.. líklega erum við að kaupa allt,allt of mikið inn fyrir heimilið sem svo jafnvel skemmist. Mér persónulega finnst voða gott að kaupa inn fyrir nokkra daga í einu því þá er minni hætta á að maður kaupi eitthvað aukalega. Svo fyrir utan það þá hundleiðist mér að fara útí búð á hverjum degi enda meiri hætta á að kaupa eitthvað gúmmelaði aukalega wink Látið mig þekkja það. Já og svo þessi gullna regla að fara aldrei svangur út í búð að kaupa inn. Svangur út í búð þýðir bara eitt..fullt af allskonar óþarfa. Ég held við þekkjum það mörg hver á eigin skinni.
En eitt má alveg hafa bak við eyrað að vörur sem eru komnar fram yfir síðasta söludag og að ég tala nú ekki um mjólk sem hefur ekki verið opnuð þá er ekkert af því að nota mjólkina nú eða rjómann og margt annað. Ég man reyndar eftir því í nokkur skipti í denn að þegar maður fékk sér kaffisopann og setti mjólkina útí (úr mjólkurbrúsanum) þá varð kaffið stundum hvítkornótt eða mjólkin sökk í kaffinu..kannski örlítið súrbragð en maður lét sig hafa það og bara fínt að setja nokkra mola útí kaffið wink Það þýddi ekkert að væla yfir þessu, mjólkin var kláruð úr brúsanum fyrir næstu ferð í mjólkurbúðina.
Það er gríðarleg sóun að henda mjólkurvörum sem eru komnar á síðasta söludag.
Svo er hitt að þegar ég t.d elda mat fyrir okkur gamla settið og það verður afgangur þá nota ég afganginn í kvöldmatinn daginn eftir og ef það er eitthvað lítið má alltaf bæta með því að hafa með t.d brauð og eða spæld egg eða hvað svo sem þú finnur í ísskápnum. Ég elska fisk og minn maður líka og mér finnst allskonar fiskréttir góðir, ofnbakaðir, pönnusteiktur á gamla mátann í raspi og góðu kryddi og setja fiskinn í sparifötin með því að hella rjóma yfir fiskinn á pönnunni og malla í smástund, guðdómlega gott á bragðið. 

Ég man eftir að ef ekki var hægt að fá kjöt á sunnudögum í minni æsku þá var mamma svo sniðug að útbúa einstaklega góðan fiskrétt í brúnni lauksósu  sem var svo ofsalega gott og stundum geri ég þennan rétt sjálf til að minnast þessa tíma. Það var alltaf notað mikið af kartöflum með öllum mat í denn og ég er enn þannig að borða mikið af kartöflum. Já það er ansi margt sem maður getur lagað í sinni matarneyslu en við þurfum að borða kjöt því úr því færðu í kroppinn allskonar vítamín sem við þurfum á að halda. Að vísu er hægt að kaupa allskonar töflur til að bæta upp þann skort en hitt er heilsusamlegra að mínu mati. Mér leiðist hrikalega þegar örfáar manneskjur í fjölmiðlum úthella visku sinni með hvað má og hvað má ekki þessi forræðishyggja er farin að mörgu leiti úr böndunum.Enda finnst mér að hver og einn sé alveg óheimskur að ákveða hvað sé best fyrir sig og sína. Stundum fær maður það á tilfinninguna að allir aðrir séu forheimskir, viti ekki neitt,kunni ekki neitt og þess vegna finnur forræðishyggja nokkurra einstaklinga knýjandi þörf fyrir að segja fyrir hvað okkur hinum "heimsku" hvað sé okkur fyrir bestu. Enginn veit betur en forræðishyggjufólkið og jú það á sér fylgjendur en stundum verðu maður bara kjaftstopp yfir grunnhyggni þessa hóps.
Ég hef svo sem ekkert út á það að setja ef fólk vill borða eingöngu grænmeti það er þeirra val en ekki að þeirra val og skoðun eigi bara breiða út eins og einhvern heilagan boðskap til handa öllum. Ég tel að við séum nógu þroskuð og meðvituð um hvað hver vill en þegar svona boðskapur breytist í einhverskonar hjarðhegðun og þetta sé það eina rétta fyrir alla er það mér á móti skapi. Enda lætur þú engan segja þér hvernig þú átt að hafa hlutina. 
Ég varð sjálfráða 16 ára og 65 er ég enn sjálfráða og ætla að mér að vera það áfram meðan andi bærist í brjósti mínu og ég hef eitthvað um það að segja hvað ég vil og hvernig ég haga mínu lífi. Ég þoli engan vegin bönn og höft og þaðan af síður forræðishyggju einstakra aðila í þjóðfélaginu. 
Búin að blása hahahaha eigið annars góðan dag og kærar kveðjur héðan úr Kollukoti cool


17. júní er brúðkaupsdagurinn okkar

Ég valdi þennan dag fyrir 11 árum síðan að biðja elskuna mína að giftast mér. Já ég..gerði það ;)
Hann var úti í garði að slá á þessum yndislega degi, blásaklaus og vissi ekkert hvað kærastan var búin að plana fyrir margt löngu síðan.
Þetta hefði ég aldrei gert..nema að ég vissi að hann var sá sem ég vildi eyða ævi minni með og hann var á sömu bylgjulengd og ég og við vorum eitt.. frá byrjun okkar sambands.
Yndislegri manni er ekki hægt að eignast sem eiginmann og þann eðalmann sem hann Ómar minn hefur að geyma.
Hann ljúfur,blíðlyndur,þolinmóður en um fram allt,einstaklega góður vinur.
Og ekki síst vinur vina sinna.
Ég tel mig heppna að hafa kynnst Ómari mínum á þessum tíma og miklu meira en það.
Ég vona innilega að allir þeir sem kynnast þessari ást..þessari hlýju og væntumþykju eigi yndislega daga,mánuði og ár framundan eins og ég og Ómar minn.
Það fer bráðum að skipast veður í lofti hjá okkur skötuhjúunum að flytja okkur um set og okkur hlakkar mikið til að fara í austurbæinn þar sem ég ólst upp sem barn en vissulega er þessi staður bara einn lítill hluti af þeim slóðum sem ég þekkti frá barnsaldri. 
Við förum úr stóru 3ja-4ra herbergja í helmingi minna húsnæði eða eitt svefnherbergi og stofa..en þar mun okkur örugglega líða vel..enda,enn nær hvort öðru ;)
Og þannig viljum við vera, saman,alltaf.
Sem segir að erfitt verður að fá næturgesti í framtíðinni en alltaf finnst lausn einhversstaðar og einhvertíma ;)

Við  gamla settið, bíðum bara spennt eftir kallinu úr austurbænum og ég er
lööööngu tilbúin..hahahahaha ;) 
Eigið frábæran 17.júní elskurnar og Guð geymi ykkur hvert og eitt
Við  Ómar á þjóðhátíð 20101 1

Kærar kveðjur frá okkur Ómari
úr Kollukoti






 







_mar_skipstjori.jpg Elskan mín :)






 

 

 

 

Uppáhalds presturinn okkar sem gaf okkur saman fyrir 11 árum síðan.

Svaramenn voru Helena  dóttir mín og Geir tengdasonur minn :)

DSCF0632


Í blóma lífsins

Aðfangadagskvöld og jólagleðin breytist yfir í mikla sorg eins og hendi væri veifað. Símtal sem ég mun aldrei gleyma né nokkur annar í fjölskyldu minni um að frændi minn og yngri sonur Ingu systir minnar væri dáinn. Svo óraunverulegt fannst mér að heyra þetta og finnst enn . Rétt nýlega orðin 29 ára,mikill íþróttamaður og markmaður í handbolta hjá ÍBV. Hvað getur maður sagt eða gert nema faðma syrgjandi móður og systur mína að kvöldi Aðfangadags,bara vera til staðar ásamt fleirrum henni nánir. Yfirþyrmandi doði og vantrú á að þetta hafi virkilega átt sér stað er enn fyrir hendi en veruleikinn er annar, ískaldur og raunverulegur hann er dáinn blessaður ungi maðurinn í blóma lífsins hann Kolbeinn Aron. Það á enginn að þurfa að sjá á eftir barni sínu en raunveruleikinn er oft annar en við óskum og vonum og örugglega ekki í fyrsta skipti sem móðir segir af hverju gat þetta ekki verið ég. Það verður fátt um svör við þessi orð en ég skildi hvað hún meinti. Hún hefði gefið líf sitt fyrir son sinn svo hann mætti vera lengur hér á jörð.En allt val um það er ekki i okkar hendi og hjartað brestur af sorg.
 Það er erfitt að biðja guð sem tekur..um styrk til handa systur minni  og bróður hans á þessari stundu en ég ætla samt að gera það því það eru erfiðir tímar framundan hjá fjölskyldunni og ekki síst vinum hans í handboltanum og þeim fjöldamörgu sem hafa kynnst honum gegnum hans líf. 
Vinamargur og hrókur alls fagnaðar bæði utan sem innan vallar var hann Kolli sem við nánasta fjölskylda kölluðum alltaf Aron. Elsku fallegi systursonur minn þín verður sárt saknað af okkur öllum og við munum ætíð geyma minningu um góðan dreng við innstu hjartarætur alla okkar ævidaga og hugsa með mikilli hlýju til þín elsku vinur og frændi. Í mínum augum verðurðu alltaf litli drengurinn sem ég fékk að fylgjast með í uppvextinum ásamt móður þinni sem svo einlæglega elskaði þig og vildi allt, bókstaflega allt fyrir þig gera og hafa velferð þína sem allra besta eins og var með eldri bróður þinn hann Einar Birgi. Ég vildi óska að ég gæti sagt þessi orð við þig elsku Aron minn,kannski geturðu lesið huga minn og okkar allra til þín,kannski sérðu okkur öll syrgja þig og gráta. Ég vil trúa því að þú sjáir hvað þú skildir eftir þig og hversu mikið þú áttir í okkur hverju og einu þegar þú varst kallaður skyndilega burtu frá okkur og ég vil trúa því að þú verðir með okkur og sérstaklega umfaðmir móður þína og sefar hennar djúpu sorg með tímanum, litli minn eins og hún kallaði þig. 
Guð geymi þig elsku drengurinn minn

Harpa frænka



Demantarnir mínir

Það er kominn laugardagur og sá tuttugasti og annar desember 2018. Úti er algjört logn, ekki snjór en allt er hvítuhulið og bíllinn líka sem á að vera dökkblár. Það er við núll gráður á eyjunni fögru og glitrandi ljósin gera frosthuluna eins og demanta, sindrandi og ævintýralega fallegt. Þurfti að erindast smávegis eldsnemma í morgun svo það voru ekki margir á ferli í allri fegurðinni, kannski einn og einn á leið í sund ,gangandi á glitrandi gimsteinum heiman og heim í kyrrðinni. Ekki laust við að gömlu vöknaði um augun yfir þessar ósnertu fegurð þennan morgun og ekki lagaðist sú gamla þegar tónar ómuðu í bíltækinu "Its beginning to look alot like Christmas " sem fór svo að konan við stýrið þurfti nokkrum sinnum að sjúga upp í neppalingin og þurrka stöku tár sem læddist niður vangana. Jól,fjölskylda, samvera og þakklæti og söknuður eftir þeim sem hafa hvatt okkur og munu aldrei aftur verða með okkur við jólaborðið. Því skulum við þakka það sem við eigum akkúrat núna fyrir börnin,barnabörnin,frænkur og frændur  og vini sem við erum svo heppin að eiga ennþá. Já maður verður líklega meyrari með aldrinum en það er bara líka allt í lagi og sem betur fer er ég ekki tilfinningalaus manneskja og já ég græt enn ef svo ber undir og gleðst ofboðslega yfir velgengi fjölskyldumeðlima enda vil ég þeim allt hið besta í framtíðinni og vona að þau megi eiga mörg góð og gleðirík ár og fullt af gefandi ást. Ég á allavega nóg af henni að gefa og ekki síst elskan mín, mín stoð og stytta gegnum súrt og sætt. Hann hefur staðið sem klettur við hlið mína í allskonar sjóum lífsins bæði góðum og slæmum og ég elska þennan mann svo innilega og meira með árunum og já.. ég var heppin að eignast hann sem eiginmann svo hlýr og góður sem hann er mér þessi elska og vill öllum vel.
Ég held að þessi elska hafi komið inní líf mitt á réttum tíma enda er hann minn verndarengill og segist hafa verið mér sendur.
Þegar ég sit hérna og bæti við þessa jólahugleiðingu mína er komin Þorláksmessa, allstaðar logar á hlýrri birtu jólaljósanna og öllum fallegu kertunum sem ég elska. Jólakveðjurnar berast til landsmanna hlýjar og fullar af ást og þakklæti og rétt áðan var verið að syngja Heims um ból af einstaklega flottu söngfólki á jólatónleikum úr Hörpunni, þvílíkir snillingar sem þetta fólk er og manni hlýnar inn að innstu hjartarótum við að heyra svona söng. Elskan mín er farin niðrí bæ að kaupa eitthvað fallegt handa gömlu sinni í jólagjöf enda er Þorláksmessa hans dagur jólagjafakaupa en ég sagði honum í gær að hann fengi sko þrjár gjafir frá okkur heimilisfólkinu hahahha  eina frá mér og sitthvora gjöfina frá Önju og Snúllu hundunum okkar. Sniðuga ég hahahahha. Hér fer allt að verða klárt fyrir morgundaginn Aðfangadag,bara eftir að skipta á rúminu og svo förum við út í kirkjugarð á morgun til að tendra kerti hjá henni elsku mömmu minni og systur minni henni Önnu. Kirkjugarðurinn hér á Heimeya finnst mér einstaklega fagur með öll þessi jólaljós sem skreyta grafir ástvina okkar í þessu skammdegi. Að lokum vil ég óska ykkur öllum elsku fjölskylda okkar, ættingum og góðum vinum okkar hjóna,allra heilla með innilegu þakklæti fyrir árið sem senn fer að líða í aldanna skaut. 
Geymi ykkur öll, allar góðar vættir elskurna mínar og verndi hvert ykkar spor.
Með ást og þakklæti fyrir ríkidæmið okkar og megi guð geyma ykkur
Kolbrún Harpa og Ómar í Kollukoti


Lengi má manninn reyna

Fjölskyldubönd eru margbrotin, systkini eins ólík og svart og hvítt.
Börnin þín eiga misvel uppdráttar í lífinu. Sumum gengur einstaklega vel bæði í skóla og í lífinu sjálfu og svo eru það einstaklingar í fjölskyldunni sem gengur ekki eins vel. Við þessa einstaklinga ber þér að styðja sem foreldri, sama hversu erfiðlega það gengur. Því miður er til í raunveruleikanum að þessi einstaklingur stundum kallaður "svarti sauðurinn" í fjölskyldunni er hundsaður, næstum eins og hann/hún sé ekki til og einblínt á hina sem renna ljúft í gegnum blessað lífið.
Mín skoðun er sú að mér finnst grimmilegt allt afskiptaleysi ef eitt af börnunum er hundsað og næstum látið eins og það sé ekki til. Börnin okkar eru alltaf börnin okkar þó svo þau verði fullorðin og þegar við bætist að viðkomandi er orðin fullorðinn, á börn (barnabörnin þín) og þú leyfir þér að hundsa barnið þitt þá ertu einnig að hundsa barnabörnin þín og það finnst mér hræðilega ljótt. Að ég tala nú ekki um ef gert er uppá milli systkina og barnabarna, það er enn ljótara. Bjóða til veislu og öllum boðið nema......
Það er EKKERT sem afsakar afskiptaleysi foreldra í garð fullorðins barns síns og barnabarna. Það svíður meira en orð fá lýst. Sögusagnir um viðkomandi einstakling/barnið þitt sem þú ert tilbúinn að trúa án þess að ræða við barnið þitt og spyrja hvað sé rétt í málunum. 
Það er svo auðvelt að trúa lyginni en verst er þegar foreldrar snúa bakinu við einstaklingnum og trúir frekar sögusögnum.

Þú veist jafnvel ekkert um hvernig barnabörnum þínum vegnar í lífinu vegna þess þú getur ekki fundið hjá þér að vera í bandi við "svarta sauðinn" þinn sem jú þú komst í heiminn hvorki heimsótt né hringt í til að kanna hvernig viðkomandi gengur. 
Þegar þú leyfir þér meira að segja að tala niðrandi og niður til þessa einstaklings fyrir framan aðra í þau fáu skipti sem sem þið hittist jafnvel. 

Ég tel að dýpra sé á þannig tali og ég tel að foreldrið sem þannig talar niður til fullorðins barns síns sé veiki aðilinn í þessu öllu en hvorki vill né kannast við það að líða svo illa í sinni eigin sál og skinni að þetta er látið bitna á þeim sem síst af öllu eiga það skilið. 
Að standa ekki með barni sínu ungu eða fullorðnu fram í rauðan dauðan er ekki til í mínum kokkabókum en greinilega til annarsstaðar, því miður. Hvernig getur foreldri svo til hætt að elska barnið sitt, fullorðna barnið sitt og sýnt því slíka lítilsvirðingu á fullorðins árum og um leið barnabörnum. Það er að mínu mati eitthvað sem viðkomandi foreldri þarf að vinna úr og viðurkenna fyrir sjálfu sér að rótina af öllu leiðindunum, ljótu orðunum afskiptaleysinu er að finna í lífi þess sjálfs.
Eitthvað sem viðkomandi hefur ekki getað leyst né rætt um en lætur alla sína vanlíðan bitna á þeim sem síst skildi. Það er mikil grimmd falin í þannig verkum og gert til að brjóta annan aðila niður og ef þú ekki ferð að ráðum þessa foreldris máttu bara eiga þig. Stjórnsamt foreldri í bland við mikla þrjósku,viðurkennir aldrei eigin mistök né annarra og getur orðið óstjórnlega reitt og heiftúðugt og oftast er það einstaklingurinn sem þarf mestu hjálpina sem verður fyrir þessu. Foreldrið vill halda áfram að stjórna barninu/fullorðnu þó svo viðkomandi sé komin með maka. Ekkert er nógu gott og aðfinnslurnar særa og gleymast aldrei.
Ég sjálf hef vafalaust ekki alltaf verið fyrirmyndarforeldri gegnum tíðina en ég myndi aldrei haga mér svona eins og ég skrifa hér að ofan. Og þegar fullorðnu börnin eru komin með maka þá dirfistu ekki að skipta þér af þeirra fjölskyldulífi né hvernig þau eiga að haga sér að þínu mati. Miklu frekar styðurðu þau á allan þann máta sem þú getur og aðstoðað í blíðu og stríðu. Símtal getur gert kraftaverk búi þið ekki á sama skikanum og spjalla  um daginn og vegin og ekki síst láta sig varða um barnabörnin. Spyrja hvernig þeim vegnar og hlusta fyrst og fremst á það sem verið er að segja þér. Skreppa í heimsókn og spjalla saman sem jafningjar. Eiga börnin þín og barnabörn sem bestu vini og gefa þeim þá hlýju sem þú býrð yfir sem afi eða amma. Ég tel mig eiga þannig samband við mín börn og barnabörn en maður getur alltaf gert miklu betur.
Ég á fáa en góða vini og þar með talið eru börnin mín og maki minn. Ég á mjög erfitt með að horfa uppá eða sitja hjá þegar einhver verður undir í lífinu og þá sérstaklega innan fjölskyldu.
Læt hér staðar numið þó svo ég gæti skrifað miklu meira. Kannski vekur þetta einhverja til umhugsunar..kannski ekki.
Eigið góðan dag elskurnar
Kveðja úr Kollukoti
ast 4


Stundum klárast batteríin í orðsins fyllstu..

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu vefjagigt hefur rosaleg áhrif á líf manns hvern einasta dag. Auðvitað koma góðir dagar, fullir af orku og þá er hætt við að ég gleymi mér, dagar án verkja og þá eru eru mér allir vegir færir, allavega einhverja stund. Þá verður framúrkeyrslan og þú ætlar þér að gera allt sem hefur setið á hakanum dagana á undan. Orkuskotið er yndislegt finnst mér þá hittir þú aftur gömlu þig og getur næstum því allt meðan á því stendur.
Ég tel að ég sé svolítið ofvirk því ég get helst ekki verið án þess að gera ekki neitt nema það sé uppeldið að einhverju leiti. Snemma út að vinna, níu ára að brjóta pappaöskjur í Hraðfrystistöðinni gömlu og þótti nú ekki mikið mál heldur bara gaman og maður fékk jú einhverja aura útborgað fyrir vikið. Sem að vísu fóru í hendur foreldra minna en í staðin fékk ég að fara í bíó á hverjum sunnudegi sjúgandi apótekaralakkrís meðan á sýningu stóð.
Ég var alveg sátt við þetta fyrirkomulag enda sjálfsagt og eiginlega ætlast til að börnin leggðu til heimilisins um leið og þau gátu orðið vinnandi á sumrin. En..þetta var alltaf gaman. Enda tel ég ekki eftir mér að hafa kynnst því snemma að vinna. Maður lærði að hafa fyrir hlutunum og ekkert var sjálfsagt eins og í dag en það er önnur saga.
En þetta innslag hefur ekkert með vefja gigtina að gera..held ég. Talað er um að ýmis áföll geti triggerað vefjagigt og þeim hef ég vissulega orðið fyrir og mörg hver mjög alvarleg bæði andlegum og líkamlegum.
Ég hef barist við þunglyndi í mörg ár en fékk rétt lyf og fór að líða miklu betur í kjölfarið og fór að skapa.

 Innra með mér vaknaði listamaðurinn í mér og fór að blómstra og ég elska að útbúa fallega hluti s.s skreyta kerti fyrir hin ýmsu tækifæri.Eða vinna í tölvunni og útbúa fallega bakgrunna fyrir ljósmyndir sem ég svo set á kerti eða bara sem mynd í ramma. Ég er með síðu á feisbúkk sem heitir Gullkornin mín og KH Art en þar er ég að þýða falleg orð úr ensku og setja í fallega umgjörð.

Mér finnst alveg magnað hversu vinsæl þessi síða hefur orðið og er stundum að fá allt uppí "fjögur þúsund like" þegar mest hefur verið og fólk fær að deila þessum Gullkornum að vild. Þarna var ég að gera góða hluti ,greinilega og litlu telpunni inní mér, vöknaði um augu vegna hinna ýmsu fallegu viðbragða sem síðan fékk.

Meira að segja hef ég gefið út sögu,skáldsögu byggða á sönnum atburðum sem heitir Silfurskrínið á geisladisk því það er ótrúlega dýrt að gefa út bók í rituðu formi sérstaklega ef maður á ekki fullt af aurum.
Til stóð að sagan yrði þríleikur og var ég byrjuð á framhaldinu en það dregur svolítið úr manni að gera næstu sögu þegar peningana vantar en hinn kosturinn var ódýrastur að segja söguna inná disk. Það kostaði jú peninga en ekkert á við prentaða sögu með myndum. Ég hannað sjálf formið/mynd og texta sem var umslagið utan um diskinn og það kostaði líka að prenta það út en ekkert á við það sem það hefði getað kostað. Mætti mikilli velvild við beiðni minni um prentun á umslögunum og einstaka fundu í hjarta sínu að styrkja útgáfuna að fyrstu skáldsögunni minni  og fyrir það er ég innilega þakklát en það voru fáir þó svo ég hafi reynt mjög víða hér á heimaslóð.
Sagan var tekin upp í Studio Hebs  en elsta dóttir mín var upptökustjóri/leikstjóri og nefndu það og studdi við gömlu frá A-Ö.

Hún las handritið yfir fyrir upptöku og lagði til eitt og annað sem betur mátti fara sem og var gert. Enda er hún sjálf meiriháttar penni og skemmtilegt að lesa það sem hún skrifar. En einhverra hluta vegna gekk mér illa að selja söguna af einhverju viti. Hvað olli því veit ég ekki..kannski finnst fólki ekki mikið varið í að kona gefi út skáldsögu hér í eyjum en hvað veit ég. En ekki má gleyma að ég fékk jú viðurkenningu fyrir útgáfuna, fallegan blómvönd og það gladdi mig.


Þegar listagyðjan steig út eftir að hafa verið falin innra með mér prófaði ég ýmislegt til að sanna fyrir mér að það var í raun ekkert það sem ég gæti ekki gert ef ég legði mig alla í það sem ég var að gera í það og það skiptið.
Ég reyni að láta mér aldrei leiðast og finn mér alltaf eitthvað að gera hversu lítið sem það er en stundum þarf ég hvíld ef ég fer framúr mér og þá er yndislegt að hvílast,hlusta á góða sögu og sofna.


Það pirra mig reyndar,dagarnir í vefjagigtarköstunum þegar mér verður lítið sem ekkert úr verki og það getur vissulega dregið mann niður en við því er ekkert að gera nema létta verkina með verkjalyfjum og hvílast.
Bakið mitt hefur stundum svikið mig gegnum tíðna í fyrsta skiptið þegar ég var í íþróttum á yngri árum en ég meiddi mig illilega í bakinu er ég lenti illa eftir hástökk og hef aldrei jafnað mig almennilega eftir það fall.
Og svo eftir að detta í hálku fyrir tæpu ári versnaði mjóbakið mitt enda urðu áverkar í nokkrum liðum neðarlega í bakinu og fyrir því finn ég daglega en mismikið.

Meira vælið hugsar einhver hahahahaha..en þetta er ég í hnotskurn,þetta sést ekki utan á mér en er þarna samt sem áður.

Það er annað sem hefur verið að læðast að mér og nokkuð oft undanfarið og það er þessi fjárans ofsakvíði. Hann skellur á manni skyndilega og ekki séns að útskýra af hverju/hvers vegna. Hvar og hvenær sem er heltekur þessi fjári líkamann og hjartað fer á fullt. Þessu fylgir mikil hræðsla og á stundum ferðu að ofanda eða einfaldlega að gráta því þér líður svo illa. Tilfinningin er þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að deyja. Þetta er óþverri sem ég vildi alveg vera án takk fyrir. Ég og vefja erum ekki bestu vinir enda fylgikvillar hennar ótalmargir sem ég nenni ekki að telja upp og hrjáir fólk mismikið og það eru margir sem ég veit um í þessum sporum sem eru mjög illa haldnir og miklu verr en ég.

En þrátt fyrir eitt og annað ekki alveg nógu gott þá er svo margt sem ég má vera þakklát fyrir og það ber að þakka og njóta.
Það styttist óðum í jólin og jólabarnið í mér er að vakna úr dvalanum og byrjuð að hlakka til og farin að huga að jólagjöfum handa ástvinum mínum.
Finnst jólin og allt umstangið kring um þau alveg hreint yndislegt og þessa ætla ég að njóta meðan ég fæ að ganga þessa jörð.
Kveðja úr Kollukoti
Njótið dagsins og ekki gleyma að faðma þá sem þér þykir vænt um
á morgun gæti það orðið of seint elskurnar



Samgöngur og ekki síst ÍBV

Segi bara bravó fyrir samgöngumálaráðherra..loksins loksins er verið að rétta hlut okkar Eyjamanna að borga sama fargjald í Þorlákshöfn og við borgum í Landeyjar. Enda hefur þetta verið ansi stór biti að kyngja fyrir marga hverja og rándýrt fyrir fjölskyldur að borga í Þorlákshöfn. Næsta skref er að viðurkenna sjóleiðina sem þjóðveg okkar Eyjamanna. Löngu kominn tími á það mál líka. Svo þegar fram líða stundir mætti fara enn dýpra í málin og greiða fyrir farið eins og í Hvalfjarðargöngin. Mikill vill meira hugsar einhver en þetta er bara réttlætismál fyrir okkur tæplega 5 þús manna þjóðfélag.

Maður getur nú ekki sleppt því að tala um ÍBV handboltaliðið okkar..djös..snillingar cool
ekki þekki ég til hvernig tekið er á móti Bikar- eða Íslandsmeisturum annars staðar á landinu en ég er hundrað prósent viss um að hvergi er tekið eins vel og veglega á móti sigurvegurum eins og hér á Heimaey. Ég hef verið við þessi tækifæri einu sinni um borð  með fótbolta hetjunum okkar og á bryggjunni og mér fannst alveg spes að verða þeima samferða alla leið heim og móttökurnar maður..vá. Þetta er bara míni þjóðhátíðarflugeldasýning par exelans og bros á hverju einasta andliti. Ég vil óska Bikarameisturunum í handbolta karla hjartanlega til hamingju  frábær leikur í undanúrslitunum og hvað þá í úrslitaleiknum. Maður verður bara að bugta sig og beygja fyrir hetjunum okkar bæði fyrr og nú, stelpum og strákum.. þið eruð frábær laughing Og Eyjunum til mikils sóma. Áfram ÍBV
Kveðja úr Kollukoti


Úr einu í annað að hætti Kollukots

Eftir dálítið hæðótta byrjun heilsufarslega séð upp úr miðjum janúar og er reyndar enn fer nú samt að sjást til sólar þó hægt fari en...hvað á maður svo sem að vera að kvarta. Best að hafa orð móður minnar í öndvegi "það er fullt af fólki sem hefur það miklu verr en ég" skal samt fúslega viðurkenna að það kom fyrir að ég gleymdi því annað slagið enda uppskar ég lungnabólgu uppúr þessari skæðu flensu og er á ansi sterkum lyfjakúr þessa dagana en þetta er að skríða saman. Ég er bara svo hrikalega óþægur sjúklingur og get helst ekki legi kyrr lengi en verð helst að hafa eitthvað fyrir stafni bara svona uppá geðheilsuna að gera,sjúkraliðinn,dóttir mín er margbúin að skamma mig og hótaði síðast að koma og setjast ofan á mig ef ég hlýddi henni ekki svo ég sagði bara : "Já..mamma" og lofaði öllu fögru ;)
Eins gott að við búum ekki saman mæðgurnar en stundum held ég að hún sjái gegnum holt og hæðir því hún virðist hafa lúmskan grun um að ég er ekki alveg að fara eftir því sem hún segir mér en ég reyni..allavega stundum.
Talandi um eitthvað skemmtilegra..sólin skín og úti er heiðblár himinn. Herjólfur gengur nú í Landeyjahöfn og er það mikil frelsistilfinning að heyra að höfnin er opin sem gefur manni tækifæri til að skreppa dagsferð og kíkja á ungana og fara á smá þvæling þegar manni dettur í hug.
Svo var ein virkilega góð frétt að þessi kona Sólveig sigraði formannskosningarnar hjá Eflingu með yfirburðum og um leið vona ég innilega að fari að fara kuldahrollur um margsitjandi rassa hjá hinum ýmsu verkalýðsfélögum þar á meðal hér í Eyjum. Því það er hægt að koma nýju fólki að en það þarf eftirfylgni,traust og trú á þeirri/þeim manneskjum sem koma með mótframboð. Það er ansi hart finnst mér miðað við það sem maður heyrir að sitjandi stjórnendur hirði bara launaseðilinn sinn um hver mánaðamót og ef þarf að inna eftir einhverju sérstöku að starfandi aðilar geti ekki svarað spurningum án þess að þurfa fyrst að hafa samband til Reykjavíkur. Ég stóð nú í þeirri trú að þeir sem fara með formennsku hjá Verkalýðnum ættu nú að vita eitt og annað og ef ekki þá lesa sig til,læra,mennta sig einmitt til að geta svarað fólki. Ég hef unnið undir stjórn reyndar 3ja kvenna sem inntu formennsku hér í bæ og þessar konur gátu alltaf,undir öllum kringumstæðum svarað spurningum sem upp voru bornar varðandi hin ýmsu lög og reglur því þær lögðu sig allar fram til að vera starfi sínu vaxnar. Sjálf hef ég innt af hendi trúnaðarstörf og verið í samninganefndum ásamt þessum konum. Og var okkar samstarf afar farsælt og ekki síst skemmtilegt.
Langaði til að henda fram einni spurningu ef einhver getur svarað henni "Ef til verkfalla kemur hvað er mikið í verkfallssjóði Drífandi Stéttarfélags ? Spyr vegna þess að einhver laug að mér(kannski ekki)að það væri enginn verkfallssjóður til hjá Drífandi..bara tómur. 
Mín skoðun er sú að það sé kominn tími á endurnýjun hjá stjórn félagins eins og hjá Eflingu. Fólk á ekki og má ekki vera þaulsetið.  Svo vona ég líka að Gylfi hjá ASÍ fari nú að kúpla sig útúr þessu hann er allt of handgenginn stjórnvöldum að mínu mati og já fleiri sem hafa sömu skoðun.  Já ég hef mínar skoðanir og er í fullum rétti með það og svo eru vafalaust aðrir sem telja þetta bara bull og þvaður í gamalli veikri kellingu sem hefur ekkert annað að gera en sitja fyrir framan tölvuna og rífa kjaft. En meðan andi bærist í brjósti mínu mun ég úthella mínum skoðunum og áliti hvar og hvenær sem er. 
Svo hafið þið það bara gott í dag og farið vel með ykkur
Kveðja úr Kollukoti


Dag skal að kveldi lofa.. að morgni nýjum degi fagnað :)

Kristín Ester Sigurðardóttir frá Vatnsdal lést aðeins 49 ára gömul eftir erfið veikindi.
Móðir mín Sigríður Sigurðardóttir frá Vatnsdal lést aðeins 59 ára gömul eftir erfið veikindi.
Anna Ísfold Kolbeins og Sigríðardóttir ein af þríburunum og systir mín lést eftir erfið veikindi aðeins rétt rúmlega 60 ára gömul.


Ég á mér örlitla stund meðan ég skrifa þessar setningar

um leið og ég minnist þeirra þriggja ,yndislegar manneskjur sem höfðu allar sem ein mikil áhrif á mitt líf..allt frá æsku fram á þennan dag. Ég skal fúslega viðurkenna að ég var ofboðslega hrædd um að mitt líf myndi enda  mögulega..kannski örlítið lengur en líf mömmu eins og ég nefndi hér að ofan aðeins 59 ára því einhvernvegin fannst mér að ég yrði ekki mikið eldri en mamma og ég þyrfti að yfirgefa fjölskyldu mína að eilífu og það fannst mér svo ömurleg tilhugsun að ég grét þegar enginn sá og varð oft afar döpur þegar þessi tilfinning komst upp á yfirborðið.
Því þær þrjár voru allt of ungar þegar þær þurftu að yfirgefa okkur ástvini sína  á jarðríki og ég er því þeim mun þakklátari fyrir hvern þann dag sem lífið gefur mér. 
Ég á yndislega fjölskyldu manninn minn elskulegan ásamt hans hlýju og góðu foreldrum,börnin mín og barnabörn,tengdabörn,allavega eitt stjúpbarn af þremur sem þykir vænt um mig. Maður getur víst ekki verið allra og það þykir mér leitt en svona er bara blessað lífið þó svo mér hafi sárnað á tímabili en ég er allavega komin yfir þetta og tek lífinu eins og það gefur mér.  
En í dag er afmælisdagurinn minn ég fæddist að sögn móður minnar heitinnar níu mínútur yfir miðnætti aðfaranótt þess 10 febrúar 1954 svo ég er fædd enn og aftur og aðeins eldri en í gær og ég finn ekki nokkurn mun..nema kanski elskan mín vaknar í fyrramálið með eina eldgamla við hlið sér hahahaha.. laughing
Hann er nú sjö árum yngri en ég þessi elska og hann valdi mig..hvað get ég sagt wink 
Jæja best að hætta að vera með einhvern gorgeir og óumræðilega leiðinlegt mont af mér og mínum en...mér þykir óskaplega vænt um fjölskyldu mína og ekki síst vil ég nefna hinn frábæra FRÆNKUHITTING sem Inga systir startaði og nú erum við búnar að hittast í heil 3 ár  takk fyrir ...á hverjum fimmtudegi (kanski 1-4  föstudagar í stað fimmtudagas á tímabilinu) mæting hefur verið með afbrigðum góð þó svo einn og einn hafi ekki getað mætt þá eru þetta dýrmætar og góðar minningar og ekki síst vegna Önnu systur minnar sem gat verið með okkur á nokkrum hittingum og þessar minningar geymum við í hjörtum okkar.
Svo ætla ég hér með að þakka fyrir allar afmælisóskirnar mér til handa..þökk sé feisbúkk wink Þið eruð æðisleg og eigið frábæra helgi í vonda veðrinu.
Kveðja úr Kollukotikiss


"Fólk á þínum aldri"

Þetta ofnotaða leiðinda,orðatiltæki "fólk á þínum aldri" finnst mér persónulega að verið sé að tala niður til fólks. Þessi leiðinda setning bremsar mann svolítið af. Og um leið og þessi orð eru sögð brotnar eitthvað innan í manni.
Þarna er verið að setja þig í flokkinn,sem á ekkert að taka mikið mark á..þennan sem er næstum komin með tánna á grafarbakkann. Þú ert ekki lengur í liði með hinum þú ert annars flokks manneskja og það er talað niður til þín af yngra fólki og sérstaklega læknum og ekki ósjaldan af fjölskyldumeðlimum. Líkt og þú sért allt í einu orðin óviti í annað sinn og hafir ekki hundsvit á neinu lengur og það er fullt af fólki sem vill hafa vit fyrir "fólkinu á mínum aldri" óbeðið.

Má ég þó leyfa mér að benda á nokkrar mikilvægra staðreyndir..þó þið haldið að þið vitið allt þá ég er ekki dauð úr öllum æðum ennþá ég er full af lífi og ævintýraþrá, elska að vera elskuð, elska náttúruna,sumarið og sólina, haustið og á veturna kertaljósin. Ég er hræðilega rómantísk eins og ég nýt þess að elskast með manninum mínum. Ég hef yndi af því að gera mig fallega eins og þú, mála mig eins og þú fara í strípur og klippingu eins og þú, verða brún og hraustleg..eins og þú.
Ég er full af orku ennþá og fer oftar en ekki framúr mér enda nýt ég þess að skapa, smíða lög og texta. Ég er listhneigð og ég veit vart hvað ég get tekið mér fyrir hendur því það er svo margt sem mig langar að gera og skapa. Ég hef leikið nokkrum sinnum á sviði og er með diplóma sem leikkona. Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að ljóð sem ég gerði 19 ára var frumflutt við lag Þorvaldar Bjarna í Hörpunni þegar 40 ár voru liðin frá eldgosinu á Heimaey. Og nú á aftur að flytja það þann 20 janúar í nýrri útsetningu og  nýjum söngvurum og ekki af verri endanum og ég er svo spennt. Ég hef gefið út fyrstu skáldsöguna mína á hljóðdisk "Silfurskrínið"  Það hefur verið gefin út á safnplata "í Skugga meistara yrki ég ljóð" eitt laganna er eftir elstu dóttur minna við texta okkar beggja. Nú hugsa margir: "Sú er góð með sig" en ég hef einfaldlega verið að gera margt sem aðrir hafa ekki gert eða þorað og ég er mjög ánægð með það sem ég hef afrekað. En oft vill það verða að það sem gert er á heimaslóðum er ekki eins merkilegur pappír nema ná í það út fyrir landsteina Heimaeyjar.


Það má vel vera að einstaka persónur að verða 64 ára séu orðnar úr sér gegnar en ég er það ekki..ekki ennþá. Og meðan ég finn fyrir þessu lífsfjöri og ást á lífinu og tilverunni get haldið áfram að skapa, hlægja eins og vitleysingur/grátið yfir bíómyndum og haga mér óskynsamlega á stundum,grínast óspart og getað notið lífsins geri ég það meðan andi bærist í brjósti mínu.
Þegar ég aftur á móti mæti nakin út í búð og í krummafót þá er í lagi að taka undir handlegginn og vísa manni rétta leið. 
En þegar farið er að taka fram fyrir hendurnar á "fólki á mínum aldri" og tala niður til þeirra þá hef ég þá skoðun eins og ég nefndi hér að ofan að nú sé verið að bremsa mann af. Þú átt ekki að haga þér svona eða segja svona eða skipta þér af nú er komið að því að setjast í helgan stein þú átt að vera svona en ekki hinsegin s.s ekki eins og þú vilt
það er ekki við hæfi fyrir "fólk á þínum aldri". Hæfi hverra spyr ég og fyrir hverja ?
Það er komið að þeirri merku stund að mati þeirra sem yngri eru að nú er kominn tími til að setja þig í hilluna með vörunni sem er komið fram yfir neysludag en ég bara púa á svona hugsunarhátt.


Það var hér einu sinni að fólk var talið háaldrað 40-50 ára gamalt og þess sjást mörg merki í kirkjugarðinum en það var ástæða fyrir að fólk lést svo ungt í raun og veru en var talið gamalt á þeim tímum. Það var allt erfiðið og búskaparhættir sem urðu til þess að fólk náði ekki hærri aldri. En það ætlar seint að skiljast í dag að "fólk á mínum aldri" lifir lengur og hefur það betra. Betri húskostur og vinna. Hér lifir fólk langt fram á 90 aldursárið og jafnvel lengur og konur eru oftast langlífari en karlar. Aldurstalan er bara tala og meðan þér líður eins og 30-40 ára þá skaltu bara leyfa þér að líða þannig hvað sem öðrum finnst. Þetta er þitt líf.

Því inní þér ertu ennþá þessi unga manneskja sem átt allt lífið framundan. Allt lífið er dagurinn í dag og eins er það fyrir þig unga manneskja og vonandi á morgunn og hinn og hinn. Því enginn veit sína ævina fyrr en öll er og dauðinn fer ekki í manngreinarálit. Ef lífið væri þannig að sá elsti dæi fyrst þá væri vel en það er ekki svo gott, dauðinn fer ekki í manngreinarálit eins og ég nefndi og það versta sem hægt er að upplifa er að þurfa að fylgja barni til grafar og foreldrið stendur eftir og spyr sig af hverju ekki ég.

Þó ég sé að nefna mín afrek og langanir þá hefur lífið ekki alltaf verið dans á rósum og hefur það hefur mótað mína persónu og styrkt enda hef ég aldrei gefist upp þó ég hafi verið barin niður eða á mér traðkað og verið milli tannanna á fólkinu hennar Gróu á Leiti. Þetta fólk sem smjattaði á sögum um mig á sínum tíma þekkti mig akkúrat ekki neitt og hafði ekki hugmynd um mín spor í lífinu og marga þá erfiðu og slæmu reynslu sem ég hef lent í gegnum ævina. Það er hægt að brjóta hvern mann niður og sverta á marga vegu með illu umtali ég einfaldlega frétti af þessu alveg óvart og hvað ég varð reið og sár og var það lengi en svo tók ég mig taki og hætti að hugsa hvað öðrum fannst um mig og í dag er mér svo slétt sama hvaða álit aðrir hafa á mér. Búandi við ofbeldi og drykkju sem barn gerði mig skelfilega hrædda og það er nokkuð sem ég hef aldrei getað fyrirgefið og mun aldrei gera. Sífeld hræðsla við hvað yrði næst gerði það að verkum að ég pissaði á mig á stundum svo hrædd var ég. Búandi svo við það sama mörgum árum seinna rúmlega þrítug var skelfileg lífsreynsla og ekki síst fyrir börnin mín.Á þessum tímabili missti ég algjörlega traust á laganna vörðum því ofbeldismaðurinn var lögreglumaður sem ég var gift í þrettán ár og guð hvað mér fannst ég ein og ég var ofsalega hrædd við hann enda var hann snillingur í að hóta og haga sér vel er ég neyddist til að hringja eftir aðstoð samstarfsmanna hans þá breyttist hann í mann sem var alveg sallarólegur og yfirvegaður og það var bara spjallað saman á léttu nótunum og þá sá ég að engra hjálpar var að vænta úr þeirri átt og flúði og ekki í fyrsta sinn því þessi sjúku menn eru svo sniðugir og sannfærandi og fullir eftirsjár með loforð um að gera þetta aldrei aftur. En það kom að því að þetta gekk ekki lengur og við slitum samvistum og ég hef aldrei á ævinni verið eins fegin og þegar ég varð laus við hann úr lífi mínu og ekki síst börnin mín og það sem ég sá mest eftir var að hafa ekki fyrir löngu verið búin að ganga burtu. Því börnin mín hafa ekki beðið þess bætur, andlega að hafa búið undir sama þaki og hann. En af hverju gerði enginn neitt vitandi af ofbeldinu..af hverju sté ekki einhver inn og hjálpaði mér og börnunum og sagði hingað og ekki lengra því það vissu ansi margir af þessu en það var horft framhjá þessu og ég spyr mig..hvers vegna ?

Ég hef aftur á móti talað um það áður að ég vildi óska að ég hefði kynnst núverandi manni mínum fyrir löngu,löngu síðan ljúfari og betri manni hef ég ekki kynnst um ævina og hann er mér svo góður og elskar mig eins og ég er og ég hann eins og hann er. Hann er svo hlýr í alla staði og aldrei í slæmu skapi og kemur mér oft til að hlægja og öfugt enda er hann rosalega stríðinn og hefur mikið gaman af hversu trúgjörn ég er. Ég alveg vilja gefa honum barn en þar sem ég var komin úr barneign er við kynntumst þá varð svo að vera en ég veit það eitt að hann hefði orðið alveg einstakur pabbi.

Eins og sjá má á skrifum mínum þá hefur brautin verið pínu rykkjótt á lífsleiðinni ýmis áföll sem ég hef unnið misjafnlega vel úr en aldrei gefist upp það bara finnst ekki í mínum kokkabókum. Ég vinn í lausnum og það hefur gefist vel.Ég er full af eldmóð og ég þoli ekki óréttlæti né níð eða það sé verið að gera lítið úr manneskjunni og svo vil ég skora á konur í Vestmannaeyjum að opna ME TOO síðu og ég skal vera sú fyrsta til að skrifa mína sögu.Því ég veit að það eru ótal margar konur/stúlkur sem hafa lent í þessu !

Farið svo bara vel með ykkur elskurnar og njótið augnabliksins
Kveðja úr Kollukoti wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband